10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (3802)

175. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — Ég þarf ekki fyrir hönd okkar flm. að hafa mörg orð um þessa þáltill. Bæði er nú mál þetta nokkuð kunnugt af meðferð þess hér í þinginu, og auk þess er gerð svo skýr og ljós grein fyrir tilefni þessarar þáltill. í þeirri grg., sem henni fylgir, að þar þarf í raun og veru engu við að bæta. Það er einungis í tilefni af því, að allar líkur benda til þess, að það muni bera mjög bráðan að, að útflutningsleyfi fáist erlendis á efni til virkjunarinnar, og þarf þá að vera fyrir hendi aðstaða til þess að geta gert samning um þann hluta efnisins, sem tekur langan tíma að fá smíðaðan, sem eru vélar til virkjunarinnar. Eins og getið er í grg., er samkvæmt þeim tilboðum, sem fyrir liggja, gert ráð fyrir, að það muni taka 12–14 mánuði að fá vélarnar smíðaðar. En við samningsgerð þarf kaupandi að geta lagt fram einn fjórða hluta andvirðis vélanna og auk þess sanna, að veitt sé ábyrgð fyrir eftirstöðvunum. Þess vegna leggjum við það til í þessari þáltill., að ríkisstj. sé heimilað að greiða fyrir því, að hafin verði smiði á þessum vélum strax og útflutningsleyfið liggur fyrir, sem við flm. höfum ástæðu til að ætla, að verði mjög bráðlega.

Ég get aðeins getið þess viðkomandi afgreiðslu raforkumálanna í heild, að gert er ráð fyrir því, að á næsta þingi — þ.e. næsta hausti — komi fram frv. um afgreiðslu þeirra mála. Er tillagan þannig orðuð, að ekki þarf það að valda neinum árekstri, hvort viðkomandi héraðsstjórnir standa að virkjuninni, eins og til er stofnað, eða hún verður liður í stærra virkjunarkerfi. Þetta höfum við flm. orðað svo af ásettu ráði.

Þar sem svo langt er komið undirbúningi þessa máls og framkvæmd á því virðist geta legið nokkuð nærri, vildi ég mega vænta þess, að hið háa Alþ. veiti þá fyrirgreiðslu, sem felst í samþykkt þessarar þáltill.

Ég geri það að till. minni, að málinu verði vísað til fjvn. að þessari umr. lokinni, í fullu trausti þess, að n. muni afgreiða till. mjög bráðlega, svo að hún geti fengið fullnaðarafgreiðslu, áður en þessu þingi lýkur.