02.04.1943
Efri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Haraldur Guðmundsson:

Ég ætla ekki að fara að styðja pýramídann, hv. 5. þm. Reykv. (BrB) þarf ekkert að óttast það. Um stafsetningarmálið tel ég fjarstæðu að deila hér. Hv. 7. landsk. (KA) var farinn að gerast gunnreifur áðan, saka menn um dómgreindarleysi og því um líkt, — ef honum er að því andlegur styrkur, er honum það ekki of gott. Hann telur, að ekki eigi að skipta sér af, hvernig sögurnar eru út gefnar, heldur eftirláta smekk og dómgreind almennings að skilja milli góðs og lélegs. Látum svo vera, að almenningur verði að vera fær um það og geri það, en það dregur ekkert úr ábyrgð útgefenda. Þess verður að krefjast af útgefendum, að þeir segi satt um vinnubrögð sín. Það á ekki að sleppa köflum úr sögu, semja inn í hana málsgreinar í staðinn og breyta nema segja frá því. Hvað mundi hv. 7. landsk. segja, ef ég tæki t.d. Sölku Völku og endursemdi hana þannig? Segjum, að ég væri svo ritsnjall maður, að ég gæti betrumbætt hana, en aðrir, sem tækju upp á því sama, skemmdu hana. Væri þá rétt að leyfa að breyta þeirri sögu? Ég segi nei. Og ég álít enga þörf að eyðileggja réttar skoðanir fólks á fornsögunum með því að gefa þær út breyttar, jafnvel þótt listarávinningur væri hugsanlegur í einstöku tilfellum. Breytingar á þeim nálgast mjög að vera ritfals. Úr því að bannað er með lögum að breyta ritum höfunda, sem eigi eru látnir fyrir lengri tíma en 50 árum, er full þörf að vernda eigi síður fornritin. Breytingarnar á Laxdælu eru víti til varnaðar. Það er fullkomin ástæða til að banna slíkt.