26.03.1943
Neðri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (4192)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Áki Jakobsson:

Ég viðurkenni, að það er komið í nokkurt óefni fyrir fólki, sem þarf að fara að senda börn sín til prestanna til náms, sérstaklega, ef einhver væri svo illa staddur, að þurfa að senda börn sín til hv. þm. V.-Sk. Ég lét skína í það í ræðu minni, að hugsanlegt væri, að svipuð hugmynd hvíldi undir þessari till. og þeirri, sem Pálmi Hannesson flutti fyrir nokkru, um það að flytja menntaskólann burt úr Rvík. Ég hef nú heldur staðfestst í þeirri trú við ræðu hv. þm. V.-Sk. Hv. þm. var að ásaka mig fyrir það, að ég teldi, að menntaskólinn ætti að vera í Rvík, hvað sem það kostaði. Ég álít nú samt, að þetta eigi að vera þannig. Ég álít, að það sé ekki hægt að komast hjá því að hafa menntaskóla í Rvík, án þess að þjóðin yrði fyrir tilfinnanlega miklum skaða.

Þessi hv. þm. var að tala um jafnrétti. En hvað er það, sem framsóknarmenn kalla jafnrétti? Það er víst eitthvað annað en þetta venjulega jafnrétti. Hann heldur því fram, þessi hv. þm., að með því að koma upp menntaskóla að Laugarvatni, þá sé verið að flytja menntaskólann til sveitafólksins. Þetta er hinn mesti misskilningur. Við skulum hugsa okkur fólk, sem býr norður á Langanesi. Stendur það betur að vígi með að koma börnum sínum í skóla að Laugarvatni heldur en t.d. til Akureyrar eða jafnvel Rvíkur? Vissulega ekki. Annars er vert að athuga, hvað átt er við, þegar talað er um, að skólarnir séu dýrir fyrir nemendurna. Er það dýrt fyrir ríkissjóð? Það er enginn vafi á því, að skóli að Laugarvatni yrði dýr. Þar yrði að kosta fullkomið kennaralið. Að því leyti er hann dýrari heldur en sams konar skóli hér í Rvík. Ef hægt væri að fá matföng í heimavist eitthvað ódýrari þarna en í Rvík, þá yrði hann örlítið ódýrari fyrir börnin. En þriðjungur þjóðarinnar er svo settur, ef hann hefur aðstöðu til að senda börn sín á skóla á Laugarvatni, þá þarf hann að borga peninga með þeim, sem oft gerir það að verkum, að það verður óframkvæmanlegt fyrir verkamannafjölskyldur að kosta börn sín á skóla með þeim hætti.

Annars er það dálítið skrítilegt, að þessi hv. þm. (SvbH) skuli vera hneykslaður yfir því, þó að ég bjóði fram stuðning minn til þess að veita styrki þeim utanbæjarmönnum, sem senda börn sín í menntaskóla hér í Reykjavík. Hvar sem leitað er í afskiptum Framsfl. af landbúnaðinum, þá hefur það verið í þá átt að styrkja hann. Það hafa verið gerðar till. um að bæta upp ull og kjöt, og þjóðin hefur fallizt á að samþykkja slíkar uppbætur eins og sjálfsagðan hlut. En það er bara nú, þegar þjóðin sér, að allt er að hrynja saman viðkomandi matvöruframleiðslunni í sveitunum, þrátt fyrir alla þessa styrki, þá er eðlilegt, að þjóðin fari að spyrja: Er þetta rétt leið? Og ég býst við, að ofsi hv. þm. út af orðum mínum sé vegna þess, að hann finnur, að þrátt fyrir alla þessa milljónastyrki stendur Framsfl. sér til háðungar frammi fyrir þjóðinni, af því að landbúnaðurinn er að hrynja saman, og hann hlýtur að hrynja saman eftir stríðið, ef því sama fer fram um hann sem hingað til þrátt fyrir alla þessa styrki.

hað er líka vert að minnast á það, að fram kom till. frá hv. 2. þm. Skagf. (JS) um að borga uppbætur á refa- og minkaskinn, sem haldið var fram, að ætti að vera til samræmis, til þess að engin framleiðsla sveitanna væri eftir, sem ekki væri styrkt. Það voru aðalrök hans, að þetta þyrfti að gera til samræmis. Það er því ekki ástæða til þess fyrir hv. þm. að fjargviðrast yfir því, þó að talað sé um þetta. Ég er sannfærður um það, að það er réttari leið að borga efnilegum mönnum úr sveit til þess að stunda nám í kaupstað, heldur en að borga styrk á refaskinn, og það yrði mikluminni upphæð úr ríkiskassanum.

Nei, það er full ástæða til þess að borga styrki til námsmanna. Sú menntun, sem æskulýður okkar getur aflað sér, er kapítal, sem aldrei verður af þjóðinni tekið. Hún er verðmæti, sem þjóðin býr að í næsta mannsaldur og í framtíðinni.

Hv. flm. þessarar þáltill. hefur ásamt fleirum haldið því fram, að menntaskólinn hér í Rvík væri orðinn of fjölmennur og að rétt hafi verið að skera niður aðgang að honum, vegna þess að húsrúm væ ri lítið. Háttv. 2. þm. Reykv. (EOl) hefur bent á, hver fjarstæða það er að nota þetta sem rök. Að nota þetta sem rök sannar ekkert annað en það, hve blindir þeir menn eru fyrir rökvísi, sem það reyna. Eins og 100 ára gamalt hús eigi að vera ákvarðandi um það, hversu marga nemendur við Íslendingar eigum að taka í menntaskóla okkar. Þetta skólahús var orðið of lítið 1929 eða jafnvel 1920 og þó sennilega miklu fyrr. En það réttlætir ekki þá aðferð að leyfa aðeins 2.5 nemendum að bætast í skólann á ári. Og þær ráðstafanir, sem gerðar voru til að takmarka nemendafjöldann í skólanum, voru ekki sérstaklega hentugar hinum fátækari Reykvíkingum. En það hjálpaði nokkuð, að stofnaður var Gagnfræðaskóli Reykvíkinga, og er margt gott um hann að segja. En hann er allt öðruvísi stofnun, svo að hann getur ekki að sínu leyti fyllilega bætt þennan órétt, sem hinum fátækari Reykvíkingum var gerður, þegar takmarkaður var aðgangur að menntaskólanum. Og tilraun hv. þm. S.-Þ. til þess að stilla honum upp á móti menntaskólanum á þann hátt, sem það er gert, var til þess að staðfesta það, að hinir fátækari ættu ekki að ganga menntaveginn þannig, að þeir færu í háskólann. Sá hv. þm. hélt því fram, að ekki mættu of margir verða stúdentar, og til þess að framfylgja þeirri skoðun sinni áleit hann þetta heppilegt ráð.

En menntaskólinn er að einu leyti orðinn of stór. Hann er orðinn of stór fyrir rektorinn. Það er stórhættulegt, að stjórnendur skóla séu uppteknir við allan skrattann annað en þeirra verk. En núverandi rektor, Pálmi Hannesson, hefur verið hafður í öllum hugsanlegum n. og starfar í þeim öllum jafnvel og hefur ekki nægan tíma til að sinna rektorsembætti sínu, þannig að skólinn er í hreinustu niðurníðslu. Við höfum oft haft beztu menntamenn þjóðarinnar fyrir rektora skólans, sem hafa gefið sig að því starfi óskipta og m.a. litið eftir félagslífi skólans. En rektorinn kemur ekki að skólanum nema alltof lítið. Hann telur sig ekki þurfa að eyða nema helming tíma síns til hans, kannske ekki nema einum fjórða og jafnvel stundum kannske ekki nema einni klst. á dag. Það er því ástæða fyrir hv. þm. að líta í eigin barm, þegar hann talar um það og hans skoðanabræður, að menntaskólinn sé of stór. Ég álít það mikið verkefni að veita forstöðu öðrum eins skóla og Menntaskólanum í Reykjavík, en það eru ekki rök fyrir því, að skólinn eigi að vera lítill. Og að reynsla sé komin á það úti um heim, að heppilegt sé að hafa litla skóla, það er vert að athuga, hvernig ber að taka. Því að það, sem þeir kalla litla skóla þar, eru kannske skólar með nokkur þúsund nemendur. þetta er því ekkert sambærilegt. Og að bera saman það, sem þeir kalla litla skóla þar, annars vegar og hins vegar það, sem við köllum litla skóla, það er að nota sömu orð um tvo óskylda hluti.

Litlir skólar t.d. í Englandi og Þýzkalandi hafa kennske þúsundir nemenda hver, en litlir skólar hjá okkur eru með nokkra tugi nemenda. Menntaskólinn í Reykjavík hefði ekki nema gott af því að hafa fleiri nemendur. En hann þarf þá að fá gott pláss; og er það þjóðinni til háðungar, að hann hefur ekki fengið það. En þó að kennarar skólans kannske lendi á villustigum, er það ekki rök fyrir því, að slíkir skólar eigi ekki að vera hér í Rvík.

En ef athugaður er sá kostnaður, sem ríkið hefur af því að starfrækja skólana, og einnig kostnaður fjölskyldna við að láta börn sín ganga á þá, þá er ekki minnsti vafi á því, að kostnaðarminnst er að hafa skólana hér í Rvík, vegna þess að 1/3 hluti þjóðarinnar hefur hér aðstöðu til þess að láta börn sín ganga heimanað frá sér í skóla Hitt er annað mál, að erfiðleikar eru fyrir fólk í sveit að koma börnum sínum í skóla í Rvík, og það verður þá að gera ráðstafanir til að hjálpa því. Og þá aðferð álít ég hina réttu. Ég álít, að undantekningarlaust eigi að hjálpa öllum ungum mönnum og ungum stúlkum, sem vilja ganga í skóla, til þess að gera það. Og ég er viss um, að það margborgar sig peningalega fyrir ríkið að styrkja það fólk til náms. Og í þessu sambandi vil ég undirstrika það, að það er ekki ástæða til að reyna alltaf að egna sveitafólkið upp gegn kaupstaðafólkinu og kaupstaðafólkið gegn sveitafólkinu. Og þeir eru, sem betur fer, færri, sem vilja gera það. Til þess að sveitafólkið verði ekki út undan um menntun, þarf að styrkja það til náms. Og ég vil ekki taka afstöðu til þessa máls, hvort rétt sé að hafa menntaskóla í sveit, að órannsökuðu máli. Ef menntaskóli er í sveit, þá þarf langmestur hluti fólksins, sem sendir börn sín í slíkan skóla, að kosta þau utan heimilis síns, en þau geta ekki gengið í hann heimanað. Og verði reistur menntaskóli í sveit, þá væri gagnvart fólki í kaupstöðunum, t.d. í Rvík og á Akureyri, sama siðferðislega skylda fyrir ríkið að hjálpa fólki til að kosta börn sín í menntaskóla í sveit, þá er þar vildu hafa börn sín, eins og að styrkja fólkið utan kaupstaðanna til þess að kosta börn sín í menntaskóla í Rvík og á Akureyri. Það er allt of mikið um það, að eldri unglingar þurfa fljótt að fara að vinna fyrir yngri systkinum sínum vegna heimilisástæðna, og væri ástæða til að styrkja slík heimili til þess að geta menntað börn sín. En sá stuðningur, sem hv . þm. S.-Þ. (JJ) veitti þessum heimilum 1929 eða 1930, var 125 kr. skólagjald, sem greiða skyldi fyrir hvert barn. Þá þurfti faðir minn, sem hafði þrjú börn í menntaskólanum, að borga 375 kr. í skólagjald, eða alla sumarhýruna mína. Og þetta skólagjald reið baggamuninn hjá mörgum fátækum manni um það, hvort hann gat kostað barn sitt eða börn í skóla. Það voru margir, sem urðu að hætta við það nokkuð vegna þessa. Og þessi flm., sem nú talar um, að það þurfi að muna eftir því að hafa jafnrétti í þessum efnum, ætti að vera þess minnugur, að allar ráðstafanir, sem 1929 og 1930 voru gerðar til þess að takmarka nemendafjöldann í menntaskólanum, voru til þess að hindra, að fátæk börn gætu farið í háskólann. Og takmarkið með þessum tilraunum til að útiloka hina fátæku frá því að menntast, er að útiloka alþýðuna frá því að geta talað sínu máli og heimtað rétt sinn.

Ég endurtek það, að ég geri engan mun á sveitafólki og kaupstaðafólki í því efni, að ég vil styrkja alla, sem vilja menntast, til þess að geta það, því að hver einasti maður, sem leggur það á sig að bæta við þekkingu sína, vinnur þjóðnytjastarf. Og ég vil biðja mig frá þeim einfeldnislega þvættingi um andsöðu mína við sveitafólkið. Það er tilhæfulaust, að ég hafi á nokkurn hátt talið eftir styrki, sem látnir hafa verið til sveitafólksins. Og það er aðeins örstutt síðan ég sannfærðist um það, að þessir styrkir koma að engu haldi. Ég hélt lengi vel, að þessi styrkjaleið væri eina ráðið til þess, að landbúnaðarframleiðslan félli ekki niður, og við vitum, hvað hún er nauðsynleg. En þjóðin er farin að sjá, að þetta er botnlaus hít að styrkja þá framleiðslu á þann hátt. Það þarf að breyta búnaðarháttunum. Það er ekki nóg að ausa styrkjum úr ríkissjóðnum, þó að við vildum þurrausa hann hvert góðærið eftir annað, þá er þetta sama hítin, og við stöndum eftir styrjöldina eftir sem áður frammi fyrir sömu kreppunni eins og eftir síðustu styrjöld, og kannske í enn ríkara mæli en þá var. Og fólkið er þess vegna farið að sjá, að þessi styrkjaleið er ekki rétta leiðin. Og þess vegna er líka Framsfl. „irriteraður“, þegar minnzt er á styrki, jafnvel þó að um styrki sé að ræða, sem undir öllum kringumstæðum er fullkomlega réttmætt að greiða.