10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (4026)

156. mál, Þormóðsslysið

Einar Olgeirsson:

Það hafa oft orðið hörmuleg sjóslys við Ísland áður en Þormóðsslysið. Nærri í hvert einasta skipti hafa borizt kvartanir frá hálfu sjómanna um, að tildrög slysanna væru ekki rannsökuð nóg. Það hefur verið skirrzt við að skipa sérstakar rannsóknarnefndir. Menn hafa í lengstu lög viljað komast hjá að ræða svona slys. Tilefnin hafa verið nógu mörg til að hefja rannsókn, en málin of viðkvæm til þess. Nú álitum við, sem fluttum þessa till., að almenningsviljinn væri orðinn svo sterkur, að honum ætti að hlýða og kanna málið til hlítar, — kröfurnar frá sjómanna hálfu voru almennar. Á síðasta fiskiþingi var m.a. samþ. till., sem við tókum í grg. og ég vil lesa með leyfi hæstv. forseta:

„Að vegna sjóslysa, er iðulega koma fyrir, en orsakir eru ókunnar að, sé skorað á ríkisstj. að láta fram fara mjög ýtarlega rannsókn, ef ske kynni, að eitthvað upplýstist, er leiddi líkur að, af hvaða orsökum slysið hefði viljað til. Mætti þar meðal annars nefna, að rannsökuð yrðu skeyti, er farið hafa á milli útgerðarmanns og skipstjóra eða umboðsmanns skipsins um hleðslu í erlendri höfn, um hvaða miðum er fiskað á, hvaða siglingaleið er ráðin til að fara um, og yfirleitt allt, er að ferðum skipsins lýtur. Væri þetta gert, ekki sízt til þess að kveða niður ýmsar sögusagnir og getgátur, er ávallt ganga manna á milli um, af hvaða orsökum slysin hafa viljað til. Ef það kemur í ljós við rannsókn, að slysið orsakaðist af mistökum eða vanrækslu, þá sé frá því skýrt opinberlega, svo að það geti orðið öðrum til varnaðar.“

Mundi nú fiskiþingið hafa fundið ástæðu til að krefjast þessarar rannsóknar, ef rannsókn sjódómsins væri að þess áliti svo ýtarleg sem á yrði kosið? Það eru kannske óviðkomandi menn, sem þessu hafa ráðið? Ég held ekki. Það, sem við flm. erum hér að túlka, er ekkert annað en yfirlýstur vilji fjölda manna, sem þessi mál snerta mest. Hér er ekki lagt til að ganga fram hjá sjódómnum. Hann starfar eins og honum ber. Aðeins er um að ræða að setja n. með nokkru valdi til víðtækari rannsóknar og með það fyrir augum, ef brtt. hv. 8. þm. Reykv. verður samþ., að hún leggi fyrir ríkisstj. till. um breyt. á l. og reglugerðum varðandi öryggismál sjómanna og annarra sjófarenda eftir því, sem hún telur nauðsyn til hera. Ég get þess vegna ekki séð, hvaða ástarða er fyrir þm., sem hafa látið falla sérstaklega hörð orð út af þessari till. okkar, að reyna að koma. í veg fyrir, að slík n. sé skipuð. Og ég fæ ekki séð, þótt hv. þm. Barð. segist hafa betra vit á þessu öllu en t.d. ég, að till. spilli öryggismálunum, eins og þau eru, og ég efast ekki um og hef fyrir mér álit fjöldans, að skipaskoðunin á Íslandi megi við því að vera endurskoðuð. Þetta eru gömul og ný deilumál, og hafi þau sjaldan komizt inn á Alþ., er það af því, hve mjög menn hafa skirrzt við að ræða þau.

Ég ætlaði ekki að taka til máls, ef hv. 10. landsk. og hv. þm. N.-Ísf. hefðu ekki gefið mér tilefni. Atkvæði munu skera úr.