08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að orðlengja mikið um þetta umfram það, sem ég sagði áðan. En sérstaklega í tilefni af því, sem hv. þm. Barð (GJ) taldi hér áðan, að það þyrfti að breyta 1. gr. frv., ef ætti að samþ. það, vil ég segja nokkur orð. Nefndi hann til sérstaklega tvennt sem þyrfti breyt. við. Annað var það, að það væri aðeins talað um, að sá styrkur, sem frv. leggur til, að sjúkrahúsum skuli veittur til byggingar, skyldi veittur, þegar fé væri veitt til þess í fjárl., en þar væri ekki um það talað, hve mikið fé það ætti að vera. En að hinu leytinu fannst honum, ef frv. ætti að ná tilgangi sínum, að það þyrfti að breyta því, að samkv. ákvæðum 1. gr. frv. gæti trúnaðarmaður ríkisins komið í veg fyrir sjúkrahúsbyggingar með því að samþ. t.d. ekki uppdrátt.

Um þetta vil ég segja það, að það er ómögulegt að ákveða í l., hve mikið fé skuli veita í fjárl. til þessara framkvæmda. Það verður mismunandi frá ári til árs og verður að ákveðast í sambandi við hver fjárl. fyrir sig, sem byggist þá á upplýsingum í hvert skipti um það, hverra framkvæmda sé von í þessu efni af hálfu bæjar- og sveitarfélaga á næstu tímum. Og það verður vitanlega alltaf þó nokkuð vitað um það fyrir fram, vegna þess undirbúnings, sem verður að fara fram eftir l. eins og þau nú eru, áður en bæjar- eða sveitarfélög geta slegið föstu, hvort þau byggi sjúkrahús eða ekki. Á þennan hátt verða í hverju tilfelli að fást upplýsingar um það, hve mikið fé eigi að veita í fjár l. næsta árs til þessa.

Viðvíkjandi hinu atriðinu vil ég segja, að ég álít síður en svo þörf að breyta frv. í því efni. Það er alls ekki tilgangur minn með þessu frv. að komast að neinu leyti fram hjá yfirstjórn heilbrigðismálanna í landinu um það, hvernig hagað sé og komið fyrir sjúkrahúsum á landinu. Ég tel sjálfsagt, að heilbrigðisyfirvöldin hafi sem bezta aðstöðu til að hafa áhrif á það efni, og þau hafa að sjálfsögðu nokkuð vald til þess að hafa áhrif á það, hvernig gengið er frá sjúkrahúsum. Og ég álít, að það sé ekki rétt, að bæjar- eða sveitarfélög geti byggt sjúkrahús eftir eigin höfði og heimtað framlag til þess úr ríkissjóði, án þess að fyrirkomulagið sé í samræmi við það, sem heilbrigðisstjórn landsins telur, að þurfi að vera á hverjum tíma. Ég álít sem sagt, að þetta eigi að vera eins og lagt er til með frv. Heilbrigðisstj. á að vera færust um að ákveða um það, hvernig þeim hlutum skuli hagað.

Þá var hv. þm. Barð að óska eftir upplýsingum um það, hve mikinn kostnað fyrir ríkissjóð það mundi hafa í för með sér, ef b-liður 1. gr. verður samþ., þ.e.a.s. um þátttöku ríkisins í rekstrarhalla sjúkrahúsa vegna utansveitarsjúklinga. Það er rétt, að það liggur ekkert fyrir um það, hvorki frá mér sem flm. eða frá hv. n., enda mun vera dálítið torvelt að fá um þetta nákvæmar upplýsingar. Það mun að vísu vera hægt að afla upplýsinga um þetta viðkomandi síðasta ári eða um nokkurt tímabil, hve margir legudagar utansveitarsjúklinga hafa verið á sjúkrahúsunum og hve mikill kostnaður hefur verið í sambandi við þá. Það hefur ekki verið gert. En þó að það yrði gert, yrðu það ekki nákvæmar upplýsingar um það, hve mikill kostnaðurinn yrði. Því að þetta er mismunandi frá ári til árs. En ég held að hinu leytinu, að þó að það fé, sem ríkissjóður þannig mundi leggja fram, væri allveruleg hjálp fyrir viðkomandi sveitar- og bæjarfélög með því að létta þeim rekstrarhalla sjúkrahúsanna allmikið, þá sé þar ekki um svo mikla upphæð að ræða, að haft geti nokkur afgerandi áhrif á rekstur ríkisbúsins eða afkomu ríkissjóðs. Og þó að skemmtilegra hefði verið að geta gefið upplýsingar um þetta, þá skiptir það ekki svo miklu máli, að það geti verið afgerandi um það, hvort hv. þm. vilji fallast á þetta frv. eða ekki.

Að lokum vil ég taka undir þær raddir, sem hér hafa komið fram um það, að hv. þm. gefist kostur á að kynna sér þetta bréf landlæknis, sem getið hefur verið hér, þar sem hann mælir á móti samþykkt frv. Ég hef ekki séð þetta bréf. Ég hef persónulega ekkert á móti því að sjá það og að aðrir hv. þm. fái að kynnast þeim rökum, sem þar eru gegn frv. En eftir því, sem fallið hafa orð hjá einstökum hv. nm., þá á ég heldur ekki von á því, að það mundi verða til þess að standa mjög í vegi fyrir því, að frv. nái fram að ganga. A.m.k. hefur mér skilizt, að afstaða hv. nm. í allshn. hafi ekki breytzt í þá átt við það, að þeir hafa kynnt sér þau rök, sem landlæknir færir fram í bréfinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en vænti þess, að hv. þdm. vilji fallast á þetta frv. á sama hátt og hv. allshn. hefur þegar gert að sínu leyti.