01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2822)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það er sennilega ekki auðvelt að úrskurða í þessu máli eftir þeim venjum, sem fyrir liggja. Ég skal ekki halda uppi löngum umr. um þetta, því að hv. dm. munu mynda sér skoðanir um þetta án þess, að langar umr. fari fram. Ég vil benda á í þessu sambandi, að dæmin um, að frv. sé svo breytt í annarri d., að það sé skoðað sem nýtt frv. í hinni, eru gömul allflest, að vísu eitt frá 1935. Aftur á móti eru þrjú ný dæmi þess, að miklar breyt. voru gerðar á frv., án þess að það hefði áhrif á meðferð málanna.

Ég tel þetta mál tæpast nýtt, því að fyrirsögn frv. er sú sama og tilgangur þess sá sami og hann var. Sú breyt. er aðeins, að teknanna til framkvæmda skal nú aflað með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í frv. fyr st. Ég tel mjög hæpið að líta á málið sem nýtt og ógerlegt að líta á það þannig út frá skýringum þessa fræðirits, sem hæstv. forseti vitnaði í, og mun ég því greiða atkv. með því, að málið verði meðhöndlað sem hið upprunalega.

Ég viðurkenni aðferð hæstv. forseta, að d. skeri úr um þetta, en tel frv. ekki svo breytt, að það geti talizt nýtt mál.