10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3592)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég ætla mér ekki að vera langorður, en vildi segja nokkur orð til viðbótar því, sem ég hef áður sagt, út af ummælum hv. þm. Ísaf.

Það, sem ég sagði, var, að óhjákvæmilegt væri að taka tillit til þjóðarafkomunnar í heild, þegar ákveðin eru laun og launauppbætur til ríkisstarfsmanna. Tillaga sú um verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur, sem flutt var af mér og fleiri þm. á sumarþinginu síðast liðið ár, var samþ. mótatkvæðalaust eða a.m.k. mótatkvæðalítið, það að hv. þm. var ljóst, að sérstakar ástæður lágu fyrir hendi, til þess að sú þáltill. næði fram að ganga og ekki var nema réttlátt, að ríkið hlypi undir bagga. Ég tel, að sömu ástæðurnar séu nú fyrir hendi og voru í fyrra, hvað snertir markaðsörðugleika landbúnaðarins, og að ekkert bendi til þess, að greiðara verði um sölu á þessu ári. Þar sem að þessu leyti eru óbreyttar horfur hjá bændum, tel ég óhjákvæmilegt, að þeim séu greiddar uppbætur á þessu ári á sama hátt og ákveðið var 1942, en bændur eru enn þá lítið búnir að fá af þeim verðuppbótum, sem þeim voru áætlaðar á því ári.

Um verkamennina er það að segja, að yfirleitt mun afkoma þeirra hafa verið góð undanfarið og ekki enn sem komið er a.m.k. ástæða til að grípa til sérstakra ráðstafana þeirra vegna. Um það, sem hv. 2. þm. Reykv. var að segja, að hann vildi fá skýr svör við því, hvort ég vildi koma því á, að ríkið tryggði öllum þegnum þjóðfélagsins einhver lágmarkslaun, hvort sem þeir hafa atvinnu eða ekki, þá get ég sagt honum það til huggunar, að ég er ekki með till. um það. En hitt vil ég segja honum og það í fullri alvöru, að ég tel það ekki rétt né mögulegt að láta embættismenn og aðra starfsmenn ríkisins njóta alltaf sömu fastákveðnu launanna, hvernig svo sem hagur ríkisins og annarra þegna þjóðfélagsins er. Það getur aldrei staðið til lengdar. En það rétta og eina rétta í þessu sambandi er að láta laun embættismanna ríkisins breytast eftir tekjum þjóðarinnar í heild. Ég vildi mjög gjarnan heyra það frá hv. 2. þm. Reykv., hvort hann álíti það rétt að taka þessa einu stétt út úr, hvernig svo sem afkoma annarra stétta er og þjóðfélagsins í heild. Ég vildi mjög gjarnan fá svar hans við því.