11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja nokkrar till. hér með öðrum eða einn.

Fyrst eru þrjár till. sem ég er fyrsti flm. að. Sú fyrsta þeirra er stærst og mikilvægust og er á þá leið, að við 12. gr. 13 bætist nýr stafliður á undan á um, að lagðar verði fram kr. 200000.00 til byggingar fæðingardeildar í sambandi við Landsspítalann. Það er að vísu svo að nokkurt fé hefur verið ætlað til byggingar fæðingardeildar, eða allt að 1/3 kostnaðar. Ég geri ráð fyrir því, að þótt orðalag sé annað, þá sé hugsunin sú sama. Fjárveitingin er allt of lág til þess að koma að fullum notum. Fyrir okkur, sem flytjum þessa till., vakir það, að fæðingardeild Landsspítalans verði stækkuð, reist verði sérstakt hús á lóð Landsspítalans, og losnar þá pláss það, sem deildin nú hefur. Yrði síðan samkomulag um rekstur þess milli Rvíkurbæjar og Landsspítalans, og er gert ráð fyrir, að bærinn taki fyllilega sinn þátt í rekstrarkostnaðinum. Minna máli skiptir, hver telst eigandi stofnunarinnar.

Eins og öllum er kunnugt, er nú sem stendur mjög mikill skortur á húsrúmi, þar sem konur geti fætt börn sín. Það hefur mjög færzt í vöxt á síðari árum, að konur legðust frekar inn á fæðingardeildina en að ala börn sín í heimahúsum. Eftir því sem fólksfæðin hefur vaxið og íbúðir þær, sem fólk verður að notast við, minnkað, hefur þörfin á því, að konur gætu átt kost á að ala börn sín utan heimilisins, vaxið mjög. Nú er það að vísu svo, að læknar telja ekki gott að ýta undir það, að konur fæði utan heimilisins. Þeir telja eðlilegra og heppilegra, að þær ali börn sín heima, þar sem því verður við komið. En eins og ég sagði, geta ástæður verið svo, að þetta sé ógerningur. Því að þótt ekki sé gert ráð fyrir eðlilegri fjölgun fæðinga, hefur reynsla undanfarinna ára leitt í ljós, að fæðingar utan veggja heimilisins fara mjög fjölgandi. Ýmsir hafa talið eðlilegt, að Rvíkurbær kæmi upp slíkri stofnun sjálfur með styrk ríkisins og ræki hana á svipaðan hátt og sjúkrahús, án beinnar íhlutunar ríkisins. Um þessa till. er það að segja, að það væri mjög fávíslegt, að hið opinbera færi að reka tvær fæðingarstofnanir í ekki stærri bæ en Rvík. Skynsamlegast væri að koma upp einni slíkri stofnun með sameiginlegu átaki ríkis og bæjar. Þá væri málið leyst svo, að báðum aðilum væri sómi að.

Legg ég höfuðáherzlu á, að stofnuð verði ein fæðingardeild. Það er sparnaður bæði fyrir bæ og ríki og þægilegra öllum almenningi og kemur að meira gagni með því móti.

Ég hef átt tal um þetta mál við marga lækna. Skoðanir þeirra hafa verið nokkuð skiptar um það, hvort konur ættu að ala börn sín utan eða innan veggja heimilisins. En allir hafa þeir verið sammála um að hafa stofnunina eina.

Nú stendur málið þannig, að Rvíkurbær hefur á fjárhagsáætlun sinni ætlað 600000.00 kr. í þessu skyni. Er sérstaklega tekið fram, að þessari stofnun sé ætlað að taka við hlutverki fæðingardeildar Landsspítalans, sem ríkið kostar. Væri eðlilegt, að ríkið legði jafnháa upphæð á móti, enda í samræmi við breytingu á l. um sjúkrahús.

Sýnast allar líkur benda til þess, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og virðist þá líka vera í samræmi við þann vilja, sem fram kemur við breytingar á l. um sjúkrahús.

Það mætti hugsa sér, að þetta þætti nokkuð há fjárveiting, en ætla má, að þm. geri sér ekki grein fyrir öllum atriðum í sambandi við málið, þar sem ekki er búið að samþykkja frv. En ætla mætti, að þessi stofnun fyrir Rvík yrði ekki látin sæta lakari kjörum en sjúkrahús og alltaf verða veittur 1/3 kostnaðar eða 1/2 móti Rvíkurbæ. Þess vegna er till. um 300000.00 kr. til vara borin fram.

Samkv. upplýsingum frá landlækni kostar slík bygging ekki undir 300 þús. kr., og nú er allur byggingarkostnaður fjórfaldur, miðað við það, sem var fyrir stríð, og yrði hann þá í þessu tilfelli ekki lægri en 1200 þús.

1000000.00 kr. hafa enga þýðingu í þessu efni; og væri það sama og að Alþ. stöðvaði framlög sín til hálfs, ef sú lága upphæð yrði samþ. Þess vegna vil ég treysta því, að hv. þm. bregðist vel við þessu nauðsynjamáli höfuðstaðarins, og hefur hér ekki verið farið fram á annað við hv. þm. en það, sem er í alla staði sanngjarnt. Rvíkurbær, sem leggur fram mikið af þeim tekjum, sem í ríkissjóð renna, hefur ekki verið ofhaldinn af framlögum úr honum að undanförnu, og sýnist því ekki vera til of mikils mælzt með þessari tili. Vona ég, að þm. greiði fúslega fyrir þessu mikla velferðarmáli bæjarins.

Þá vil ég að lokum geta þess, að hér í bæ er margs konar félagsskapur, sem mun gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að þetta nái fram að ganga, ýmist með fjárframlögum eða annarri aðstoð. Geng ég þá frá þessu máli og vænti góðra undirtekta.

Næst er brtt. á þskj. 410, XXXV, sem ég er samflm. að. Hún er um það, að fjárveiting til Gagnfræðaskóla Reykvíkinga hækki úr kr. 5000.00 í 53000.00. Til vara kr. 25000.00 Er þá gert ráð fyrir, að skólinn verði sama styrks aðnjótandi og aðrir gagnfræðaskólar í landinu.

Þessi skóli er ekki stofnaður samkv. lögum, heldur hafa borgararnir sett hann á stofn og haldið uppi með fjárframlögum frá sér vegna brýnnar nauðsynjar á því að mennta börn sín, og hafa þeir fórnað miklu til að halda honum við. Árið 1942 voru veittar úr bæjarsjóði kr. 50000.00 til skólans, og hækkaði tillagið árið 1943 upp í kr. 80000.00, og er þá gert ráð fyrir, að vanti um 20000.00 kr., til að skólinn fái staðizt, þótt tekið sé tillit til þess, að foreldrar greiða há skólagjöld með börnum sínum. Þess vegna fannst okkur sanngjarnt, að ríkið legði fram sama tillag til þessa skóla og annarra gagnfræðaskóla.

Þetta er nokkuð mikil hækkun, og þess vegna fluttum við varatill., ef hv. þm. þætti hin of há. Þá er fengin sú upphæð með framlögum ríkis og bæjar, sem skólinn má allra lægst fá, ef hann á að geta starfað. En ekki er útlit fyrir, að börn hema hinna efnaðri foreldra geti orðið menntunar aðnjótandi, þótt það sé sjálfsögð skylda ríkisins að sjá um, að börn hinna verr stæðu fari eigi á mis við menntunina.

Þá er það brtt. XL á sama þskj. um, að styrkur til Bæjarbókasafns Reykjavíkur hækki úr 8000 kr. upp í 25000 kr. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir því í fjárl., að ríkið greiði 1/6 hluta kostnaðar við bókasafnið, og það getur vel staðizt, að í þá daga hafi 8000 kr. verið 1/6 hluti kostnaðarins, en nú sökum aukins verðlags má gera ráð fyrir, að þessi hluti verði ekki undir 25 þús. kr. Ég vona, að hv. þm. samþykki þessa brtt.

Þá eru tvær brtt., sem ég flyt einn, og er það í fyrsta lagi brtt. við 17. gr. fjárl. lið 35, að styrkur til Elliheimilisins Grundar hækki úr 5000 kr. upp í 10000 kr. Það vakti furðu við 2. umr. fjárl., þegar styrkur til allra elliheimila á landinu utan Rvíkur var hækkaður um helming, en ekkert hækkað til Elliheimilisins Grundar. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég hefði flutt þessa brtt., ef styrkur til annarra elliheimila hefði ekki verið hækkaður. En allir hljóta að sjá, að í því felst engin sanngirni að hækka styrk til allra elliheimila á landinu nema hér í Rvík. Þó er vitað mál, að Elliheimilið Grund er bezta elliheimili á landinu, og þar að auki hið eina heimili, sem tekur fólk af öllu landinu. Ég verð því að álíta, að þetta hafi verið af vangá hjá hv. fjvn., og mun þá brtt. mín frekar skoðast sem leiðrétting.

Loks er ein smávægileg brtt. frá mér á þskj. 410, við 15. gr. fjárl., 48. lið. Þar segir, að til útgáfu héraðssagnarita sé veitt eftir till. fræðslumálastjóra. Ég verð að segja það, að enda þótt fræðslumálaskrifstofan sé góð skrifstofa og fræðslumálastjóri ágætur maður, þá tel ég þó eigi, að hann eigi að vera yfirdómari í menningarmálum landsmanna. Ég legg því til í brtt. minni, að styrkjunum verði úthlutað af heimspekideild Háskólans, eða ef menn vildu heldur, menntamálaráði. Það hefur ef til vill ekki mikla þýðingu, hvort þessi brtt. verður samþ., en mér finnst, þótt í smáu sé, að Alþ. muni gera sig að viðundri með því að láta fræðslumálastjóra úthluta þessum styrk. Ég tel mig þá hafa gert grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt bæði einn og með öðrum hv. þm. og vona, að hv. þm. sjái, að þær eru allar reistar á sanngirni og mæla með sér sjálfar.