22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (3212)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. – Það er langt síðan deildin hefur heyrt annan eins fjálgleik og áðan var í ræðu hv. 7. þm. Reykv. (SK;, ég held ekki síðan hann talaði sællar minningar um friðun hrafna eða svartbaka, og núna var það um að friða þá vesalings bændur, sem hann tiltók, fyrir ógurlegustu ófreskjunni, sem sæti um að hremma þá, íslenzka ríkinu. Ég er nú bara ekki óhræddur um, að aðrir fuglar, sem þm. vill friða, sitji um þessa væntanlegu vesalings „sjálfseignarbændur“, ef ríkið yrði við óskum hans. Og hvernig hefur þessi forynja, ríkið, reynzt bændum? Hvernig er með alla þá styrki, sem það hefur greitt þeim til að gera þeim fært að haldast við á jörðum sínum. Hvernig er með uppbæturnar, sem það greiðir þeim í sama skyni á ull, gærur og kjöt og tryggir þeim allt að því þrefalt verð við það, sem hægt er að fá á erlendum markaði? Er þetta þáttur í þeirri grimmilegu ásókn ríkisins á bændur, sem þessi hv. þm. vill forða þeim frá? (SK: Já). Þurfa „vesalings“ bændurnir að hafa sig alla við til að verjast þessum ósköpum? En hverjir eru það í rauninni, sem hrekja bændur af jörðunum? Er það ríkinu að kenna, að bændum hefur fækkað á síðustu árum? Ef svo er, ætti þm. að skýra það miklu nánar.

En hann veit væntanlega ekki, hvað íslenzkir stórbændur eru búnir að bola mörgum búandi mönnum burt úr sveit síðustu áratugina. Það væri gaman að fá skýrslur um það eða hvað margt af ungu fólki hefur læði við sitt hæfi, bændur með of stórar jarðir vilja ekki miðla, og ótal vandkvæði eru á fyrir flest það fólk, sem nauðugt yfirgefur sveit sína með tvær hendur tómar, að stofna nýbýli. hað eru einhverjir aðrir en ríkið, sem stunda það að sölsa undir sig stórar jarðeignir, taka þær af bændum nú þegar eða síðar meir. Hvar sem maður fer nú austan fjalls eða um önnur héruð, er bent á nýleg dæmi um þetta og taldir upp stórlaxar úr Reykjavík, sem eigi nú þessa og þessa jörðina. Hvað vilja flm. frv. gera til að vernda bændur við þessu? Ekkert, því að þarna sé „frjáls verzlun“. Svo talar þm. af öllum sínum fjálgleik um tryggð bænda við sveit sína, ást þeirra til jarðarinnar sinnar og að það séu bara ótætis kommúnistarnir, sem vilja taka jörðina af þeim, meina þeim að eiga og elska jörð sína.

En það, sem þeir vilja með þessu frv., er að selja þessar jarðir fyrir fasteignamatsverð, svo að brátt verði hægt að selja þær aftur svo uppsprengdu verði, að sá, sem kaupir þær til að búa á þeim, geti ekki staðizt það og flosni upp strax, þegar á bjátar, m.ö.o. vilja þeir koma jörðunum í brask í þágu hræfugla auðvaldsskipulagsins. Því fer fjarri, að það sé til að tryggja á nokkurn hátt jörðina handa þeim, sem vinna þar að framleiðslu, heldur til að tryggja braskarana. Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að það gæti enginn sagt við bónda á jörð: „Far þú burt,“ En bankinn, sem hefur lánað þeim, eða stóreignamaðurinn eða braskarinn getur sagt og hefur sagt við fjölda bænda: „Far þú burt,“ — og þeir hafa farið burt. Hvernig var komið 1931? Jarðeignir voru metnar á 68 millj. kr. og skuldir, sem á þeim hvíldu, voru 33 millj. Sjálfseignarréttur bænda var með aðeins fáum undantekningum orðinn mjög lítils virði, lánardrottnar gátu klófest hvað sem þeir girntust við litlu verði. Það er ekki til neins að vera með neina óðalsrómantík þar, sem staðreyndir tala svo skýru máli.

Hv. þm. A.-Húnv. minntist sérstaklega á 10 ára takmarkið og fullvissaði um, að eftir þann tíma yrði ró og viðskiptajafnvægi, en truflun stríðsins um garð gengin. Veit hann, hver afleiðingin yrði, ef kreppa kæmi eftir 10 ár eða liðlega það? Þm. muna, að litlu eftir stríðið 1914–18 kom landbúnaðarkreppa, en mig langar til að benda á, að önnur kreppa, 13 árum eftir stríðið, varð miklu skæðari. Er nokkur sérstök ástæða til að ætla, að eftir 10 ár verði stöðugt rólegt jafnvægi`? Eftir reynslunni getur þá komið miklu verri kreppa og sveiflur en eftir stríðslokin, og ef hv. þm. meinar nokkuð með því að tala um að binda þetta, meðan stríðsbraskið standi, ætti hann að vilja binda það, meðan brask er til, eða eins lengi og auðvaldsskipulagið stendur.

Hann taldi, að ríkið sæi illa fyrir hag landseta sinna. Hví kemur hann þá ekki með frv. til að bæta úr því? Það mundi fá fylgi. Flm. þessa frv. barma sér yfir því, að það muni verða fellt á þinginu, en hitt .frv. hygg ég mundi fara mjög greiðlega gegnum þingið.

Ég spurði, hvað hann vildi gera til þess, að leiguliðar á jörðum í einkaeign gætu keypt jarðir sínar, og hann svaraði því einu, að með þær jarðir væri frjáls verzlun. En hvernig stendur á., að mennirnir, sem á þessum jörðum búa og vinna þar, eins og satt er, myrkranna milli, skuli yfirleitt aldrei hafa efni á að eignast jarðir sínar? Ríður þeim minna á að eignast þær en landsetum ríkisins eða hvað? Hvers vegna koma hv. flm. ekki með frv. til að tryggja þeim jarðirnar, þegar sýnt er, að þeim er ofvaxið að eignast þær á grundvelli frjálsrar verzlunar og halda síðan áfram lífvænum búrekstri á þeim? Er ekki meginhluti bænda þannig settur, að engin leið er að láta búskapinn bera sig með því verðlagi, sem fæst á frjálsum erlendum markaði, engin leið án stórfelldra uppbóta t.d. á ull og gærur? Hvers vegna vill þm. ekki, að það sé frjáls verzlun með ull og gærur, sem ræður afkomu bænda?

Ein aðaluppistaða ræðu hv. þm. (SK) var, að það væri einhver ógurleg sókn kommúnismans á Íslandi, sem meinaði bændum að eiga jarðir sínar og væri að gera út af við allt frelsi í landinu. Ég er einna kunnugastur þessu hérna kringum Reykjavík. Hér erum við að berjast fyrir því, að bærinn eigi sem allra mest af því landi, sem hann er reistur á. Þeir menn, sem standa þar með okkur, kommúnistunum, og ganga stundum allvel fram, eru aðalforsprakkar Sjálfstfl. í bænum. Þeir eru okkur sammála um, að það hafi verið ófyrirgefanlegt glapræði að láta einstaklinga eignast lóðirnar í Rvík, m.a. lóðirnar kringum höfnina, fyrir nokkrar þúsundir fyrir svo sem 50 árum, en nú eru þær 50–100 milljóna virði eða jafnvel meira. Það mun mega segja, að Sjálfstfl. í Rvík sé unninn fyrir sameignarstefnuna í þessu efni, og nú ganga sjálfstæðismenn svo skarpt í lið með kommúnistunum, að þeir ætla að leggja undir bæinn allmargar jarðir hér í nánd, eins og 37. mál þessa þings gerir ráð fyrir. Þar er í 3. gr. heimilað að taka eignarnámi Grafarholt og ýmsar fleiri jarðir. Hvað segir hv. 7. þm. Reykv., sem sjálfur er meðflm., um þessa sókn kommúnismans? Hvað segir hann um þessa vesalings bændur, sem þarna verða að hafa sig alla við að verjast ásókn kommúnismans í forsprakkaliði Sjálfstfl.?

En til þess að hrella hv. 7. þm. Reykv. ekki allt of mikið, skal ég fræða hann um, að þetta er alls ekki sósíalisminn, og flokkur þm. getur ríhræddur fylgt þessu máli með góðri samvizku. Ég ætti ekki að þurfa að kenna honum og flokksbræðrum hans barnalærdóm þeirra eigin flokks. Eitt af því, sem franska byltingin gerði, var að afnema eignarrétt stóreignamanna á landi, uppræta landeignaaðalinn, skipta jörðunum milli þeirra, sem yrktu þær og nytjuðu. Leifar jarðeignavaldsins hafa þó haldizt í ýmsum myndum, og þótt auðvaldsskipulag borgarastéttar geti stundum verið því vinveitt, síðan stéttin varð íhaldssöm, hlýtur hún samkvæmt uppruna og grundvallarstefnu að rekast á það öðru hverju og heimta landið laust. Sú aðferð, sem kölluð er eignarhald hins opinbera, samrýmist fyllilega meginreglum auðvaldsins, og þetta ætti hv. þm. að vita. Menn, sem eru að koma sér upp húsum í borg, verksmiðjum og öðrum framleiðslutækjum, skipum o.s.frv., verða að greiða þunga skatta til eigenda hinna rándýru lóða, sem raka saman fé án minnstu verðskuldunar annarrar en þeirrar að vera skráðir eigendur lóðar, sem þjóðfélagsþróunin hækkar í verði eða brask hefur hækkað óeðlilega í verði. Þessir skattar gera framleiðsluna dýra og leggjast þannig á herðar þjóðinni allri. Svipuð tilfelli gerast., þótt oftast sé í smærri stíl, þar sem jarðir í sveitum fá að ganga kaupum og sölum, og skal. ég ekki fara lengra með hv. 7. þm. Reykv. í. teoríu, flokkur hans viðurkennir áhættuna, sem i. þessu felst. En það er ekkert nýtt, þótt sósíalistar taki að sér að berjast fyrir og hrindi fram málum, sem borgaraflokkarnir hafa heykzt á, eftir að þeir komust til valda. Þetta vildi ég segja um ásókn „kommúnismans“.

Mér þykir mjög vænt um, að Framsfl. skyldi taka eins ákveðna afstöðu og hann gerði í jarðeignamálum hins opinbera, og að Sjálfstfl. í Rvík skuli hafa áttað sig eins rækilega á því hann hefur gert, hvað honum ber að gera í landeignamálum bæjarins.