19.01.1943
Neðri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

116. mál, húsaleiga

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég tel efalítið, að frv. stj., sem hér liggur fyrir, horfi til bóta frá því, sem er í gildandi l. Hitt tel ég einnig mjög efalitið, að frv. þyrfti í meðferð Alþ. að taka ýmsum breyt. til bóta. Vil ég sérstaklega í því sambandi minnast á tvö meginatriði. Annað er það, sem felst í 5. gr. frv. um skömmtun á húsnæði. Það er mjög gott, að stj. hefur nú tekið til greina þær skoðanir, sem fram hafa komið um, að nauðsyn bæri til að grípa til skömmtunar á húsnæði undir vissum kringumstæðum. En ákvæði þessa frv. virðast hins vegar vera óljós og ófullnægjandi. Ég vil benda á það, að í þessu frv. er ekkert lágmark sett fyrir húseigendur, þ.e.a.s. í frv. er ekkert um það sagt, hvað nærri megi ganga húseigendum. Það er auðvitað sjálfsagt, að hverjum manni sé tryggt visst lágmark húsnæðis til afnota, í þeim I. sem um þetta fjalla, og enda þótt svo væri segja l. ekkert til um það, undir hvaða kringumstæðum húsaleigun. geti gripið til þessara umráða, og virðist þetta því algerlega á hennar valdi. Það er varla hægt að komast hjá því að álíta, að þarna sé n. ætlað óþarflega óskorað vald.

Þá vil ég benda á, að um skipun húsaleigun. er farið inn á nýjan grundvöll hvað Rvík snertir, og er sú breyt. til bóta, en úti um land er ætlazt til, að fasteignamatsn. sinni störfum húsaleigun. Það hefur verið bent á það hér á þessu þingi, að þar sem þessar n. eru ekki til þessa skipaðar, eru þær undir mörgum kringumstæðum ekki til þess fallnar að sinna þessum störfum. Það virðist því eðlilegt, að horfið sé að því að skipa þessar n. annars staðar á sama hátt og gert er ráð fyrir hér í Rvík samkvæmt þessu frv. Ég vænti þess, að þetta frv. fari til allshn. Hjá henni liggja ýmis frv. varðandi húsnæðismál. Þar liggur frv. varðandi skömmtun húsnæðis og stóríbúðaskatt, þar liggur frv. varðandi breyt. á skipun húsaleigun. og þar liggur loks frv. varðandi ráðstöfun byggingarefnis í landinu.

Ég vil að lokum láta þá ósk í ljós, að allshn. taki þessi frv. til athugunar og reyni að koma aðalefni þeirra fyrir í einn lagabálk, þar sem sérstök áherzla verði lögð á það, að húsnæði það, sem til er í landinu, verði notað á skynsamlegan og heilbrigðan hátt og allt byggingarefni, sem til landsins flyzt, verði notað til þarfa almennings. Ég held, að rétt sé að sameina þetta, og vil skora á allshn. að láta það ekki dragast úr hömlu að koma með einhverjar till., sem geti verið til bóta hvað húsnæðismál snertir, en þar er veruleg þörf úrbóta.