29.03.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3742)

150. mál, jarðeignarmál kaupstaða, kauptúna og sjávarþorpa

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. 2. þm. S.-M., að þessi breyt., sem hefur verið gerð till. um í brtt. allshn. nú, hafi verið gerð til samkomulags við þá, sem ekkert vilja gera í málinu. Þar tók hv. 2. þm. S.-M. algerlega rangt eftir, því að þar átti hv. 2. þm. N.-M. við allt annað mál, sem búið var að afgreiða. Og þegar forustumenn flokka geta ekki öðruvísi farið með mál, sem ekki gengur nema frá einum stóli til annars hér í salnum, þá er ekki von að vel fari.

En gerð var till. í allshn. um þessa breyt. á þáltill., af því að í n. komu fram ákveðnar skoðanir um það, að það væri ekki rétt, að þ. partaði sig svo í sundur, að setja hvert einasta mál í mþn. En að því hefur þ. gert allmikið, og það er ekki sízt flokkur hv. 2. þm. S.-M., sem að því hefur unnið að setja mþn. í allt, þar sem þær n. eiga að gera út um mál, sem þ. getur ekki komið sér saman um. Þetta eru mennirnir, sem langmest hafa gert sér far um að koma í veg fyrir, að Alþ. afgreiði mál með sóma.

Hv. þm. A.-Húnv. hefur annaðhvort ekki lesið brtt. eða ekki skilið þær, því að það er töluverður munur á þáltill., ef henni verður breytt eins og lagt er til í brtt. n. eða eins og hún er óbreytt. Það er sagt hér í brtt., 2. mgr. 1, gr., að þetta beri að athuga í samráði við bæjar- og sveitarstj., sem hlut eiga að máli. Þetta ákvæði er ekki í þáltill. óbreyttri. Og þetta er lagt til sérstaklega með það fyrir augum, að það ætti fyrst og fremst að rannsaka þetta mál, þar sem þörfin er mest aðkallandi í samráði við þessa menn. Það er auk þess töluverður eðlismunur á því, hvort til er tekið, að verðhækkun komi „beint eða óbeint vegna opinberra framkvæmda“ eða í þess stað kemur: „vegna meiri háttar opinberra framkvæmda“. En það síðar fram tekna orðalag er eftir brtt. n. þar um. Hins vegar áleit ekki n., að það hefði stórkostlega þýðingu að ræða um orðalag till. yfirleitt. Því að hér er ekki verið að ræða um sjálfan lagabálkinn um þessi mál, heldur hvort þessi mál skuli rannsökuð og þá á hvern hátt. Og þess vegna var líka langmestur hluti ræðu hv. þm. Borgf. alveg út í hött. Hann fær sjálfsagt tækifæri til að deila um frv. um þetta efni, þegar það kemur fram, ef það þá nokkurn tíma kemur fram.