06.04.1943
Efri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

168. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ef hv. þm. hafa lesið fylgiskjal það, sem fylgir frv. og er frá mæðrastyrksn., þá er málið þegar skýrt. Frv. fer fram á það, að meðalmeðgjöf með óskilgetnum börnum skuli vera ákveðin þannig, að hún sé greidd mánaðarlega með 10% uppbót frá því, sem hún var reiknuð 6. sept. 1940 ásamt fullri verðlagsuppbót. Einnig er gert ráð fyrir því, að greiða skuli uppbót fyrir þann tíma, sem liðinn er frá því, að meðalmeðgjöfin var ákveðin síðast, og þar til þessi l. ganga í gildi. Meðalmeðgjöf hefur verið 84 kr. á mánuði í Rvík án verðlagsuppbótar, og svo tilsvarandi minna annars staðar á landinu. Nú virðist það vera auðsætt, að hér er um allt of litla upphæð að ræða, og í rauninni fráleitt, að ekki skuli vera greiddar mánaðarlega verðlagsuppbætur á þessar greiðslur, eins og nú er gert um næstum því allar greiðslur hins opinbera.

Þeir, sem hér eiga hlut að máli, hafa þess meiri þörf heldur en flestir aðrir, þegar tekið er tillit til kjara þessa fólks. Það hafa því allir nm. í allshn. verið sammála um það, að þessa breyt. verði að gera við l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Hins vegar hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort þetta eigi að verka aftur fyrir sig, þannig að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, fái þessar uppbætur greiddar frá 1. ágúst í sumar, og um það gæti frekar orkað tvímælis. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það sé ekki nema sanngjarnt, að uppbótin sé greidd frá þeim tíma, vegna þess að á þessu tímabili hafa kjör þessa fólks verið þannig, að það hefur verið haft útundan, og þess vegna þurfa þessar konur að fá þetta uppbætt.

Það er langt síðan þetta erindi barst Alþingi, en það hefur dregizt að frv. kæmi fram, og ég tel það alveg fráleitt, að konurnar séu látnar gjalda þess dráttar. Einmitt þess vegna er þetta látið verka aftur fyrir sig, enda eru til fordæmi fyrir því, þegar eins hefur staðið á. Það er mjög áríðandi, að þessu máli sé hraðað sem mest í gegnum þetta þing, þar sem hér er um 1. umr. að ræða. Þess vegna vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að málið geti fengið sem allra skjótasta afgreiðslu, til

þess að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu frá þessu þingi.