29.03.1943
Efri deild: 83. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

116. mál, húsaleiga

Jónas Jónsson:

Þegar þetta mál var hér siðast til umr., flutti ég brtt. og talaði fyrir henni um, að alþm., starfsmenn landsins og skólapiltar séu undanþegnir ákvæðum 1. mgr. 3. gr.

Nú hef ég flutt aðra till., sem ég vildi mæla fyrir, á þskj. 617. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 18. gr. komi ný gr., er verði 19. gr., svo hljóðandi:

Ákvæði 2. mgr. 5. gr. falla úr gildi 14. maí 1944, og er fyrri afnotahafa húsnæðis, sem ráðstafað hefur verið samkv. ákvæðum þeirrar mgr., heimilt að segja slíku húsnæði upp til rýmingar frá þeim tíma með löglegum fyrirvara.“

Þessi till. er miðuð við, að allshn. hefur tekið upp aftur till. sem ekki voru greidd atkv. um við 2. umr., um að þrýsta inn í íbúðir manna fólki gegn mótmælum húsráðenda. Ef þetta verður samþ., vænti ég, að það þyki svo viðurhlutamikil breyt., að sjálfsagt þyki að samþ. mína till. um, að þetta geti ekki staðið nema í eitt ár.

Þó að ég flytji þessa till., felst ekki í því nein linun frá minni hendi gagnvart till. á þskj. 587, heldur er það svo, að þegar fjölmenn n. í fámennri þd. leggur þetta til, má búast við, að brtt. fái meira fylgi en málstaður er til. Ef á að samþ. hana, vil ég heldur, að hún verði samþ. með minni brtt.

Ég vil benda á, að ég hygg, að alþm., sem standa að þessu máli, sé ekki ljóst, um hve stórkostlega breyt. er að ræða. Við erum vanir því, Íslendingar, að líta á heimilin sem friðheilög, og ég vil skjóta því til borgarstjórans, sem hér á sæti í d., hvernig hann sem lögfræðingur álítur, að hægt sé að samrýma till. á þskj. 587 við ákvæði stjskr. um friðhelgi heimilisins. Síðan við ræddum þetta mál síðast, hef ég rekið mig á frásögn í ensku tímariti, sem sýnir betur en við höfum gert okkur ljóst, hvernig hugmyndirnar er u um þetta í landi, sem lengi hefur notið frelsis. Rússnesk stúlka skrifar um atvik, sem kom fyrir í London eftir fyrra stríð. Faðir hennar og hún höfðu flúið til Englands undan byltingunni í Rússlandi og leigt sér hús í London. Þau komu heim eitt kvöld eftir háttatíma og sáu, að lögregluþjónn stóð við dyrnar. Þeim leizt ekki á blikuna, voru illu vön hvað réttaröryggi snerti frá keisarastj. í Rússlandi og hinni nýju stjórn ekki síður. En lögregluþjónninn sagði við þau: „Ég sá, að húsið var opið, og hélt, að inn í það kynnu að fara óboðnir gestir, og vildi hafa gætur á því.“ Feðginin spurðu hann, hvort hann hefði ekki farið inn í húsið til að sannfærast um, hvort þar væri allt með felldu. Nei, hann kvað það ekki leyfilegt fyrir lögregluþjón að fara inn á heimili manna, nema með þar til heyrandi skilríkjum og úrskurði. Hitt hafi hann talið sjálfsagt, að standa á verði. Þessi rússneska stúlka minnist á hinn mikla mun, réttleysið heima í Rússlandi og friðhelgi heimilanna í Englandi. Þessi rithöfundur ítrekar orð einhvers mesta stjórnmálamanns í Englandi, Pitt eldri, sem hann hafði viðhaft í þingræðu fyrir 150 árum. Konungur Englands getur ekki farið í leyfisleysi inn á heimili síns fátækasta þegns. Regnið getur farið gegnum þakið, vindurinn hvinið gegnum veggina, en hinn voldugi konungur heimsveldisins fær ekki að fara þar inn. Mér fannst það eiga vel við að rifja þetta hér upp, að sú menningarþjóð Evrópu, sem lengst hefur búið við frelsi og skapað frelsi, litur svona á þessa hluti. Nú á að brjóta niður þessar hömlur hjá okkur, án þess að menn skoði það sem annað en hreinan leik.

Ég er þakklátur hæstv. félmrh. fyrir part af hans ræðu. Hann taldi bót að minni till. um, að þm. kæmu ekki hingað eins og bónbjargamenn, heldur sem frjálsir menn, sem ættu að gegna frjálsu starfi. Mér finnst eðlilegt, að meðmæli ráðh. verði tekin til greina og ómyndin á meðferð málsins í Nd. numin burt. En ég var ekki eins hrifinn af öðrum hlutum í ræðu ráðh. Hugsunarhátturinn sem gegnsýrði ræðu hans var, að þessi breyt., sem hefur í för með sér, að friðhelgi heimilanna verður rofin, væri nauðsynleg, því að við græddum svo mikið á því. Hæstv. ráðh. vitnaði í skýrslur og gögn og hélt því fram, að meginið af innstæðunum erlendis hefðu komið fyrir þjónustu, sem landsmenn hefðu látið í té setuliðinu. Þetta er ekki rétt að því leyti, að það er margt annað en vinna, sem setuliðið hefur fengið hér. Það hefur t.d., keypt hér mikið af matvælum. En hugsanagangur ráðh. er þessi: Við eigum mikið fé erlendis, og þess vegna er það réttlætanlegt, þó að fólkinu sé sópað úr smákaupstöðunum og sveitunum til Rvíkur. Það verður því að koma því fyrir og rjúfa friðhelgi heimilanna. Ég veit, að ráðh., sem er ágætur læknir og hefur mikinn áhuga á félagslegum málum, sér, að þessi röksemd er hæpin, því að það, sem hefur gerzt nú, er, að það er búið að útsjúga framleiðslu landsins og lama hana til lands og sjávar. T.d., hafa í Keflavík verið 30 bátar, en eru nú 11. Samhliða þessu er ríkið að leggja þar í stórvirki til að bæta hafnarskilyrðin, en þetta sjúka aðstreymi til Rvíkur og í setuliðsvinnuna hefur minnkað framleiðsluna um helming. Ég vil snúa mér um eitt til hæstv. félmrh. Einhvern tíma, kannske eftir nokkur misseri eða nokkur ár, hættir stríðið. Við vitum allir, að þá skellur á hér í bæ ógurlegasta atvinnuleysi, sem þekkzt hefur. Setuliðið fer burt, og þúsundir manna, sem hafi lifað hér og skapað sér innstæður, hafa ekkert að gera. Þá er búið að draga úr framleiðslunni annars staðar á landinu. Í blómlegustu byggðum landsins sækir sauðfjársýkin á og veldur stórkostlegri lömun, og ef ekki tekst í þessum héruðum að snúa sér að nýjum atvinnugreinum, liggur við landauðn. Rvík er miðstöðin í þessum mikla innstæðugróða, en hún hefur nú fengið leyfi til að heimta sín útsvör fyrirfram. Það er dæmi um það, hvað Rvík á bágt og hvílíkt ólán það er fyrir Rvík að fá þetta aðstreymi hingað. Hvernig verður, þegar þúsundir manna eru orðnir atvinnulausir, en vilja ekki fara í burt? Þá koma fram menn, sem vilja ekki vera svo miskunnarlausir að reka þá út á landsbyggðina aftur. Rvík er á engan hátt undir það búin að skapa neina framtíðaratvinnu handa þessum þúsundum. Ég held því, að þótt innstæðumilljónirnar séu einhvers virði, hafi hæstv. félmrh. reiknað skakkt.

Úr því að ráðh. talaði með nokkurri ánægju um þessar innstæður, vil ég benda honum á, að mörgum þykir sem ríkisstj. hafi ekki munað nógu vel eftir milljónunum, þegar hún var að gera sín dýrtíðarl. úr garði. Það eru margir óánægðir með, hvað lítil vinna hefur verið lögð í það af ríkisstj. að leggja net utan um þessar innstæður. Ef á að verða nokkurt sósíalt gagn af þeim, verður að taka mikið af þeim til almenningsþarfa. Ríkið hefði átt að tryggja sér verulegan hluta af þeim. Ef litið er á milljónirnar eins og blessun í eigu þessara óþekktu manna, en engar ráðstafanir verða gerðar til að tryggja sér verulegan hluta af þeim til almenningsþarfa, þá er það mjög skakkt viðhorf, eða ríkisstj. hlýtur að gera ráð fyrir, að einhver óvænt hamingja komi fyrir tilverknað þeirra manna, sem eiga milljónirnar. Það hefur ekki bólað á slíku, heldur þvert á móti. Í stórblöðunum er okkur lagt til lasts, að við söfnum innstæðum, meðan aðrar þjóðir blæða. Ég gæti trúað, að þegar stríðið er búið, þættu þessar milljónir dýru verði keyptar og ekki bara til ánægju.

Ég bjóst við, að hv. þm. Str. yrði hér, því að hann er einn af þeim fáu dreifbýlisþm., sem hafa greitt atkv. með 5. gr. eins og hún var, og er með í allshn. um að flytja till. á þskj. 587.

Til þess að vera með þessu ákvæði og vera þó um leið, eins og hv. þm. Str., þm. fyrir strjálbyggðar sveitir, þarf maður að vera ánægður með, að fólkið streymi úr sveitunum hingað til Rvíkur til að vinna fyrir setuliðið, og gera þá um leið ráð fyrir, að sumir a.m.k., sem yfirgefið hafa þannig framleiðslustörfin, snúi ekki aftur heim í sveitirnar.

Þessi hv. þm. hefur sýnt mikinn áhuga fyrir því að fá rafmagn út um dreifbýlið. En ég sé ekki ástæðu til þess að við, sem erum þm. fyrir dreifbýlið, séum að hugsa meira um það, ef þetta er sá hugsunarháttur, sem á að ráða, og ef ætlazt er til þess, að þetta fólk komi hingað og setjist að við rafmagnið hér í Rvík. Þá kemur líka að því, sem kommúnistar hafa lengi haldið fram að ætti að gera — leggja bara sveitirnar í eyði.

Ég hefði viljað skjóta þeirri spurningu til hv. þm. Str., ef hann hefði verið nærri, ég beini henni þá til þeirra hv. dm., sem eru sömu skoðunar og hann, og þekkja ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, hvernig þessi löggjöf, sem hæstv. félmrh. er að mæla með, mundi reynast í framkvæmdinni, ef skipta ætti þessu stóra húsi í margar íbúðir. Húsið mun Hannes Hafstein hafa byggt sem einbýlishús. Eftir því sem fram kom í ræðu hæstv. félmrh., ætti að mega setja í þetta hús fjórar fjölskyldur, og þetta ætti að vera þeim mun auðveldara, sem húsið er nú ekki og hefi!r ekki nú um nokkur ár verið notað til risnu. Þetta er vissulega eitt af þeim húsum, sem deila mætti um.

Fyrst hv. þm. Str, er ekki við, þá vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh., hvort hann telji tiltækilegt að skipta þessu húsi í íbúðir handa húsnæðislausu fólki. Ég slæ því föstu, að húsið er nógu stórt. En ég held því fram, að ekki sé hægt að skipta því á þennan hátt. Það er alveg ómögulegt, og það, sem á við um þetta hús, á við um önnur. Því segi ég það, að þetta ákvæði er tóm vitleysa, fyrir utan það, að það er andstyggð. Það er byggt á fullkomnu skilningsleysi á félagslegri menningu okkar og venjum. Þeir, sem vilja setja ákvæði 5. gr. í l., hafa ekki hugmynd um, hvað þeir eru að gera. Þeir hafa ekki hugmynd um, að þeir eru að brjóta niður aldagamlar venjur. Þeir eru að láta undan þungum straumi óákveðinna lífsskoðana. Þeir leggja meira upp úr innstæðum erlendis og vinnu í þágu setuliðsins en rótgróinni friðhelgi heimilanna. Og mér finnst, að þessi till. mín, sem á að koma í veg fyrir, að þessi andstyggð geti staðið meira en eitt ár, ætti að vera samþ., líka af þeim, sem vilja vinna þetta skemmdarverk.