01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Magnús Jónsson:

Það er helzt lærðra lögfræðinga að ræða vísindalega um svona mál, en úr því að málið á að bera samkv. úrskurði hæstv. forseta undir okkur, sem erum ólöglærðir, þá verðum við að gera okkur grein fyrir málinu. Ég fer því ekki svo mikið út í venjuna, en vil aðeins segja um það frv., sem hér var talað um, hið svo kallaða bandormsfrv., að það frv. var alveg sérstaks eðlis. Það frv. var í mörgum liðum, og hver liður var í raun og veru eitt frv. Var alltaf verið að auka þar aftan við, og þar af fékk frv. nafn sitt, svo að þó að slíkum liðum fjölgaði eða fækkaði, þá var ekki hægt að tala um fjölgun eða fækkun breyt. á slíkum óskapnaði.

Hins vegar vil ég segja um það frv., sem hér liggur fyrir, að ég get ekki séð annað en hér hafi verið búið til nýtt frv. Fyrirsögnin stendur ein eftir, og hún er ekki ákveðnari en það, að hún er „framlög til kynnisferða sveitafólks“, og gætu undir þetta komið ýmsar aðferðir, sem væru ólíkar hver annarri, eins og þær aðferðir, sem hér hefur verið stungið upp á. Við verðum því að meta við okkur, hvort þær aðferðir, sem hér hefur verið um að ræða, eru svo ólíkar, að frv. verði að teljast nýtt mál, þegar um er breytt. Hér er stungið upp á allt annarri aðferð en áður var. Áður var um að ræða framlag úr ríkissjóði, en nú á að leggja þetta sem sérstakt gjald á þá, sem kaupa kjöt og mjólk. Mér skilst, .að þeir, sem framleiða, eigi ekki að greiða þetta, heldur á að bæta því við. Verðlagsnefndirnar ákveða verðið og bæta síðan þessum ½% ofan á. Ég er alls ekki tilbúinn að greiða atkv. um þetta mál. Ég vil segja, að það hefði verið réttara út af fyrir sig, að gjaldþegnarnir almennt hefðu staðið undir þessu en að leggja það sér staklega á þá, sem kaupa þessar vörur. Ég held því, að hér sé miklu lakara mál, eða a.m.k. allt annað mál. Ég held, að það sé óheppilegt, að sú venja skapizt að afgr. þannig mál á miklu auðveldari máta en annars, en ég hygg, að sú venja skapist, ef afgr. má mál á þennan hátt, svo framarlega sem hægt er að klúðra frv. undir sömu fyrirsögn, og þá sé nóg, að þau gangi í gegnum eina umr. í staðinn fyrir sex umr. Ég get hugsað mér þá meðferð á frv. hér, að menn vilji breyta því verulega, en því verður illa við komið, ef sú aðferð er við höfð, sem hv. þm. Str. lagði áherzlu á, að fresta umr., til að menn gætu athugað málið, og láta það fá þannig fullkomna meðferð. Ég skil ekki, hver tilgangurinn er með þremur umr. í hvorri d., ef hægt er að láta frv. fá jafngóða meðferð með því að fresta umr. til að athuga málið. Það væru þá sjálfsögð vinnuvísindi að breyta þingsköpum þannig, að aðeins ein umr. skyldi fara fram, en umr. frestað.

Ég skal svo ekki frekar um þetta ræða. Það er á valdi hæstv. forseta að ákveða, hvaða meðferð málið fær, en mér sýnist samt, að það geti orðið dálítið vandasamt að ákveða, hvenær mál skuli teljast nýtt, en um þetta mál hef ég ekki getað sannfært mig af þeim rökum, sem fram hafa komið, að hér sé ekki nýtt mál á ferðinni.