01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jón Pálmason:

Ég ætla ekki að blanda mér að neinu leyti í þá leiðinlegu deilu, sem hér hefur orðið milli einstakra manna úr hv. fjvn. Og ég ætla ekki heldur að ræða sérstaklega almennt um afgreiðslu fjárl., jafnvel þó að ýmislegt, sem hér hefur verið sagt, gæfi tilefni til þess að fara um það nokkrum orðum.

En ég kvaddi mér hljóðs aðeins til þess að mæla fyrir tveimur litlum brtt., sem ég hef flutt við þá þætti fjárlfrv., sem fjvn. hefur skilað brtt. við.

Eins og þegar er kunnugt, hefur hv. fjvn, ekki skilað neinum verulegum brtt. við þá gr. fjárl., sem snýr að hagsmunum hinna einstöku héraða, varðandi verklegar framkvæmdir, sem sé 13. gr., og við hana flyt ég þess vegna Ekki neinar brtt. En það eru hér tvö atriði, varðandi 16. og 17. gr., sem snerta mitt hérað, sem ég flyt hér brtt. um, og hafði reyndar borið fram óskir um það við hv. fjvn. Fyrri brtt. er við brtt. hv. fjvn. á þskj. 269, 87. lið, og er í brtt. minni farið fram á, að við þennan 87. lið bætist nýr liður: „til landþurrkunar í Þingi í Húnavatnssýslu, 20 þús. kr.“ Þetta land, sem þarna er um að ræða, er áveitusvæði, nokkuð á fimmta hundrað hektarar, sem veitt hefur verið á nokkuð mörg ár og er véltækt, en svo vott, að ekki er í votviðrum hægt að heyja nema lítinn hluta þess, og þess vegna er ákaflega mikil nauðsyn á að fá það framræst. Síðast var veitt til þessa verks 4500 kr., en það fé hefur ekki verið notað, af því að skurðgrafa fékkst ekki þangað. Nú hafa verið gerðar áætlanir um þetta verk, og ef styrkur fæst, stendur ekki annað í vegi fyrir framkvæmdum en það, ef skurðgröfur fást ekki fluttar til landsins. Ég vænti þess vegna, að hv. þm. taki þessari till. með velvilja. En ef svo væri, að hv. fjvn. óskaði eftir að fá að taka till. til frekari athugunar til umr., mundi ég geyma hana þangað til, ef óskir koma fram um það.

Svo er önnur smábrtt. við 17. gr., sem er ekki um nema einar 300 kr. og er alveg í samræmi við þá liði, sem veittir eru á þeirri gr. til sjúkrasjóða. En þetta er till. um framlag til sjúkrasjóðs Engihlíðarhrepps. Vænti ég, að hv. þm. geti samþykkt þessa smávægilegu brtt., því að annaðhvort verður að taka þá sjúkrasjóði, sem þarna eru á 17. gr., út úr fjárl., eða þá að það verður að vera samræmi í þessum veitingum. Og þá er eðlilegt og sjálfsagt, að þeir sjóðir, sem eru hliðstæðir, njóti sömu réttinda, hvað þetta snertir.

Ég læt bíða til 3. umr. að koma með brtt. við fjárl. í heild, en mun við atkvgr. sýna afstöðu mína, sem nú er, að ég er á móti ýmsum brtt., sem hér liggja fyrir, ekki aðeins þeim, sem komið hafa fram frá einstökum hv. þm., heldur og nokkrum þeim, sem hv. fjvn. hefur flutt og mér virðist vera óþarflega langt gengið í fjárkröfum með.