01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég skal ekki halda hér langa ræðu að þessu sinni. — Það hefur verið gerð tilraun til þess af þeim hv. þm. Sósfl., er hafa talað hér í kvöld, að draga mig í dilk með hv. þm. S.-Þ. út af þessari óvenjulegu afgreiðslu fjárlaganna. Ég skil ekki, með hvaða rökum þeir gera slíkt, því að ég var hv. þm. S.-Þ. ósammála um afgreiðslu frv. hjá fjvn., en ágreiningurinn innan fjvn. var þó ekki svo mikill, að n. klofnaði um afgreiðslu málsins. Annað mál er það, þótt ég hafi greitt atkv. gegn því að fresta þessari umr. og vísa málinu aftur til n., því að slíkt hefur aldrei þekkzt, nema því aðeins að fjvn. hefði óskað þess sjálf. Á þessu sézt, að ég er að öllu leyti sjálfum mér samkvæmur. Ég áleit, að réttara hefði verið að skila við þessa umr. till. um verklegar framkvæmdir, en taldi hins vegar ekki rétt að vekja neinn stóran ágreining um það í n.

Það er mjög vafasamt, hvort hægt er að tala um meiri og minni hl. í n., sem skila sameiginlegu nál., því að þegar n. greinir mikið á, þá skila þær venjulega ekki sameiginlegu nál. Vel má vera, að ef fram hefði komið við afgreiðslu málsins tilraun til að kljúfa n., að ég hefði fylgt þeim meiri hl., sem það hefði kosið. En ekkert slíkt kom fram í n. Ágreiningur virtist svo lítill, að menn töldu ekki nauðsynlegt að kljúfa hana.

Hv. 11. landsk. hafði rangt eftir orð, er ég lét falla í ræðu minni í dag. Hann sagði, að ég hefði talað um það með vandlætingu, að einstakir nm. skyldu hafa gefið upplýsingar um ýmislegt, sem gerðist í n. Ég sagði, að mér þætti miður, að einstakir nm. skyldu vekja ágreining um mál, sem ekki var búið að taka afstöðu til í n. Þetta er tvennt ólíkt, og ég veit, að hv. þm. skilja muninn á þessu, enda þó!t það sé ofvaxið skilningi hv. 11. landsk.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að nm. voru ekki sammála um allar till., en ég held mér sé óhætt að fullyrða, að enginn ágreiningur hafi verið milli mín og hv. fulltrúa Sósfl. í fjvn. í neinu máli. Ég talaði aldrei um, að það hefði verið rangt af fulltrúum Sósfl. að koma með fyrirvara viðvíkjandi því að fresta till. um verulegar framkvæmdir. Þetta var heiðarlegur fyrirvari, sem gerður var á formlegan hátt, enda þótt hann hafi verið gerður seinna en venja er til. Annað mál er það, að ég kann ekki við, að hv. 2. landsk. sé að brigzla mönnum um það, að þeir greiði atkv. á móti betri vitund. Hvaða rétt hefur þessi hv. þm. til að vera með slíkar getsakir`? Einnig verð ég að segja það, að mér finnst óviðkunnanlegt, þegar hv. þm. eru að lýsa því, hvernig menn hafi litið út, þegar þeir komu á nefndarfund. Mér finnst ekkert óeðlilegt, þótt menn komi stundum órakaðir að morgni dags, en það er of líkt kjaftakerlingarhætti að gera slíkt að umtalsefni hér á hv. Alþ.

Ég fullyrði það, að samkomulagið var ekki svo slæmt í n., að menn þurfi að vekja hér persónulegar illdeilur þess vegna.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að mörg atriði, sem hv. 2. landsk. gat um, voru ekki komin til atkvgr. í n. Nokkur voru tekin á svo kallaðan óskalista, en allmörg komu ekki til atkv. T.d. till. um styrk til leikfimihúss Menntaskólans á Akureyri, og ekki heldur till. um kirkjubyggingarstyrki. Ég geri ráð fyrir, að við hv. 2. landsk. séum á svipaðri skoðun um það mál. Það er oft svo með ýmsar till. í n., að til þess að halda friði liðka menn til hver fyrir öðrum, og er ég ekki í neinum vafa um það, að öll afgreiðsla fjárl. mundi fara í handaskolum, ef nm. sýndu ekki hver öðrum nokkra sanngirni. Ég tel það engan vansa fyrir einn eða neinn fjvnm., heldur sjálfsögð og nauðsynleg vinnubrögð. Ég á ekki þar við, að menn slái af í principmálum eða einhverju, sem þeim þykir mikils um vert. Langt frá því. Til þess ætlast enginn maður. En í smærri málum er óhjákvæmilegt, að fjvnm. liðki hver til nokkuð, eftir því sem menn telja sér fært. Og ég veit, að hv. 2. landsk., sem er greindur maður, þótt hann hafi nú talað dálitið af sér hér við þessar umr. og að sumu leyti ekki til að bæta sig neitt í áliti, áttar sig á þessum hlutum. Hann er vanur félagsstörfum og bætir vonandi ráð sitt, þegar hann áttar sig betur á því.

Annars var ýmisleg ónákvæmni í ræðu hv. 2. landsk., sem ég sé ekki ástæðu til að leiðrétta að öllu leyti. En ég vildi þó í mestu vinsemd benda honum á það, að til þess að ljúka við Öxnadalsveginn nægja nú ekki 360 þús. kr., eins og hann gaf upplýsingar um hér, heldur þarf til þess 3 millj. kr. eftir áliti vegamálastjóra. Það má þess vegna segja, að það sé meira en lítil ónákvæmni að telja, að veginum yfir Öxnadalsheiði megi ljúka með 360 þús. kr. fjárveitingu. Vegamálastjóri gaf fjvn. upplýsingar um það, hvað þyrfti til þess að ljúka ýmsum vegaspottum á Norðurlandsleiðinni og byrjaði á Hafnarfjallsvegi í Hvalfirði, Vatnsskarði og Öxnadalsheiðarvegi og taldi, að 7 millj. kr. þyrfti til þess að ljúka þessum vegum, og þar af til að ljúka Öxnadalsheiðarvegi einum 3 millj. kr.

Viðvíkjandi einstökum till.. sem hér liggja fyrir, skal ég vera fáorður. Mér þætti ekki ólíklegt, að við atkvgr. mundu þær margar eða flestallar verða teknar aftur til 3. umr. Mér heyrðist á hv. þm. V.-Ísf., að hann mundi e.t.v. vilja taka brtt. sína aftur til 3. umr., ef menn vildu gera slíkt almennt, og ég get hugsað mér, að svo sé um fleiri. Ég vildi mælast til þess við hv. 7. landsk., að hann vildi taka aftur till. sínar til 3. umr. Það liggja fyrir h já n. till. frá vegamálastjóra, sem n. bað um, að yrðu sundurliðaðar, um framlög til brúargerða. N. hafði minnzt á 1 millj. kr. til þess, en vegamálastjóri skilaði till. með, að mig minnir, 1100 þús. kr. Og mér þykir ekki ólíklegt, að n. taki till. vegamálastjóra alveg upp. Hv. 7. landsk. hefur eflaust verið kunnugt um þessa tillögu vegamálastjóra, þegar hann gerði sínar till., þó að hann hafi til öryggis talið rétt að láta þetta koma fram við þessa umr.

Annars gerði hv. 2. landsk. nokkra aths. viðvíkjandi þeim ummælum mínum, að ég teldi ekki ólíklegt, að það fengist samkomulag í n. um tekjuáætlunina og um framlög til verklegra framkvæmda. Ég hef náttúrlega ekki neina fulla vissu fyrir þessu. En eftir þeirri samvinnu, sem var í n., áður en þessu nál. var skilað, þá hafði ég nokkra ástæðu til að halda þetta, og ég hef enn fengið ríkari ástæðu til að halda þetta af viðtölum við nm. nú í dag. Ef tekizt hefði fyrir 2. umr. að gera fullnaðaráætlun um verklegar framkvæmdir á þeim grundvelli, sem n. var með, þá var ég a.m.k. ekki í neinum vafa um það, að n. hefði orðið nokkuð sammála í till. sínum. Ég varð ekki var við neinn þann grundvallarágreining í þessu máli, sem mér virtist ekki, að hefði verið mjög auðvelt að ná samkomulagi um, gangandi út frá því, að náðst hefði fullnaðar afgreiðsla á tekjuáætluninni. Ég tel því, að hvorki ég né nokkur annar, sem talað hafa um góða samvinnu í n., hafi á nokkurn hátt ofmælt. Annað mál er, að mér kemur nokkuð undarlega fyrir sjónir, ekki verra samkomulag en verið hefur í n., að menn séu hér svo stórorðir eins og þeir hafa að ýmsu leyti gerzt við þessar umr. En það má kannske segja, að nokkuð miklu valdi sá, sem upphafinu veldur. Og það er mjög fjarri því, að ég vilji að öllu leyti álasa fulltrúum sósíalistanna fyrir það, sem hér hefur skeð. En þrátt fyrir ummæli hv. 2. landsk. þm. vona ég það nú enn þá, að unnt sé að ná sæmilegu samkomulagi um afgreiðslu fjárl., þannig að þingið telji, að afgreiðslu þeirra sé því samboðin. Við höfum hér ríkisstj., sem ekki styðst við neinn þingflokk, svo að vitað sé. Og þess vegna tel ég, að það hvíli meiri skylda á þinginu sem heild heldur en venjulega, ef hér væri þingræðisstjórn, um að sjá um afgreiðslu fjárl., svo að sómasamlegt sé, og þó einkum, að tekjuáætlunin verði færð í það horf, sem þm. telja líklegt, að varlegt sé, og einnig, að sæmilega verði séð fyrir framlögum til verklegra framkvæmda og nokkuð miðað við, að hér geti á árinu skapazt atvinnuleysi, sem því opinbera ber skylda til að bæta úr.

Það þarf ekki að taka það fram, að ég er mjög ósammála fyrrv. hæstv. fjmrh. (JakM), sem fór um það niðrandi orðum, ef ætti að fara að veita verulegt fé úr ríkissjóði í verklegar framkvæmdir á þessum tíma. Ég tel þvert á móti, að það sé óvarlegt að hæstv. Alþ. að ætla ekki talsvert fé til verklegra framkvæmda, því að það getur orðið hér atvinnuleysi á þessu ári. Og þó að svo hafi farið, að það ólán hafi hent þennan fyrrv. hæstv. fjmrh. að skila hér tómum ríkissjóði, eða svo til, í því mesta tekjuöflunarári, sem komið hefur yfir ríkissjóðinn, þá tel ég, að hæstv. Alþ. þurfi að gæta nokkurrar forsjálni um það framvegis að sjá um, að ríkissjóður hafi fé til verklegra framkvæmda.