12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3852)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Sigfús Sigurhjartarson:

Nú er það vitað, að fornritaútgáfan er að gefa út Íslendingasögur, og einnig, að menntamálaráð hefur ákveðið, að gengið verði frá heimilisútgáfu Íslendingasagna. Þegar því þessi þáltill. kemur fram, þá hlýtur manni að detta í hug, að hér sé einhver knýjandi þörf fyrir hendi varðandi Njálssögu, að það skuli þurfa að koma henni út fyrst. Í þeirri sveit, þar sem ég er uppalinn, hygg ég, að Njálssaga hafi verið til á hverjum bæ. Margur mætti nú halda af þessari tili., að þessar bækur mundu nú allar útslitnar og að lesfús æska ætti engan kost á því að afla sér bókarinnar. En það er ekki svo. Það hefur nýlega verið endurprentuð heimilisútgáfa Sigurðar Kristjánssonar, og fæst hún fyrir 12 kr. í allflestum bókabúðum landsins. Okkur hefði dugað hún nú um langt skeið. Ég efast um, að sú útgáfa, sem nú er fyrirhuguð, muni taka henni fram, og varla mun hún verða ódýrari.

Hví þarf þá að fara í kapphlaup um útgáfu á Njálssögu? Skýringin kemur í grg. fyrir þáltill. Hér er sem sé ekki fyrir hendi sérstök nauðsyn á bókinni. Skýringin er sú, að hæstv. menntmrh. hefur leyft, að Njálssaga verði gefin út með nútímastafsetningu, og hv. flm. þessarar þáltill. telja nauðsynlegt að hlaupa í kapp við þá útgáfu. Ég skil ekki, hvernig þeir hugsa. Leyfið er gefið. Bókin kemur .út. Þeir, sem vilja kaupa hana, kaupa hana jafnt fyrir því, hvort ný heimilisútgáfa kemur út eða ekki. Mér sýnist því þetta vera vanhugsað frumhlaupsverk. Hv. flm. hafa ekki lagt á sig það erfiði að kynna sér, hvort bókin mundi vera fáanleg. Þetta er orðið tilfinningamál, sem þegar hefur gert fjöldann allan af þingmönnum hlægilegan. Það greip þá æði, þegar þeir heyrðu, að fara ætti að gefa Njálu út með nútímastafsetningu, ekki af því fyrst og fremst, að stafsetningunni skyldi breyta, heldur af því, að ákveðinn maður, Halldór Kiljan Laxness, maður, sem aðhyllist ákveðna stjórnmálastefnu, skyldi vera valinn til þess. Þetta varð til þess, að þingheimur heimskaði sig á því að setja l., sem banna aðra útgáfu á Íslendingasögunum en með þeirri stafsetningu, sem áður hefur verið á þeim höfð.

En ég vil spyrja hv. flm.: Hvað um Passíusálmana? Á að hverfa að því að gefa þá út með stafsetningu Hallgríms Péturssonar og banna allt annað með l.? Oddur Gottskálksson þýddi Nýja testamentið með þvílíkri snilld, að fá dæmi eru til annars eins. Guðbrandur Þorláksson þýddi siðan Gamla testamentið, og er það einnig bókmenntalegt afrek. Síðan hefur biblían oft verið gefin út, en ávallt með nýrri stafsetningu. Hvers vegna á ekki að heimta, að haldið sé við stafsetningu þeirra Odds og Guðbrands? Ef hv. flm. vildu vera sjálfum sér samkvæmir í vitleysunni, þá ættu þeir að heimta, að bannað væri með l. að nota aðra stafsetningu en þá, sem höf. þessara bóka upphaflega notuðu.

Ég vil svo ekki orðlengja þetta meira. Aðalerindi mitt með þessum orðum átti að vera að upplýsa, að Njála er til í bókabúðum og það liggur ekkert á að gefa út nýja heimilisútgáfu. Ég vil að lokum segja, ef við viljum sýna fornsögunum verðskuldaða virðingu, þá ættum við að gefa út barnaútgáfur af þeim með myndum. Bretar láta sig hafa að taka frægasta höfund sinn, Shakespeare, taka rit hans og gera úr þeim tildrætti, mjög breytta og með myndum fyrir börn. Þannig fara menningarþjóðir með sín dýrmætustu listaverk. Þær reyna að sjá um, að þau verði þjóðinni að gagni á öllum tímum.