08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (4124)

67. mál, bætur vegna fjárskaða

Flm. (Barði Guðmundsson):

Herra forseti. — Fyrir hinu háa Alþingi liggur frv. til l. um búfjártryggingar. Eiga flm. þess, þeir hv. 2. þm. Skagf. (JS) og hv. þm. N.-Ísf. (SB) þakkir skilið fyrir flutning þess nytjamáls. Í grg. fyrir frv. sínu minnast þeir á fjárskaðann við Ísafjarðardjúp, sem varð á s.l. hausti. Virðist svo sem þessi atburður hafi leitt athygli að því, hve brýna nauðsyn ber til þess, að hafizt verði handa um búfjártryggingar og betur verði um hnútana búið heldur en fyrr, þegar mál þetta var á döfinni. Á einum degi drapst í ofsaveðri þarna vestra á fimmta hundrað fjár. Megintjónið lenti á þremur bæjum, Hafnardal, Laugalandi og Unaðsdal, því að um 340 fjár fórst þá af þessum þremur bæjum, og er það eignatjón áætlað um 20 þús. kr. Það vildi svo til, að þeir, sem urðu fyrir þessum mikla skaða, voru einmitt menn, sem hafa nú og hafa haft óvenjulega mikla ómegð á framfæri. Hefur einn bændanna á þessum bæjum átt 16 börn, annar 15 og sá þriðji 7. Svo sem að líkum lætur, hefur lífsbarátta þessara manna verið mjög hörð, en þeir hafa hingað til sigrazt á örðugleikunum.

Nú er það svo, að í reglugerð, sem sett var eftir l. nr. 75 27. júní 1941, er ákvæði um stuðning handa bændum, sem misst hafa fé úr sjúkdómum. Virðist öll sanngirni mæla með því, að þessir bændur í Norður-Ísafjarðarsýslu verði látnir njóta sams konar bóta fyrir skaða þann, Sem þeir urðu fyrir 7. okt. s.l. Þeir hafa engar aðstæður haft til þess að tryggja búpening sinn. og þeir áttu enga sök á skaðanum að neinu leyti og eru alls góðs maklegir. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þáltill. þá, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 91.