07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (3081)

26. mál, virkjun Gönguskarðsár í Skagafirði

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Í grg. frv. er gerð grein fyrir nauðsyn þess, að þetta mál er fram komið, og þar af leiðandi get ég stiklað á stóru í framsögu þessa máls.

Fyrir allmörgum árum réðst hreppsn. Sauðárkrókshrepps í það að reisa raforkustöð vil litla á, sem er innan við kauptúnið. Var til þess ætlazt, að með þessu yrði tryggð næg raforka fyrir Sauðárkrók um alllangt árabil, en nú er svo komið, að hún er hvergi nærri nóg, þó að miðað sé einungis við ljósaþörf þorpsbúa. Til þessa liggja ýmsar ástæður. Á þessu tímabili hefur fólksfjölgun á staðnum orðið mikil, sem mun nema um 1/4 eða 25% af íbúatölunni.

Iðnaður hefur verið hafinn í kauptúninu og mundi aukast mjög mikið, ef nægilegt rafmagn væri fyrir hendi. Frystihús hafa verið reist, og þarfnast rekstur þeirra þó nokkurs rafmagns. Önnur mannvirki, svo sem höfnin, krefjast og aukinnar rafmagnsnotkunar. Enn fremur er í ráði og samþ. af Alþingi, að reist verði síldarbræðslustöð á Sauðárkróki, en ekki verður byrjað á því verki, fyrr en gengið hefur verið úr skugga um það, hvort kostur sé á nægilegu rafmagni til þess að reka slíka stöð. Hver og einn getur sjálfur sagt sér af því, sem þegar hefur verið drepið á, að rafstöð sú, sem fyrir er á Sauðárkróki og ekki er nægileg til þess að fullnægja ljósaþörf þorpsbúa, getur ekki á neinn hátt bætt úr þeirri þörf, sem verður á raforku til þessarar fyrirhuguðu síldarbræðslustöðvar og annarra nauðsynlegustu fyrirtækja í kauptúninu.

Nú er svo komið, að stöðvun hefur orðið á iðnframkvæmdum vegna rafmagnsskorts, og líkur benda til þess, að menn verði að flytja burt úr plássinu með iðnrekstur sinn til þeirra staða, þar sem meira rafmagn er fyrir hendi, sem mundi leiða til stórtjóns fyrir Sauðárkrók og héraðið í heild. Af rafmagnsleysinu leiðir kyrrstöðu í kauptúninu, sem er óþolandi með öllu. Það er þess vegna hið mesta nauðsynjamál, að Gönguskarðsá verði virkjuð hið allra fyrsta.

Þegar raforkustöðinni hefur verið komið upp, er ætlunin að leiða rafmagnið inn í sveitina, að Varmahlíð sem endastöð. — Allir þeir, sem til þekkja og sérfróðir eru í þessum málum, líta svo á, að þarna séu ágæt skilyrði til rafveitu, bæirnir standa þétt eða í hópum eða torfum milli Sauðárkróks og Varmahlíðar. Svo ber og á það að líta í þessu sambandi, að í Varmahlíð er að rísa alþýðuskóli, sem yrði, ef ekki yrði farið út á þá braut, sem frv. leggur til, að koma sér upp sinni eigin rafstöð, sem ríkið yrði þá að verulegu leyti að kosta úr sínum sjóði.

Því er verr og miður, að við flm. getum ekki lagt hér fram kostnaðaráætlun, en rafmagnseftirlit ríkisins vinnur nú bæði að teikningum og kostnaðaráætlun þessa fyrirtækis, og mun sjálfsagt ljúka því verki til fulls innan skamms.

Ég vil og geta þess, að þetta frv. er flutt vegna almennra óska og áskorana héraðsbúa, og þeir vita bezt, hver knýjandi nauðsyn það er, að þetta mál nái fram að ganga.

Eins og kunnugt er, hefur mikið verið um það rætt að koma rafmagni inn á sem flesta bæi þessa lands, og virðist nú efst á baugi að virkja tvö stórfljót og leggja háspennulínu þaðan til þess að dreifa rafmagninu út um sveitirnar. Mest er rætt um, að Laxá í Þingeyjarsýslu verði þá fyrir valinu norðanlands. Ekki er nema allt gott um þessar bollaleggingar að segja. Til stuðnings þessu skipulagi er því haldið fram, að það mundi ódýrara en smærri raforkuveitur. Um það get ég ekki dæmt að svo stöddu. En hvort sem ofan á verður, þá er málið enn þá í reifum og óvíst með öllu, hvenær af framkvæmdum getur orðið, og langan tíma hlýtur það enn fremur að taka að leggja háspennulinu til Sauðárkróks og um héraðið, og þótt slík háspennulína kæmi síðar meir, yrði að því mikið öryggi fyrir Sauðárkrók og héraðið að hafa Gönguskarðsárstöðina til hjálpar, ef háspennulínan bilaði, sem alltaf getur að borið.

Það er þess vegna ástæðulaust að fresta þessu máli, en nauðsynlegt að hraða því sökum aðkallandi nauðsynjar kauptúnsins, og er þessi Sauðarkróksvirkjun engu minna aðkallandi heldur en t.d. Siglufjarðarvirkjunin og virkjun Andakílsár.

Ég vil svo að endingu vænta þess, að hv. Alþ. sýni þessu máli velvild og skilning, þar sem þörfin er svo brýn og aðkallandi fyrir Sauðárkróksbúa og héraðið í grennd.

Óska ég svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.