06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3917)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Eiríkur Einarsson:

Sé hér um verulegar misfellur að ræða eða eitthvað, sem þyrfti úrbóta við til þess að landsmenn fengju nægilega mikinn fóðurbæti, þá hygg ég þá aðferð, sem viðhöfð er nú hér á hæstv. Alþ., að flytja þetta mál alveg einhliða flokkslega með þeim eindregnu sjúkdómseinkennum flokkskergju, ekki til þess fallna, að til úrbóta verði í þessu máli.

Ég ætla ekki að ræða málið vítt, heldur hefur aðeins eitt atriði málsins orðið til þess að ég stóð upp. Það hefur sem sé verið talað um það af ýmsum hv. þm. nú í þessum umr., hvort ekki hafi verið rétt að skammta síldarmjölið. Þetta atriði hefur verið gert að aðalræðuefni af ýmsum háttv. ræðumönnum nú í hæstv. Sþ., og er von, að það hafi verið haft orð á þessu, því að þegar ríkið leggur svo mikið fram sem gert hefur verið viðkomandi þessari vörutegund til þess að gera aðgengilegra fyrir menn að kaupa hana, þá er eðlilegt, að slíkt atriði sé rætt. En um það, hvernig átt hafi að koma fyrir slíkri skömmtun, hafa aðilarnir, sem það mál snertir mest, fyrrv. hæstv. ríkisstj. og Búnaðarfélag Íslands, illu heilli skotið sér hvor á bak við annan til að reyna að koma sökinni af sér á hinn aðilann. En hvernig áttu þessir aðilar að skammta þessa vöru, þegar komin voru síðustu forvöð? Til þess að geta komið fram skömmtun á þessari vöru, hefði þurft að hafa aðra skipun á þessu. Það hefur verið talað um þá reglu hér sem það, sem ætti að fara eftir við þá skömmtun, að tal;a tillit til þess, hve mikið kaupendur síldarmjölsins hafa pantað. En nú er það svo um pantanir á þessari vöru, að þær hafa verið gerðar af notendum af mesta handahófi. Það eru til margir neytendur, sem panta svo litið sem þeir gera ráð fyrir að komast af með minnst og vilja ekki fara lengra í pöntunum sínum. Um aðra er þveröfugu máli að gegna, þeir panta langt fram yfir þarfir, og spursmál er, hvort ekki eru til þeir menn, sem pantað hafa síldarmjöl til sölu eða geymslu. Má ætla, að slík tilfelli séu til.

Til þess að finna grundvöll til þess að byggja á sanngjarna skömmtun á þessari vöru þyrfti að finna mælikvarða, sem hægt væri að fara eftir. En meðan svo er; að ekki eru lögmæt fóðurbirgðafélög í sveitum almennt, er þessu skömmtunarmáli ekki komið í hið æskilegasta horf, því að fóðurbirgðafélögin er sá aðili, sem fara ætti eftir um þarfir landsmanna á hverjum stað fyrir fóðurbæti. Hefðu þau verið til á s.l. sumri og verið sett til þess að gera till. um þetta efni, þá hefði verið öðru máli að gegna. Ég segi þetta til ábendingar viðkomandi framkvæmdum í þessum efnum í framtíðinni.

Grundvöllur undir skömmtun á síldarmjöli nú hefði hlotið að verða að meira eða minna leyti af handahófi. En ég bendi á þetta sem æskilegan hlut, að fóðurbirgðafélögunum væri fengið áhrifavald til þess að gefa Búnaðarfélagi Íslands þær upplýsingar, sem nauðsynlegar væru til þess að byggja á niðurstöður í þessu efni. Þessu vil ég skjóta fram til athugunar vegna framtíðarinnar og líka til athugunar fyrir þá menn, sem talað hafa digrast um ólag, sem á sölu og úthlutun síldarmjöls hafi orðið á s.l. hausti.