12.04.1943
Sameinað þing: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (3817)

164. mál, framtíðarafnot Reykhóla

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar og meðal annars rætt nokkuð þau tilmæli hv. 2. þm. S.-M., að n. sú, er skipa skal, verði fimm manna n., en ekki þriggja. N. varð raunar öll sammála um málið, að undanteknum hv. 2. þm. N.-M, sem vildi ekki undirrita nál. nema með fyrirvara, sem hann hefur þó gleymt, þegar nál. var skilað. Hv. þm. vill hafa 5 menn í n. og ber það fyrir sig, að honum hafi borizt tilmæli úr Barðastrandarsýslu um það, að í n. yrði hafður einn maður, sem skyldi gæta hagsmuna sýslunnar sérstaklega. Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að engin slík tilmæli hafa komið til Alþ. eða þm. sýslunnar. Allshn. þótti rétt að breyta síðustu málsgr. till. lítillega, þannig að við hana bættist, að n. skyldi starfa í samráði við hreppsn. Reykhólahrepps. En hún leit svo á, að störf umræddrar n. mundu ganga greiðlegar, ef ekki væru í henni nema þrír menn. Hún taldi og, að starf þessarar n. mundi fara fram að mestu í Rvík, og taldi óþarfa að kalla hingað menn utan af landi til þess að dveljast hér dögum saman við þessi nefndarstörf. Eins var talið, að hægt væri að gæta hagsmuna Barðastrandarsýslu fullkomlega, þó að ekki væri skipaður sérstakur maður til þess, því að einn maðurinn skal samkv. þáltill. skipaður af búnaðarfélaginu og annar af Breiðfirðingafélaginu. Er ekki ástæða til að efast um, að þessir aðilar mundu hafa fullan hug á að gæta hagsmuna sýslunnar, og ráðh., sem á að skipa þriðja manninn, gæti tekið til athugunar að velja þann mann þannig, að hagsmuna sýslunnar yrði sem best gætt. Till. um nefndarskipunina var samin af allshn. búnaðarþings. Sýslumaður Barðstrendinga, sem þar átti sæti, var spurður þess, hvort hann vildi ekki heldur, að valinn væri maður frá Búnaðarsambandi Vestfjarða í n., en hann taldi málunum vel borgið með því, að n. yrði skipuð eins og ráð er fyrir gert.

Ég hef orðið þess áskynja, að ýmsir hafa lagzt á móti því, að Reykhólar verði gerðir að því menntasetri, sem hv. Ed. og fræðslumálastjóri hafa lagt til, og vilja, að jörðin sé hlutuð niður í smátt. Þeim mönnum, sem þess óska, get ég sagt, að þessi till., sem hér ræðir um, er í fullu samræmi við vilja og óskir Vestfirðinga.