10.04.1943
Efri deild: 95. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Ingvar Pálmason:

Það hefur komið fram í umr., að þeir aðilar, sem standa að samningu og samþykkt reglug., sem prentuð er með frv., eru togaraeigendur, eða Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, og sjómenn í Rvík, Hafnarfirði og á Patreksfirði. Allir vita, að við Faxaflóa eru ekki afgreidd nein skip til útflutnings, nema þau, sem fiska sjálf. Það er ekki heimilt skv. samningi við stj. Stóra- Bretlands, að íslenzk skip kaupi fisk við Faxaflóa, og svo er víðar á landinu, en rétt er að taka fram, að um allt svæðið frá Húnaflóa austur um til Vestmannaeyja er heimilt að kaupa fisk. Vertið við Faxaflóa er nú senn lokið, en fer að hefjast á Austurlandi og Norðurlandi, svo að þessi ákvæði hljóta að snerta þetta svæði mest, og þau skip, sem þar kaupa. Hafnirnar, sem um er að ræða, eru Siglufjörður, Akureyri, Seyðisfjörður, Hornafjörður á vetrarvertíð og Vestmannaeyjar. Það hlýtur að vera hv. dm. ljóst, að þessar ráðstafanir snerta aðallega þau útflutningsskip, sem kaupa á þessum höfnum. Þess vegna er ekki alls kostar rétt að byggja á því, að réttir aðilar standi að reglug., þegar þess er gætt, að það er aðeins félag botnvörpuskipaeigenda og sjómenn í Rvík, Hafnarfirði og á Patreksfirði, sem standa að samningu hennar. Línuveiðaraeigendur hér í Rvík, sem eiga nokkur skip, sem hafa verið í ísfisksiglingum, hafa, eða a.m.k. einn þeirra, lýst yfir því, að hann hafi neitað að vera með, af því að hann hafi ekkert umboð nema fyrir sjálfan sig. Þetta skilja allir, því að ekkert félag er til með þessum fiskiskipaeigendum. Það er að vísu til félag, sem heitir Landssamband útvegsmanna, og það vill svo einkennilega til, að ég hygg, að formaður þess er líka formaður félags botnvörpuskipaeienda og hefur sennilega undirskrifað fyrir hönd botnvörpuskipaeigenda, og þetta hefur getað villt ráðh. sýn. En landssambandið hefur ekki gefið formanni sínum neitt umboð til að standa að slíkum samningum. Þegar málið er svo vaxið, er ekki við hlítandi, að það sé n. manna í Rvík, sem hefur með höndum að ákveða, hvaða skip skuli sigla saman frá útflutningshöfnum úti um land, og hefur ekki annað við að styðjast en að vita, hvaða stærð og ganghraða skipin hafa, og þó ekki um ganghraðann, heldur bara vélina. Það er svo ástatt á Austurlandi, að þegar vertíð byrjar þar almennt, er lítið útlit fyrir, að nokkurt skip fáist til að sigla, vegna þess hámarksverðs, sem sett hefur verið á ísfisk í Bretlandi. En allar líkur eru til, að samningar náist um 4 skip frá Norðfirði, gegn því, að viss fiskipláss á Austurlandi geri við þau samninga um, að þau hafi alltaf forgangsrétt að fiski. Ég veit, að það er nú áhugamál eystra, að siglingar geti haldið áfram. Hins vegar er ég hræddur um, að þær hindranir, sem við bætast, verði til þess, að skip sigli ekki. Ég get ekki gizkað á, hve mikið óhapp það yrði fyrir landið í heild, en ég veit, að það er mikið. Á Austurlandi hefur verið lítið um salt. Það er eitt, sem erfitt er að bæta úr. Útgerðin er komin í það horf, að hún er öll miðuð við útflutning. Ég hugsa, að einhver segi: Það má þá salta farminn, þegar salan hættir. En ég hygg, eins og verðið er nú, mundi skerðast hlutur sjómanna við það. Ég hygg því, að það sé skylda hæstv. Alþ. að ganga þannig frá þessum málum, að ekki verði til stórtjóns fyrir almenning. Ég legg alla áherzluna á, að þannig verði frá gengið, að ekki þurfi að sækja undir aðila í Rvík, ef undanþágu þarf að fá, því að það er nú svo, að aðeins verður um 4 skip að ræða frá Austurlandi, og við sjáum, hvað það þýðir, ef þau eiga að sigla 2 og 2 í samfloti. Nú veit maður, að það þarf 3–4 daga til að fylla skip, og það þarf að vera mögulegt að flytja fiskinn út strax, annars rýrnar hann. Þegar á að fara að framkvæma þetta, þá ber þess að gæta, að þegar farið er að hlaða eitt, þá þarf að tryggja, að verið sé að hlaða annað, svo að þau verði samferða.

Austfjörðum hagar svo til, að með ströndunum er ekki hægt að róa nema 6–8 daga með hverjum straum. Setjum nú svo, að skip byrji að hlaða á Fáskrúðsfirði í smástreymi. Svo byrjar systurskip að hlaða, og þá er komið stórstreymi. Hvað á þá að gera? Þetta er aðeins dæmi. Það geta verið óendanlega mörg fyrirbrigði, sem koma til greina, sem aðeins kunnugir menn vita um. Og það getur verið erfitt að sannfæra menn hér í Rvík um þörf á undanþágu. Ég hygg, að líka á Norðurlandi geti komið fram svípuð tilfelli.

Nú höfum við, meiri hl., í brtt. okkar viljað tryggja þetta, svo að það verði ekki misnotað. Það hyggjum við, að sé bezt tryggt með því, að ekki sé veitt undanþága fyrir eitt skip, nema skipshöfnin sé því samþykk.

Ég held ég hafi þá nokkurn veginn skýrt fyrir hv. d. og hæstv. ríkisstj., hvað vakir fyrir mér. Það má e.t.v. deila um ýmis atriði í brtt., en ég held, að þær þurfi ekki að koma í bág við framkvæmd l., þó að þær verði samþykktar.

Viðvíkjandi brtt. hv. 9. landsk. vil ég segja, að eins og hún er orðuð, finnst okkur hún gefa fyllilegt öryggi. Ég hygg, að það verði að setja tryggingu fyrir því, að í reglugerðinni, sem verður sett um undanþágur, séu ákvæði, sem tryggi, að undanþágubeiðnir séu afgreiddar tafarlaust, og virðist sem hv. 9. landsk. hafi skilið það að nokkru leyti. Ég hefði óskað eftir því, ef brtt. okkar verður felld, þá verði brtt. hv. 9. landsk. samþ., að á eftir orðunum „án tafar“ komi „á hverri útflutningshöfn“. Mér skilst, að þá séu tekin af öll tvímæli um, að ráðh. verður að sjá um, að fiskurinn verði útflutningsvara.

Hitt skal ég láta óumdeilt, í hvers höndum ákvörðunarvaldið á að vera. Því hefur verið haldið fram, að oddvitar séu ekki færir um það. Ég hygg, a ð bezt færi á því, að ríkisstj. skipaði sinn manninn frá hvorum aðila, útgerðarmönnum og sjómönnum á hvorum stað. Þá verður að vera oddamaður, og hvort hæstv. ráðh. vill hallast að því að taka lögreglustjóra á hverjum stað, geri ég ekki að kappsmáli, en hitt verður að hafa hugfast, að hann verður að vera hlutlaus. Ég hygg, að það sé alls staðar völ á mönnum, sem treysta má. Þó vil ég benda á, að í brtt. okkar er lögð skylda á þessa menn, að l. sé beitt. Þetta álít ég, að ætti að vera þeim hvatning til að gæta varúðar um veitingar á undanþágum frá hinum almennu reglum.

Nú vil ég að endingu taka það fram, að það er ekki mín meining að leggja stein í götu sjómanna. Ég er sjálfur gamall sjómaður, en það verð ég að segja, að ég hefði ekki viljað sækja sjóinn eftir settum l. Hættur eru æfinlega á öllum stöðum. Ég held, að bezta öryggið sé í manni sjálfum. Þetta segi ég ekki til að mæla á móti því, rað ráðstafanir séu gerðar til öryggis sjómönnunum. Allir vilja gera sitt til að fyrirbyggja slys. En áreiðanlega verður það þetta, sem verður að treysta á, þeir hæfileikar, sem sjómaðurinn hefur sjálfur til að ráða sem bezt fram úr hverjum vanda, sem að höndum ber. Ég tek aftur fram, að falli till. okkar meiri hl. n., þá áskil ég mér rétt til að flytja skriflega brtt. við brtt. hv. 9. landsk.