04.01.1943
Sameinað þing: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3907)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Ólafur Thors:

Ég get um margt vísað til þess, sem hv. þm. Borgf. sagði. Mér þótti ekki hv. þm. Mýr. farast stórmannlega, þegar hann var að reyna að hafa það félag, sem hann veitir forstöðu, undan ábyrgð, og reyna að koma ábyrgðinni á annan aðila. Hér hefur ekkert gerzt nema það, að ríkisstjórnin hefur gert það, sem gert var, eftir till. búnaðarfélagsins. Ég held, að þjóðstjórnin gamla og sjálfstæðisstj. hafi í þessu máli farið eftir svipuðum leiðum. Ég held, að það hafi ekki verið venja að spyrja búnaðarfélagið um allt viðkomandi verðlagi og man ekki betur en að hv. þm. N.-Þing. hafi verið að flytja till. um að halda eftir mjöli til þess að fjarlægja fóðurskort og felli, og ég man ekki betur en að stj. Búnaðarfélags Íslands hafi gert um þetta till. til ríkisstj., en ég man ekki til, að stj. búnaðarfélagsins væri spurð. Ég var að vísu ekki landbúnaðarráðherra þá, en ég fylgdist með málinu, vegna þess að síldarverksmiðjurnar heyrðu undir mig.

Það er rétt, að það varð að slá því föstu í júlílok, — hve miklu þyrfti að halda eftir, en ég býst við, að menn eins og núverandi atvmrh., forstjóri Sambandsins, Jón Árnason, forseti Sþ. og aðrir, sem tóku ákvarðanir um þetta, hafi verið fyllilega dómbærir um það, við hverju mátti búast.

Ríkisstj. hefur brotið af sér, en aðeins þegar hún gerðist djarftæk til eigna annarra. Ég á við það, að þegar stj. hafði gert samning um 25 þús. smál., þá braut hún af sér með því að halda meiru eftir en svo, að hún gæti staðið við þann samning. Ég veit ekki, hvort við erum búnir að bíta úr nálinni með þetta gagnvart Ameríkumönnum. Ég er búinn að skrifa þeim bréf um þetta og geri ráð fyrir, að þeir sætti sig við það, því að þeir eiga að sjá okkur fyrir öðrum fóðurbæti, og það væri lélegur búskapur að nota skipin báðar leiðir undir slíkt. Ég viðurkenni, að með þessu er gengið lengra en góðu hófi gegndi og viðurkenni, að þetta gat valdið vandræðum. En þetta er alveg þveröfugt við það, sem verið er að deila á stj. fyrir.

Það er stj. búnaðarfélagsins, sem leggur til, að þessar 6500 smálestir verði látnar nægja, en það voru til 8200 smálestir, svo að það er gert fyrir vanefndum. Hvenær hefur verið betur gert fyrir vanefndum? En eftirspurnin varð meiri heldur en þeim gat dottið í hug, sem áttu að sjá um þetta. Hún varð meiri en stjórn búnaðarfélagsins eða ríkisstj. gat dottið í hug, Stjórn búnaðarfélagsins segist telja ókleift að fyrirskipa skömmtun. Stjórn búnaðarfélagsins má ekki álíta, að landbrh. — og ekki meiri landbrh. en ég er sjái fyrir það, sem stjórn búnaðarfélagsins sá ekki fyrir. Hún talaði um 6500 tonn en ég 10000, og ég ber engan kinnroða fyrir þetta. Það er rétt, að það er vöntun á framsýni, sem má ámæla öllum fyrir og ekki síður stj. búnaðarfélagsins en öðrum. Og úr því eftirspurnin var meiri en eðlilegt var, þá var ekkert undarlegt, þótt svona færi, en sá, sem gat sagt það fyrir, átti að sjá til þess, að tekin væri upp skömmtun á þessari vöru, sem aldrei var ætlazt til, að keypt væri til margra ára, heldur aðeins til vetrarins í vetur. Ég álít, að menn ættu að taka þá sameiginlegu sök á sig, ekki aðeins til þess að sýna öðrum drengskap, heldur til þess að sýna sjálfum sér þá virðingu að bera ekki af sér það, sem allir bera sökina á. Ég hef ekki álasað stjórn búnaðarfélagsins, þó að hún ætti að sjá um þetta, en þeir eru ekki nema menn. Ef yfirsjónin er hjá stjórn búnaðarfélagsins, þá er hún líka hjá landbrh. Ég verð að segja það, að mér hefði fundizt meira mannsbragð að því hjá formanni búnaðarfélagsins, að hann hefði meðgengið sinn hluta af sökinni. Hann talaði, um, að hann hefði skrifað stj. viðvíkjandi þörfinni á maísmjöli. Í þessu bréfi var reiknað út, að væntanleg fóðurbætisþörf væri 6500 smálestir af síldarmjöli og 1500–1800 smálestir af maís. Þetta var það, sem var álitið, að þyrfti til fóðurbætis á komandi vetri. Nú er verið að reyna að klæða þetta í annan búning. En stjórn búnaðarfélagsins þarf ekki að skammast sín fyrir neitt nema það að vera að reyna að renna frá málinu núna. Það er það, sem þm. Mýr. (BÁ) gerir, þvert ofan í það, sem þm. Borgf. gerir. Það er rétt hjá formanni búnaðarfélagsins, þegar hann segir, að betur hefði farið, ef skömmtun hefði verið tekin upp. Við getum líka orðað það svo, að ef við hefðum verið framsýnni, hefði verið stýrt hjá þessum skerjum, sem við höfum nú lent á. En við vorum ekki framsýnni en þetta. Enda viðurkennir hann í bréfinu, sem ég las upp frá 9. október, að ef honum hefði dottið í hug það, sem á daginn kom, þá hefði hann ráðlagt skömmtun. Stjórn búnaðarfélagsins hefði gert tillögur þar að lútandi til ríkisstj., ef hún hefði vitað um hina miklu eftirspurn.

Ég skal hvorki fara út í, hvað veldur, að ekki ber saman skýrslu formanns búnaðarfélagsins og minni né út í þann misskilning, sem reis milli bú naðarfélagsins og ráðuneytisins. Stjórn búnaðarfélagsins heldur því fram, að þær skýrslur, sem stjórnin gaf og tillögurnar voru miðaðar við, séu rangar, en þessar skýrslur voru réttar, en skilningur stjórnar búnaðarfélagsins rangur. Ég býst við, að þetta sé ekki skýrt. Ég man vel, að þegar þetta mál var lagt fyrir mig, tók það mig nokkurn tíma, — og það var fyrst eftir að Gunnlaugur Briem hafði útskýrt það fyrir mér, að ég skildi, hvað bar á milli. Ég er ekki að draga þessa staðreynd fram til hnjóðs fyrir stj. Búnaðarfélags Íslands, en ég vil ekki, að hún beri það kalt fram, að skýrslan hafi verið röng í verulegum atriðum. Ég get ekki fullyrt um þetta atriði núna, en þykist þó muna, að það, sem bar á milli, var um það, sem selt var í júní og júlí af fyrra árs mjöli og einhver annar skilningur viðvíkjandi því magni, sem síldarverksmiðjur ríkisins væru bundnar við. Mig minnir, að upplýsingar, sem stj. gaf, ættu einhverja sök á misskilningnum, en miklu munaði það ekki, ef ég man rétt.

Það er leitt að svona mál skuli þurfa að vera gert að ágreiningsefni, því slíkt er engum til heilla, heldur ætti þetta að vera eitt af þeim málum, sem ætti að vera hægt að halda utan við pólitíska togstreitu.