10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (4024)

156. mál, Þormóðsslysið

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér er þetta mál of skylt til þess, að ég fari að ræða efni þess. En ég vil mótmæla og víta harðlega framkomu hv. 2. og hv. 8. þm. Reykv. gagnvart Sjódómnum Rvík. Hinar þungu ásakanir þeirra eru svo fjarri því að styðjast við rök, að þeir vita sýnilega ekkert, um hvað þeir eru að tala, og þekkja ekkert Sjódóminn í Rvík. Ég hef verið þar áheyrandi í flestum má lum síðan 1924. Ég veit, að öllum ber saman um, að sá maður, sem lengstum hefur veitt honum forstöðu, núv. hæstv. forsrh., er einhver samvizkusamasti embættismaður, sem hér þekkist, og hve miklar annir sem á honum hafa hvílt, hefur hann ætíð ýtt þeim til hliðar til að geta sinnt sjódómsmálum af fyllstu alúð. Ég held þessir þm. viti ekki einu sinni, hverjir sitja dóminn. Formaður sjómannafélagsins hefur lengi setið þar, en hann er e.t.v. ekki fulltrúi sjómanna? Þá er Jón Axel Pétursson og hefur setið í mörg ár. Ég veit ekki til, að nokkrir menn hafi borið meiri fyrirhyggju fyrir sjómannastéttinni en þeir, sem í sjódómnum hafa setið. Ef þessir þm. þykjast geta upplýst eitthvað, og það mundi gleðja mig persónulega, ef þeir. gætu það, eiga þeir að snúa sér með það beint til sjódómsins. Ég ætla ekki að svara gífuryrðum þeirra um ástand þessara mála yfirleitt, en það get ég sagt, að um öryggisráðstafanir stendur engin þjóð, sem ég hef kynnzt, jafnframarlega og Íslendingar. Þessir menn þyrftu að læra betur. En þó að þeir sætu við í hundrað ár, mundu þeir aldrei skilja þetta, sem þeir þykjast nú þekkja bezt allra.