26.03.1943
Neðri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (4194)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér það, að nú, kannske í sambandi við þetta mál eða a.m.k. samhliða því, þyrfti að koma fram sérstök löggjöf, sem kvæði um það, hvaða kröfur yrði að gera til menntaskólanáms, og væri í henni alveg sérstaklega fram tekið, hvaða námsgreinar stúdentsefni ættu að lesa og hversu mikið þeir ættu að hafa lært. Geri ég ráð fyrir, að slíkt frv. verði borið fram innan tíðar eða till. um að undirbúa það. Ég skal játa það, að þegar ég var að velta fyrir mér, hvaða kröfur ætti að gera í þessu efni, gerði ég mér ekki ljóst, að það er ein námsgrein, sem verður að gera sérstakar kröfur til. Ég játa, að þessi námsgrein fór fram hjá mér, þangað til ég hlustaði á ræðu hv. þm. Siglf., en þá datt mér í hug, að það væri ein námsgrein, sem verður að gera kröfur um; sem sé, að þeir, sem slíkt nám stunda, verði að uppfylla einhverjar lágmarkskröfur fyrir því, að þeir kunni eitthvað í rökfræði. Það er alveg til háðungar, að menn, sem stundað hafa nám árum saman, skuli ekki geta sett fram nokkurn veginn rökrétta hugsun, og sýnir það, að nauðsynlegt er, að við slíkar stofnanir verði gerðar einhverjar kröfur um, að þar sé kennd rökfærsla, enda verður það röksemdarugl, sem þessi maður ber fram, að teljast þeim skóla, sem hann hefur gengið í gegnum, til mikillar vanvirðu.

Þessi þm. sagði í fyrri ræðu sinni, að það væri alveg nauðsynlegt að hafa þessa skóla í bæjunum, vegna þess að þá geti kennararnir jafnhliða störfum sínum við skólana, stundað aðra vinnu, en í næstu ræðu sinni ræðst hann á einn af þessum mönnum, núv. rektor menntaskólans, fyrir það, að hann skuli skipta sér af öðru en sínu embætti, og er þetta fyllilega ástæðulaust, því að þessi maður, Pálmi Hannesson, mun sízt vera meira önnum kafinn en aðrir, sem við skólana vinna. Þessir menn vinna við aðra skóla ríkisins, hafa jafnvel skóla sjálfir, og stunda ýmsa aðra vinnu, og er þá aðalásökunarefnið, að hann stundum geri annað. Eftir þessu er röksemdafærslan. Hann segir, að það sé kostnaðarminnst að hafa skólann alltaf í Rvík, þar sem 1/3 landsmanna sé, því að þá sæki þeir hann hlutfallslega við það, en þó það sé langsamlega dýrast fyrir þá, sem eru utan Reykjavíkur, gerir það ekkert til. Ef þetta er nokkur röksemd, mætti skólinn, þó að hann væri í Rvík, ekki vera meira en 1/3 dýrari en annars staðar, með 1/3 íbúa landsins, til þess að það borgaði sig fyrir þjóðarheildina, en nú vita allir, að það er ekki 1/3 heldur meira en helmingi dýrara að stunda nám hér en í heimavistar skóla. Þess vegna er sú röksemd villandi, að þetta sé ódýrara fyrir þjóðina, af því að 1/3 hluti þjóðarinnar býr í Rvík. Ég er viss um, að ekkert barn í barnaskóla mundi leyfa sér að viðhafa svona röksemdafærslu, hvað þá maður, sem búinn er að vera í menntaskóla og þar að auki í háskóla. Þá segir þessi þm. enn fremur, að hann geti ekki skilið, hvað sveitamenn í landinu standi betur að vígi með að koma börnum í skóla, þótt skóli væri á Laugarvatni. Það er ekki verið að kafa djúpt í málunum. Mundi það ekki létta á heimavistinni á Akureyri, ef þeir Sunnlendingar, sem sækja þangað, færu að Laugarvatni. Þess er enginn kostur fyrir fólk úr sveit að sækja skóla, nema þar sem heimavist er. Þess vegna þýðir heimavist, hvar sem hún er, hvort heldur er á Laugarvatni eða annars staðar, stórum aukna möguleika fyrir sveitafólk til þess að sækja skóla, og þess vegna er góður heimavistarskóli svo þýðingarmikill fyrir þetta fólk til þess að geta stundað menntaskólanám. Þá segir þessi hv. þm., að það sé óframkvæmanlegt fyrir verkamannafólk í Rvík að senda börn sín í heimavistarskóla. Eftir því vill hann ekki einu sinni, að sveitafólk og sveitaæska fái þá aðstöðu, sem hann telur ekki betri en það, að hún geti ekki orðið til gagns fyrir verkamenn í bæjum.

Hann vill ekki einu sinni ganga svo langt til jafnréttis, að hann vilji, að sveitaæskan fái að stunda nám við þau skilyrði, sem hann telur ekki mögulegt fyrir verkamenn í bæjunum. Ég vil segja honum það, að það er ekki verið að fara fram á að fá skóla í hverri sveit, heldur einungis að opna möguleika fyrir þá, sem hafa hæfileika og vilja til að stunda þetta nám og telja sig geta það frekar á þennan hátt.

Ég held það sé varla ásæða til að ræða við þennan hv. þm. um þær ádeilur, sem hann er með á Framsfl. og staðhæfingar hans um það, að allar ráðstafanir Framsfl. frá því á árunum 1929–1930 og síðan hafi miðað að því að útiloka alþýðuna frá því að geta sótt skóla. Ég veit satt að segja ekki, hvað á að segja um svona fullyrðingar. Hefur Framsfl. ekki bæði á árunum 1929–1930 og síðan beitt sér fyrir, að komið væri upp skólum um allt landið? Hverjir hafa barizt með því? Barðist ekki Framsfl. fyrir því jafnhliða að koma á fót gagnfræðaskólum í öllum kaupstöðum landsins? Og eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði: „Hverjir hafa beitt sér fyrir skólum í sveitum landsins?“ Hafa kommúnistar gert það? Hvað eiga þeir að baki sér? Hvar geta þeir bent á skóla, sem þeir hafa komið upp? Hvar geta þeir bent á eitt einasta verk? Ef þeir gætu bent á eitt einasta dæmi. (SG: Mig langar ekki til að eiga þátt í stofnun eins og Laugarvatnsskólinn er). Ég veit, að þessi þm. er á móti skólum, sem ekki eru kommúnistaskólar, en hann ætti að athuga það, að ýmsir borgarar í þessu landi vilja láta börn sín læra annað en kommúnisma og telja, að hver sæmilega greindur maður geti kynnt sér stjórnmálastefnur, þegar hann er búinn að læra annað. Ég hygg, að Framsfl. þurfi ekki að blygðast sín fyrir Laugarvatnsskólann eða hljóta ámæli fyrir hann og þegar verið er að segja, að þessi flokkur stefni að því að loka skólunum jafnhliða því, sem aldrei hafa önnur eins átök v erið gerð í skólamálum eins og þau ár, sem Framsfl. fór með þau, þá er varla hægt að tala við þá menn í alvöru, sem segja slíkt. Þeir bara neita staðreyndum. Þetta er hægt að segja, þegar annars vegar er fólk, sem er ókunnugt málunum, en það er til háðungar að ætla að halda þessu fram hér á þingi, enda var það auðheyrt á 2. þm. Reykv., sem telur sig eiga að hafa eitthvert eftirlit með hjörðinni hér á þingi, að hann fann, að liðsmaður hans, hv. þm. Siglf., hafði hætt sér helzt til um of í fullyrðingum sínum. Ég þakka honum ummæli hans í þessu efni, en veit, að hann viðurkennir, að fleipur það, sem hv. þm. Siglf. bar fram, er hættulegt flokki þeirra. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri rétt, að óhætt væri að fjölga stúdentum, og að flokkur hans mundi beita sér fyrir því, þegar hægt yrði. Ég vonast til þess, að flokkurinn hjálpi til, að þeir fátæku — og þeir ríku líka — í sveitum og bæjum fái greiðan aðgang að skólum landsins fyrir börn sín. Það er sannarlega hverju orði sannara, að sú þjóð, sem telur nauðsynlegt að takmarka nám manna, á ekki skilið að heita menningarþjóð, og það á að gera námið eins auðvelt og mögulegt er. Takmarkið er ekki að skólarnir séu sem viðast og ekki það, að þeir séu sem flestir, heldur að það verði sem jöfnust aðstaða fyrir einstaklingana, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir og hvort sem þeir eru í sveit eða kaupstað, til þess að þeir geti notað þá hæfileika, sem þeir hafa. Það er það, sem mestu máli skiptir.

Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Siglf., sem ég get ekki annað en minnzt á og er gott dæmi um röksemdafærslu hans. Það var, þegar hann talaði um, að það væri einkennilegt að hugsa sér það sem rök, að þótt skóli tæki ekki nema 25 nemendur, þyrfti að takmarka fjölda þeirra við þá tölu. Að hugsa sér það, að tölu nemenda skuli eiga að miða við þann stað, sem er fyrir hendi. Það væri eins hægt að hugsa sér, að hægt væri að hafa skólann á hvaða stað sem væri úti á landi. Náttúrlega verðum við að fara eftir þeim skilyrðum, sem eru fyrir hendi, en hitt er rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að skólahúsið hér í Rvík er of lítið, en það á ekki fyrir það að taka ótakmarkað í skólann og láta deildir hans vera hingað og þangað úti um bæ, þar sem ekki er hægt að hafa neitt eftirlit með þeim. Það er skiljanlegt, að hver skóli verður á hverjum tíma að takmarkast við þau skilyrði, sem fyrir hendi eru, og líka um nemendafjölda. Þess vegna var ekki um annað að ræða en að miða við það húsrúm, sem skólinn hafði.

Ég hef nú rakið þær röksemdir ræðu hv. þm. Siglf., sem máli skipta. Þau orð, sem hann lét falla um rektor Menntaskólans í Rvík, eru frekar til lofs en hins, þegar þau koma frá svo rökföstum og góðviljuðum manni, sem þessi þm. virðist vera. Enda er r ektornum óhætt fyrir þeim, þegar maður veit, hvernig hann hefur leyst skólastörf sín af hendi og fengið hið bezta orð bæði meðal nemenda og aðstandenda þeirra. Persónulegar svívirðingar, sem koma þessu máli ekkert við, eru aðeins vitnisburður um úlfúð höfundar síns, þegar gærunni er af honum flett. Þm. kvaðst heldur vilja greiða styrki til að ala upp unga menn en refi eða uppbætur á refaskinn. Ég held líka, að það sé miklu betra að verja nokkru fé til þess, að unglingar verði að mönnum, heldur en þeir verði að refum þjóðfélagsins.