12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Áki Jakobsson:

Ég bjóst við, að till. mín og þriggja annarra hv. þm. um ríkisábyrgð á innanlandslán til nokkurra vatnsvirkjana væri komin fram. En þar sem afbrigði hafa enn ekki verið veitt, ætla ég ekki að ræða þá till. En það eru samt nokkrar till., er ég hef ástæðu til að ræða lítils háttar um.

Það er þá fyrst brtt. varðandi það nýja fyrirkomulag að veita þremur sjúkrahúsum á landinu sérstök hlunnindi fram yfir önnur sjúkrahús í kaupstöðum landsins. Það er hins vegar full ástæða til þess, að allir kaupstaðir verði aðnjótandi þessa styrks, enda er hann það lágur, að ekki er nein hætta á því, að hann baki ríkissjóði mikil útgjöld. Þessi bæjarfélög, sem til greina koma, eru Ísafjörður, Seyðisfjörður, Akureyri, Siglufjörður og Vestmannaeyjar, og till. okkar, hv. þm. Vestm. og mín, ganga út á það, að ekki séu undanskilin nein af þessum bæjarfélögum, sem auðvitað er alveg ástæðulaust.

Styrkirnir, sem veittir eru, eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru veittar 100 kr. á hvert rúm, sem í sjúkrahúsinu er, og í öðru lagi eru 30 þús. kr. áætlaðar til þriggja sjúkrahúsa, og hefur Siglufjörður þar ekki verið skilinn eftir. Er þetta fé veitt í hlutfalli við legudagafjölda utanbæjarmanna.

Ég álít það óhæfu, að slíkt misrétti skuli eiga sér stað milli kaupstaðanna, sem stendur eins á um, og get ég ekki séð önnur skynsamleg rök fyrir þessu en að það vill svo til, að hv. þm. Ísaf. og Ak. eru einmitt í fjvn. og þessir staðir því svo heppnir að eiga þar fulltrúa. En þeir hafa ekki verið það víðsýnir að sjá, að bæði Siglufjörður og Vestmannaeyjar eiga sömu kröfu til að vera jafnhátt settir, hvað viðkemur þessum styrkjum til sjúkrahúsanna, eins og þeir tveir kaupstaðir, sem ég nefndi. Ég get a.m.k. ekki séð önnur rök til þessa misréttis en þessi. En ég vil leggja þetta undir dóm hv. þm., til þess að þeim gefist kostur á að leiðrétta þetta ranglæti, sem framið er gagnvart þeim stöðum, sem útundan eru hafðir.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þá till. að hækka framlag til Siglufjarðarskarðsvegarins úr 250 þús. kr. í 300 þús. kr. Vegur þessi hefur verið á döfinni frá 1932, og er hann erfiður fjallvegur, og er það rétt, að hann er nokkuð dýr, en hann er ekki langur. En það, sem mest hefur að segja í þessu sambandi, er, að það bæjarfélag, er vegur þessi á að tengja í samband við vegakerfi landsins, er eitt af því þýðingarmesta fyrir allan landslýð. Vegna atvinnulífsins þar á sumrin streyma þúsundir manna og kvenna þangað. Það ríður því á miklu, að þessi bær geti verið í stöðugu sambandi við hina ýmsu landshluta, en það er ekki hægt, eins og á stendur. Reyndar er í það ýtrasta reynt að bæta úr þessu með bátsferðum frá og til staðarins, en það er bæði erfitt og hættulegt mjög, eins og oft hefur sýnt sig.

Einnig ber að taka tillit til þess, að Siglufjörður er mjög innilokaður bær. Þar sér ekki til sólar nema 10 mánuði ársins, og væri það þýðingarmikið að komast í samband við innsveitir vegna þessarar innilokunar.

Alls mun vera búið að veita til þessa vegar um 400 þús. kr., og talið er, að hann allur muni kosta 700–800 þús. kr. Ég álít, að það beri að leggja kapp á að ljúka við veginn sem fyrst, eftir að komið er svo langt á leið með hann og búið að leggja þetta fé í þann kaflann, sem lokið er. Því er það bezt, að hann verði sem fyrst bílfær.

Vegamálastjóri hefur lagt mikla áherzlu á að fullbyggja kafla og kafla, en hitt mun áreiðanlega reynast fullt svo hagkvæm leið að taka veginn í heild og gera hann bílfæran sem fyrst og þannig smátt og smátt gera hann eins góðan og hægt er. Þá kemur vegurinn miklu fyrr að gagni, og á það verður að leggja mikla áherzlu, úr því sem komið er. Því hef ég lagt til, að hækkað sé framlag til vegarins úr 400 þús. kr. í 450 þús. kr.

Þá hef ég lagt fram brtt. þess efnis, að framlagið til Siglufjarðarhafnar verði hækkað úr 75 þús. kr. í 100 þús. kr., og er ætlazt til, að því verði aðallega varið til endurbóta á innri höfninni. Eins og menn vita, fer meiri hluti síldarsöltunar á landinu fram á Siglufirði. T.d. voru 4/5 hlutar allrar saltsíldar 1938 saltaðir þar. Það er enginn vafi á því, að strax og stríðinu léttir og samgöngur við meginland Evrópu hefjast aftur, þá mun síldarsöltunin blómgast á ný og saltsíld verða ein helzta útflutningsvara okkar. Þá kemur til kasta Siglufjarðar að framkvæma þá söltun, sem á þarf að halda. En eins og sakir standa, þá er innri höfnin ekki geng nema smæstu bátum. Það þarf að grafa upp úr höfninni margar milljónir rúmmetra. Það þarf að gera fjögurra metra dýpi á allri innri höfninni. Enginn staður liggur eins vel við til að taka á móti síld og salta hana eins og Siglufjörður, en síldin þarf ekki að liggja nema fáar klukkustundir til að skemmast, og þarf því að koma henni sem skjótast í land. Hér getur enginn staður komið til greina nema Siglufjörður, svo að nokkru nemi. Það er því ekki ósanngjarnt að fara fram á 25 þús. kr. hækkun á framlagi til Siglufjarðarhafnar. Í raun og veru þyrfti meira framlag.

Árið 1939 ákvað Siglufjarðarkaupstaður að kaupa dýpkunarskip fyrir 100 þús. danskar krónur. Það var hægt að fá það með vægum kjörum, og þurfti ekki að greiða nema 50 þús. kr. á fyrsta ári. Danska ríkið átti skipið. En þetta strandaði á því, að gjaldeyrisleyfi fékkst ekki. Nú situr höfnin skiplaus, og því verða dýpkunarframkvæmdir dýrari en þær hefðu þurft að vera.

Ég flyt hér einnig aðra till. ásamt hv. 11. landsk., um hækkun framlags til Náttúrufræðifélags Íslands, úr 13 þús. kr. í 17 þús. kr. Ég álít þetta félag vera búið að sýna lofsverðan áhuga fyrir því að létta skömm af þjóðfélaginu með því að koma upp náttúrugripasafni. Þeir, sem að þessu hafa unnið, hafa sýnt mikla fórnfýsi í starfi sínu, unnið kauplitið eða kauplaust, og er ekki til of mikils ætlazt, þó að framlag til starfs þeirra sé hækkað frá því, sem það hefur verið, sem svarar dýrtíðaruppbót, svo að þeir sitji við sama borð og áður.

Þá hef ég enn lagt til, ásamt hv. þm. Vestm., að hækka um helming framlag til lestrarstofu sjómannaheimilis á Siglufirði. Lestrarstofan hefur enga uppbót fengið á þann styrk, sem hún hefur notið, en hann hefur eðlilega rýrnað að kaupmætti.

Ég er að vísu flm. að fleiri till. og meðflm. að öðrum, en ég sé ekki ástæðu til að tala um þær, því að það hafa meðflm. mínir þegar gert.