01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. – Á þskj. 312 er ég meðflutningsmaður nokkurra brtt., og skal ég geta sumra þeirra að nokkru. Skal ég fyrst nefna Krýsuvíkurveg, en við leggjum til að fá 500 þús. kr. veittar til hans. — Í þennan veg hefur verið mokað peningum undanfarin ár, en enn sem komið er er hann ekki til neins gagns. — Um þennan veg hefur mikið verið deilt, og skal ég ekki hér fara inn í þær deilur. En ég hef alltaf litið svo á, að þessi vegur ætti mikinn rétt á sér, jafnvel sem vetrarvegur, þótt hann sé ærið langur. Enn fremur er á það að líta, að það varðar Hafnarfjarðarkaupstað mjög miklu að fá vegasamband við Krýsuvík, og loks verður svo á það að líta, að Þorlákshöfn er eini staðurinn, sem líklegur er til hafnargerðar á Suðurlandi, og gera verður ráð fyrir, að þar komi upp höfn í framtíðinni. Vegurinn er nú kominn yfir verstu kaflana, en eftir er þó að tengja vegarendana saman. Það er því allt, sem mælir með því, að eigi verði hætt við þennan veg, heldur verði honum haldið áfram, svo að hann komi að gagni.

Þá flyt ég með hv. 6. landsk. þá brtt., að í staðinn fyrir 150 þús. til brúargerða komi 1 millj. kr. Nú skýrði hv. 1. þm. Rang. frá því, að n. væri þessari breyt. sammála, svo að ekki virðist ástæða til þess að tala frekar fyrir henni.

Þá flyt ég með hv. 6. landsk. brtt., sem gengur í þá átt, að tillag til íþróttasjóðs hækki úr 125 þús. kr. í 400 þús. kr., og höfum við þá einkum í huga, að styrkja beri af fremsta megni íþróttastarfsemi í landinu og að hlynnt verði að æskulýðnum, komið sé sem flestum sundlaugum upp, en þeirra er viða þörf, og um hollustu sundiðkanna verður eigi deilt. Peningar, sem varið er til þessa, eru því ekki eyðsla, þeir renta sig margfaldlega og skila sér aftur.

Þá flyt ég með fleiri hv. þm. till. í þá átt, að tillag til náttúrufræðifélagsins hækki úr 6000 upp í 15000 krónur. Það má fullyrða, að hingað til hefur náttúrugripasafninu verið alltof lítill sómi sýndur, og það hefur tórað eingöngu fyrir ósérplægni þeirra manna, sem umsjón hafa haft með því, en það var fyrst og fremst Bjarni heitinn Sæmundsson og nú Magnús Björnsson fuglafræðingur. Safnið er mikið sótt, þrátt fyrir það að það er í lélegu húsnæði og hafi hingað til ekki verið sómi sýndur.

Þá er enn brtt. um að tvöfalda aukastyrk til bókasafna. Mér finnst þetta eðlileg hækkun. Verð íslenzkra bóka er nú svo hátt, að söfnin munu vart rísa undir því að afla sér jafnmikils bókakosts og áður, og á hitt er líka lítandi, að nú er hægt að fá enskar bækur við mjög vægu verði og góðum kjörum. Þá þykist ég hafa gert grein fyrir og rökstutt þær brtt., sem ég flyt, en mig langar þó enn að minnast á eina, en það er till. hv. 6. landsk., um að auka tillag til nýrra vitabygginga úr 200000 upp í 500O00 krónur. Hingað til hefur það oftast verið svo, að vitagjaldið hefur gert talsvert meira en að hrökkva til útgjalda vitanna. Vitagjaldið er tekið af skipum, sem við landið sigla, og hefur því jafnan að miklum hluta verið greitt af útlendingum. Það hefur því ekki verið vansalaust fyrir ríkið, að vitagjöldin hafa lengst af verið álitin tekjulind fyrir ríkissjóð og notuð þannig. Nú mun vita gjaldið ekki hrökkva til útgjalda vitanna, en hins vegar hafa tekjur ríkissjóðs verið meiri en nokkurn tíma áður. Mér finnst því vel við eigandi og full ástæða til þess, að nú sé veitt ríflega til vitabygginga, því að margt er enn ógert og vitakerfi vort ófullkomið.

Ég verð að taka undir það með samflokksmönnum mínum, að afgr. fjárlagafrv. í fjvn. er mjög ófullkomin, og verð ég að telja n. það til vansa, að hún skyldi skila störfum sínum, eins og raun er á orðin, án þess að hafa gert athugasemdir sínar við þær gr. fjárlaga, sem mikilvægastar eru, bæði tekjuhliðina og framlög til verklegra framkvæmda. Að vísu verður ekki um það deilt, að fjárlagafrv. var illa búið í hendur n., því að ekki verður séð, að frv. það, sem fyrir lá, sé á neinn hátt svo, að það nálgist veruleikann. En því meiri ástæða var það fyrir n. að athuga vel sinn gang og búa það svo í hendur hv. þm. við þessa 2. umr., að hægt væri að fá yfirlit yfir áætlaðar tekjur og gjöld ríkisins, svo að þm. gætu gert till. sínar í samræmi við þetta, en ekki út í bláinn.

Það er því alveg einstakt ábyrgðarleysi hjá meiri hl. n., þegar hann skilur við fjárlögin til 2. umr. eins og nú er kunnugt orðið. Það var þó enn meira ábyrgðarleysi, sem fram kom hjá hv. þm., þegar þeir ætluðu að fara að vilja meiri hl. n. og láta bíða til 3. umr. að gera brtt. við þá liði fjárl., sem mest er komið undir, að vel sé til vandað, en það var sýnilega ætlun þeirra. Hvað mundi það þýða, ef svo hefði til tekizt? Það hefði þýtt það, að fjárl. hefðu verið afgr. af Alþ. með einni umr. í stað þriggja, sem til er ætlazt, eða öllu heldur tveggja, því að 1. umr. virðist vera frekar formsatriði. En hvað þýðir aftur það, að aðeins fer fram ein umr. um fjárlögin? Það þýðir, að hending ein ræður, hvernig þau verða. Því að það er vitanlegt, að þm. munu flytja, ef að vanda lætur, miklar og margar brtt., og þá segir það sig sjálft, að það er með öllu ógerlegt að vita, hvernig fjárl. verða, séð sem heild. Þau geta eins orðið afgr. með miklum tekjuhalla eins og hitt. — Þau verða sem sagt afgr. í algerðri blindni.

Hvað er ábyrgðarleysi, ef ekki þetta? Og svo kemur hv. þm. S.-Þ. og brigzlar okkar flokki um ábyrgðarleysi, þegar við reynum að koma í veg fyrir þetta athæfi. — Maðurinn, sem er potturinn og pannan í þessum ófagra leik. Maðurinn, sem sagður er valdalaus innan Framsfl., honum tekst þó að beygja alla þm. flokksins í þessu máli, meðnm. sína og aðra.

Hvernig stendur á því, að hv. þm. láta hafa sig út í annað eins ábyrgðarleysi og þetta? Ég skil það ekki, og einna sízt skil ég afstöðu hv. þm. Ísaf., sem þó er búinn að lýsa því yfir, að hann sé mótfallinn afgreiðslu nefndarmeirihl. Hann bognar líka og tekur afstöðu móti fyrri afstöðu sinni og fóðrar þá afstöðu sína með því, að formgalli hafi verið á till. hv. 2. þm. Reykv. um að fresta umr.

Þegar hv. 2. þm. Reykv. tók til máls á föstudag, var honum borið á brýn málþóf og hann spurður, hvort hann vissi ekki, hvað slíkt málþóf kostaði. Þetta sagði einn þeirra þm., sem í sumar samþ. málþófslaust þáltill. um að verðbæta útfluttar afurðir, þál., sem hefur kostað ríkissjóð 20–30 millj. kr. Eins og málþóf þá og svolítil athugun á málinu í sambandi við það hefði getað sparað ríkissjóðnum tug milljóna, eins er ekki fjarri vegi, að hv. þm. hefðu síðar meir orðið að líta á aðgerðir sínar í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, á sama hátt og þeir nú líta til þál. í sumar, sem þeir skammast sín fyrir. Þessi þál. hefur étið upp allan tekjuafgang ríkisins frá veltuárinu 1942.

Það er kannske ekki mikilsvert atriði, að íslenzki iðnaðurinn, sem vinnur úr þeim afurðum, sem verðbættar eru, er að fara í rúst vegna verðuppbótanna. Það liggja nú fyrir iðnaðarn. beiðnir um verðuppbætur á hrávörur, sem notaðar eru í þessum iðnaði, verðuppbætur, sem mundu rema upp undir 1 millj., ef við þeim er orðið.

Hvernig á sá iðnaður að geta borið sig í samkeppni við erlendan iðnað, þegar hann þarf að greiða allt að því þrefalt verð fyrir hömu hrávöruna? Enda veit ég til þess, að einstöku verksmiðjur hafa upp á síðkastið hætt að nota íslenzku hrávöruna og hafa flutt inn hráefni.

Er það nú búmennska eða hitt þó heldur að gera þeim iðnaði, sem getur unnið úr íslenzkum afurðum, ókleift að starfa. Eftir stríðið hlýtur það að verða stór liður, eigi þessi iðnaður þá nokkurn rétt á Sér, sem þessi iðnaður mundi nota af íslenzkri ull og gærum, og manni finnst að slíkur iðnaður ætti að eiga rétt á sér.

En nú er verið að drepa þennan iðnað, sem ætti að vera lyftistöng undir landbúnaðinn. Ég verð að segja, að þetta er léleg búmennska, að styrkja landbúnaðinn með fégjöfum, en höggva um leið eina af stoðunum, sem ber hann uppi. Og þessi þál. var samþ. málþófslaust. Þá þurfti eins og nú að hafa hraðann á. Það er leiðinlegt, þegar hv. þm. láta hafa sig til annars eins athugunarlaust.

Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvað hefur vakað fyrir meiri hl. fjvn. með þeirri afgreiðslu á frv., sem hann hefur viðhaft, en ég á bágt með að skilja það. Ég skal að vísu játa, að talsverð óvissa hlýtur að ríkja við áætlanir á þessum tímum. En n. hafði sér þó til hliðsjónar, að því er mér er kunnugt, upplýsingar t.d. um það, hve miklu ýmsir tekjuliðir fjárlaganna námu s.l. ár, og heildarupphæð tekin þessa árs verða vart undir 89–90 millj. kr. Samkv. nál. er gert ráð fyrir, að tekjurnar verði 48 millj. Það munar hvorki meira né minna en 40 millj. frá tekjunum s.l. ár. Fyrr má nú vera óvissan.

Í áliti n. segir, að n. hafi athugað um fjárframlög til verklegra framkvæmda og gert drög að till. þar að lútandi. Hvers vegna liggur n. á þessum till.? Væri ekki fyrir beztu að þm. hefðu fengið að kynna sér þær? Ég geri ráð fyrir, að margir, ef ekki allir, þm. eigi sér einhver áhugamál vegna kjördæma sinna í þessum till., og langi til að fræðast um þær. Hv. þm. Ísaf. var fullur vandlætingar á því, er einstaka nm. hefðu orðið til þess að veita upplýsingar um þetta. Hann taldi slíkt mjög óþinglegt, en hins vegar væri kannske ekki annars að vænta af nýgræðingi hér á þingi. Og með því vildi hann í yfirlætisleysi sínu afsaka hv. 6. landsk. og virða honum þessa yfirsjón hans á betri veg.

Nú spyr ég: Af hverju mega hv. þm. ekki fá vitneskju um þetta? Hvað á svona pukur að þýða? Lítur hv. þm. Ísaf. á sig og meðnm. sína sem einhverja einræðisherra, sem eiga að ráða ráðum sínum í friði og ró, en okkur þm. sem óvitabörn, sem ekkert mega vita, heldur bara segja já og amen við því, sem hv. n. þóknast að valdbjóða? Það er gott, að svolítil hula hefur verið dregin frá störfum fjvnm. Og mér er enn spurn : Hvernig fór n. að búa til þessi drög að till., fyrst allt var í óvissu um tekjurnar, þessari líka voðalegu óvissu? Eftir hverju fór n. við þennan till.- tilbúning? Fyrst n. gat sín á milli orðið sammála um þessar till., hvers vegna þarf þá að dylja þm. þær? Veit meiri hl. n. ekki, að öllum getur skjátlazt og yfirsézt og það er mannlegt, og einmitt þess vegna er ætlazt til þess, að umr. séu þrjár? Eða er hann svo hörundssár, að hann hafi ekki treyst sér til að sýna þessar till. sínar? Það væri alveg nýtt fyrirbrigði hjá þessum hv. stjórnmálamönnum.

Það hefur verið upplýst, að tildrög n. til verklegra framkvæmda hefðu verið til hækkunar. Fyrst meiri hl. gat gert sér í hugarlund till. til hækkunar á verklegum framkvæmdum, þá hlaut hann um leið að hafa gert sér hugmynd um, hverjar tekjurnar mundu verða. Því að ef þetta fylgist ekki að, þá er starf n. ekki eins og það ætti að vera, og n. ekki starfi sínu vaxin, þegar á þetta er litið, að n. hafði gert sér hugmyndir um allt fjárlagafrv. í aðaldráttum. Því í ósköpunum lét hún ekki nál fara þannig frá sér? Það er alveg óskiljanlegt. N. ber það fyrir sig, að hæstv. ríkisstj. hefði enn ekki gert Alþ. grein fyrir, hverjar ráðstafanir hún hyggst að gera og hver áhrif þær væntanlegu ráðstafanir kynnu að hafa á fjáröflun eða fjárframlög.

Er hér ekki farið aftan að siðunum? Er það ekki þingsins eins og stjórnarinnar að gera grein fyrir vilja sínum? Er þingið þjónn stjórnarinnar? Vakir það fyrir hv. n., eða er stjórnin framkvæmdastjórn Alþ.? Það mun ekki um það deilt, að stjórnin á að vera framkvæmdastjórn Alþ., og þess vegna væri það gott fyrir hæstv. stjórn að fá að vita vilja þingsins á þessu stigi málsins, svo að hún gæti undirbúið þær væntanlegu ráðstafanir í samræmi við þann vilja, og hann hefði einmitt komið í ljós nú við 2. umr. fjárlaganna, ef venjuleg aðferð hefði verið viðhöfð í vinnubrögðum n. Því meira sem athuguð eru skil n., því erfiðar verður að mæla þeim bót.

Í einu má þó segja, að n. hafi tekizt að fara rétt með, —- og þar get ég verið henni samdóma, — sem sé í þeirri staðhæfingu hennar, að afgreiðsla fjárlagafrv. sé að þessu sinni með nokkuð óvenjulegum hætti.

Við sósíalistar gerðum okkar til, að þessi flaustursmeðferð fjárlaganna yrði ekki viðhöfð, en þrátt fyrir það að þm. hinna flokkanna vel flestir kannist við það, að þessi meðferð nái ekki nokkru tali, þá heyktust þeir á því að halda þerri skoðun sinni til streitu og koma í veg fyrir þessa óheyrilegu, kærulausu afgreiðslu fjárlaganna. Við höfum að vísu ekki getað fengið því áorkað, að leiðrétting fengist á þessu. Til þess hafa nm. orðið, sem þó nú munu flestir sjá og viðurkenna með sjálfum sér, að við höfum á réttu að standa. Til þess hefur nm. ekki tekizt að brjóta odd af oflæti sínu og kannast við yfirsjón sína. En þó vænti ég, að umr. um þetta mál hér verði nm. sú áminning, sem þeir eiga skilið, og að þetta verði til þess, að slíkt atferli endurtaki sig ekki.