05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3351)

64. mál, Vesturheimsblöðin Heimskringla og Lögberg

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er eins og hv. þm. Barð. hafi ekki kynnt sér nógu rækilega efni frv., og virðist það þó ekki vera erfitt verk. Það stendur hvergi, að það sé gert að skyldu að lesa blöðin, heldur er lögbindingin aðeins fólgin í því að kaupa og borga blöðin, en ekki að lesa þau, því að það er vitanlega hverjum og einum í sjálfsvald sett, þó að æskilegt sé auðvitað, að þau verði lesin sem mest. Það er alveg eins með þetta og mat, sem er settur á borð. Það ræður því hver og einn, hvað hann borðar. Hann getur borðað það, sem hann vill, og skilið hitt eftir.

Þá var hv. þm. Barð. eitthvað að minnast á Tímann og var að gefa það í skyn, að hann væri lítið lesinn. Ég held aftur á móti, að það sé alveg rangt hjá honum. Það er nú svo, að allir kaupmenn og útgerðarmenn lesa Tímann með mikilli athygli, og hefur Tíminn haft mikil bætandi áhrif á þessar stéttir, er ég gat um.