24.02.1943
Neðri deild: 65. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti, — Eins og tekið hefur verið fram, einkum af hæstv. forsrh., er frv. það til l. um dýrtíðarráðstafanir, er ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þessa hv. d., tilraun af hennar hálfu til að efna það heit, er hún gaf þegar í upphafi, að hún vildi reyna að vinna bug á þeirri dýrtíð og verðbólgu, er sýndist vera á góðum vegi með að stöðva aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, og gera gjaldmiðilinn verðlausan, ef haldið hefði verið áfram á sömu braut.

Öllum var og er ljóst, að svo mátti eigi fara.

Bölvun atvinnuleysisins blasti fram undan, og þeir, sem með ráðdeild höfðu lagt fé til hlíðar til öryggis sér og sínum, horfðu fram á það, að fljótt mundi spariféð ganga til þurrðar, ef atvinna stöðvaðist, en vöruverð væri óbærilega hátt.

Öllum ber saman um, að það hafi verið þjóðarböl að gefa dýrtíð og verðbólgu jafnlausan tauminn og raun ber vitni. Að nokkru leyti var það á valdi okkar að halda dýrtíðinni í skefjum, en að öðru leyti ekki. Erlendar nauðsynjar og farmgjöld hækkuðu vegna stríðsins, innlend framleiðsla og kaupgjald hlaut að hækka vegna hækkunar erlendra nauðsynja, fyrst þess var ekki gætt að halda niðri verði þeirra með framlagi af opinberu fé. En loks jókst eftirspurnin eftir vinnuafli mjög eftir komu setuliðsins og átti sinn þátt í vexti dýrtíðarinnar. Þetta eru allt alkunn atriði og margrædd.

Verðbólgan hefur haft mjög ólík áhrif á stundarhag ýmissa þegna þjóðfélagsins. Hún hefur eflt stundarhag þeirra, er fást við verzlun, viðskipti og atvinnurekstur; einnig þeirra, er fást við framleiðslu landbúnaðarafurða og sumra launastétta, einkum í iðnaðinum, og þeirra, er skulda öðrum peninga. Aðrir hafa stórtapað á verðbólgunni. Ber þar fyrst og fremst að nefna sparifjáreigendur og alla, sem eiga peningakröfur á hendur öðrum og fá þær greiddar með verðminni peningum, og snertir þetta flesta launþega. Útflytjendur græða hins vegar minna og minna vegna verðbólgunnar og fara loks að tapa, sé gengið óbreytt, þar sem tilkostnaður eykst jafnt og þétt, án þess að verðið hækki á útflutningsvörunum.

Þótt svo hafi verið til þessa, að ýmsir hafa grætt, en aðrir tapað á verðbólgunni, er nú flestum ljóst, að allir tapa að síðustu, nema að sé gert, því að gengishrun yrði annars afleiðingin.

Hitt er annað mál, að menn greinir á um. hvernig ráða beri fram úr vandanum, og hafa umr. hér í hv. d. leitt það í ljós. Í raun og veru er ekkert eðlilegra en þetta, því að hvern tekur jafnan sárt til sinna.

Till. stjórnarinnar byggist á þeirri meginhugsun, að allir verði eitthvað á sig að leggja til þess að rétta við þjóðarhag, sem annars væri í voða. Stjórnin hefur því lagt til, að allir tækju á sig byrðar, en hitt er á valdi fulltrúa þjóðarinnar — Alþingis — að meta og vega, hversu tekizt hafi um úthlutun þeirra byrða.

Stjórnin mun leitast við að skýra málið eins vel og henni er unnt, bæði við umr. og í væntanlegu samstarfi við n. þær, er um málið kunna að fjalla. Henni er fullljóst, að þetta dýrtíðarmál er flókið, erfitt og viðkvæmt, hvernig sem á það er litið, hvort heldur er frá sjónarmiði einstaklinga eða þingflokka. En þetta er mál allrar þjóðarinnar. Við erum allir í einum báti, Íslendingar. Enginn má færast undan að setjast undir árar og leggja lið sitt til, að höfn verði náð úr ölduróti óvissu og öryggisleysis. Stjórnin hefur ekki samið till. sínar til þess að ala á ófriði í þjóðfélaginu. Hún óskar eftir friði og samhug með þjóðinni. Henni er fullljóst, að tilgangslaust er að fá samþ. l., sem vitað er um fyrirfram, að ekki verði haldin. Slíkt leiðir aðeins til spillingar þjóðinni og ógæfu fyrir heildina. En hún treystir á heilbrigða skynsemi manna, ef þeir fá næði til að hugsa hlutlægt um málin og láta tilfinningar ekki ráða, þótt höggvið sé nærri þeim. Flestar þjóðir heims eru nú í hlekkjum með einhverjum hætti. Sumir þeirra eru úr járni, svíðandi sárir. Þeir hlekkir, sem leggja þarf á þegna okkar lands, eru úr rósum í slíkum samanburði. En hlekkir eru alltaf hlekkir, hvort sem þeir eru úr járni eða rósum.

Eins og tekið hefur verið fram, eru meginatriði frv. þau, að nýir skattar skuli lagðir á þá skattþegna, er hafa haft sæmilega ríflegar tekjur eða gróða síðast liðin ár, en þeir, sem hafa haft lágar árstekjur, skuli sleppa við skattinn. Hins vegar hlíti þeir og allir launþegar 20% skerðingu á allri dýrtíðaruppbót á laun sín og bændur hliðstætt.

6000 kr. eru lægstu skattskyldar tekjur, sem viðreisnarskattur yrði lagður á. Er vert að benda á, að þar er um að ræða niðurfærðar tekjur um meðalvísitölu ársins, sem leið, en hún var 206. Sem dæmi má nefna, að einhleypur maður hefði orðið að hafa rúmlega 14200 kr. tekjur, til þess að viðra eingarskattur sé á hann lagður, en maður með konu og 2 börn á framfæri, hefur þurft að hafa um 8950 kr. tekjur, til þess að viðreisnarskattur lenti á honum, eða 63 kr. á dag að meðaltali í 300 vinnudaga, og er þá augljóst, að þessi skattur snertir ekki fjölskyldumenn við algeng störf. Lægsta skattgreiðsla í viðreisnarskatt er kr. 267.80, eða kr. 130.00 margfaldaðar með meðalvísitölu ársins 1942, sem var 206.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um skattinn að sinni, en rétt er þó að benda á, vegna ummæla háttv. 2. þm. S.-M. (EystJ) í þá átt, að skatturinn kynni að vera of þungur á teknabilinu milli 20 þús. kr. til 100 þús. kr., einkum með tilliti til smáútgerðar, að enginn umreikningur á sér stað varðandi fyrirtæki eða félög og þá heldur ekki hækkun á skattinum um vísitölu, og yrði því skattsfjárhæðin nákvæmlega sú, sem stendur í frv., þegar um slíka skattþegna er að ræða.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um landbúnaðarafurðir og lækkun á kaupinu. Lækkun landbúnaðarafurðanna á kostnað framleiðenda er hugsuð þannig, að hún verði í svipuðu hlutfalli á hverjum tíma og sú launaskerðing, sem launþegar bæru. Aðra leið treysti stjórnin sér ekki til að fara. Um það er deilt, hvort rétt hlutfall sé milli verðs landbúnaðarafurða og kaupgjalds í landinu. Það er rétt, að verð landbúnaðarafurða hefur hækkað meira en t.d. Dagsbrúnarkaup. Sé athuguð verðvísitala landbúnaðarafurða, að meðtöldum eggjum og garðávöxtum, og verðið vísitölumagninu í jan. 1939 sett sem 100, kemur í ljós, að vísitala þeirra var 453, þegar framfærsluvísitalan var 272, þ. 1. des. 1912. Vísitala dagkaups Dagsbrúnarverkamanns með 10 tíma vinnu (þar af 2 tímar eftirvinna) var í des. 414 miðað við að dagkaup 1939 sé sett sem 100, en dagkaupsvísitalan varð 433 í jan. fyrir 10 tíma vinnu á sama hátt. Miðað við 8 stunda vinnudag var dagkaupsvísitalan 376 í desember, en 394 í janúar.

Stjórnin hefur til glöggvunar látið gera línurit, er sýnir greinilega verðbreytingar þess magns landbúnaðarafurða, er reiknað er með í vísitölunni, breyt. á dagkaupi eftir Dagsbrúnartaxta, hreyfingu vísitölunnar sjálfrar og loks vísitölu alls annars, sem reiknað er með í vísitölunni, þ.e. erlendra vara, fatnaðar, húsnæðis, fiskmetis o.s.frv. Þann 1. des. s.l. var vísitala þessara vara og gæða 214. Skal þessu línuriti ekki frekar lýst, enda varla hægt að gera það, nema allir hafi það fyrir sér, um leið og það er gert. En það mun verða fjölritað, til þess að hv. þm. geti kynnt sér það.

Í till. stjórnarinnar er lagt til, að skipuð verði n., er finni framfærsluvísitölu við landbúnað og verðlagsvísitölu fyrir landbúnaðarafurðir. Með því er ,ætlunin, að úr því fáist skorið, hvort sama framfærsluvísitala eigi við fyrir þá, er í sveit búa og í kaupstöðum, og í öðru lagi sé fundinn réttlátur grundvöllur fyrir verði á landbúnaðarafurðum.

Því var hreyft af hv. 2. þm. S.-M. (EystJ), að hæpið væri að greiða fé úr ríkissjóði til að lækka verð á landbúnaðarvörum. Mér skildist, að hv. þm. væri þeirrar skoðunar, að ef hætt væri við það aftur, hlytist af því annaðhvort byrði fyrir bændur eða hækkun á landbúnaðarvörunum. Það er þó augljóst mál, að fjárgreiðsla úr ríkissjóði í eitt skipti fyrir öll til að lækka verð þessara vara, eins og lagt er til í frv., hefur í för með sér mikla lækkun á vísitölunni. Mjólkurframleiðslan er mjög nam fyrir vísitölubreytingum, sökum þess, hve mikill liður kaupgjaldið er í mjólkurverðinu, og þá vítanlega jafnt, hvort sem kaupið hækkar eða lækkar. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að eigi þurfi að greiða með mjólk og mjólkurafurðum nema skamma stund. Lækkun vísitölunnar og þar með kaupgjaldsins muni nægja til þess, að mjólkurframleiðslan standi undir sér sjálf án styrks úr ríkissjóði.

Um greiðslu með kjötinu er það að segja, að lækkun á verði þess ætti að greiða fyrir sölu þess á innlendum markaði fyrir miklu hærra verð þó en fæst fyrir það erlendis. Sé hins vegar flutt út kjöt, ber að verðbæta það úr ríkissjóði, samkvæmt þál. frá 31. ágúst. Virðist því auðsætt, að það sé fyllilega réttmætt að lækka verð kjötsins, sem eftir er frá fyrra ári, með framlagi úr ríkissjóði, og stuðla með því að aukinni neyzlu innan lands, og ná vísitölunni niður, áður en heyannir byrja í sumar, svo að verð á landbúnaðarafurðum geti orðið sem lægst, mjólkurverðið mjög fljótlega, en kjötið, þegar næsta framleiðsla kemur á markaðinn.

Ef gert er ráð fyrir, að vísitalan komist niður í 230 vegna dýrtíðarráðstafana og samkomula g næst um, að greidd skuli aðeins 80% af fullri dýrtíðaruppbót, færi um kaupgreiðslu atvinnuveganna, bæði í sveit og við sjó, eins og vísitalan væri komin niður í 204 stig. Dagkaup fyrir 8 tíma vinnu yrði þá með Dagsbrúnartaxta kr. 34.27 í staðinn fyrir kr. 45.70 með vísitölu 272. Hjá því getur ekki farið, að slík lækkun á dýrtíðinni muni hafa mikil áhrif á framleiðslukostnað landbúnaðarins og gera kleift að selja vörurnar við hóflegra verði en nú er án nokkurs framlags úr ríkissjóði, enda er það þetta, sem vakir fyrir stjórninni. hafi það ekki verið ljóst áður.

Ég skal svo að lokum fara nokkrum orðum um skerðingu dýrtíðaruppbótar til launþega. Ég skil það vel, að þetta er víðkvæmt mál fyrir alla launþega og forvigismenn þeirra. En ég held, að fullyrða megi, að sú byrði, sem þannig væri lögð á launþega, sé ekki þyngri en svo, að hægt sé að bera hana. Það er hagur launþega að stuðla að því, að ekki komi til þess, að atvinnuleysi og hrun læsi hrömmum um þjóðfélagið. Það er hagur launþeganna, að atvinnuvegirnir geti haldið áfram að skila gróða, sem ríkið geti tekið í sína vörzlu með sköttum, en síðan verið til hagsbóta fyrir alþjóð til framkvæmda, er gætu gert lífið í landinu betra. Sé haldið áfram á sömu braut og hingað til, verður bráðlega enginn gróði, sem hægt er að taka, og þá er ekki einu sinni handbært fé til að standa undir daglegum rekstrarútgjöldum ríkis og bæjarfélaga, hvað þá meira. Hvar yrði þá framkvæmdasjóður ríkisins, og hve mikið væri hægt að fá af framförum, sem allir þrá? Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvers vegna ætti að lækka dýrtíðina og fyrir hverja. Hann taldi alveg sjálfsagt að stöðva hana, en virtist í efa um, hvort nauðsynlegt væri að lækka hana til muna. Það er staðreynd, að smábátar hafa tapað og hraðfrystihúsin stöðvuðust s.l. haust. Nú sem stendur stunda bátarnir sjóinn, og hraðfrystihúsin eru í gangi. En þess er að gæta, að nú stendur vertíð sem hæst, og hvað tekur við, þegar fiskaflinn minnkar? Hvað tekur við, ef stríðið hættir skjótlega, t.d.. í haust, og verðið á útflutningsvörum okkar fellur? Við getum ekki treyst því, að I3retar felli pundið eftir stríð.

Það er ekki vegna einkahagsmuna útgerðarmanna, sem lagt er til, að dýrtiðin lækki, heldur ber til, að sjávarútvegurinn haldi áfram, helzt svo, að hann skili gróða, sem hægt er að taka með sköttum í almenningsþágu. Er þetta svo voðalegt?

Ég vil svo að lokum benda á, að lækkun kjöts og mjólkurvara með framlagi úr ríkissjóði er bein hagsbót fyrir þá, sem lægst eru launaðir. Þeir, sem lægst eru launaðir, sleppa við viðreisnarskattinn, en honum á einmitt að verja til að lækka þessar vörur. Ef verðið á kjöti yrði 4.50 kr. kg nýtt kindakjöt og lítri af mjólk 1.30 kr., munar litlu, að verkamaðurinn standi jafnvel að vígi til að kaupa sama magn af þessum vörum eins og árið 1939.

Árið 1939 þurfti verkamaðurinn að vinna í 54 mínútur fyrir því magni, er 4.8 manna fjölskylda notaði að meðaltali á dag af nýju kjöti og mjólk, nefnilega 2.3 l af mjólk og 260 g af nýju kjöti, samkvæmt vísitöluútreikningunum. Ef vísitalan yrði 230 og greidd væri 80% dýrtíðaruppbót, yrði tímakaupið í dagvinnu 4.28 kr., og þá þyrfti verkamaðurinn að vinna í 58 mínútur fyrir dagmagni vísitölunnar af nýju kjöti og mjólk í stað tæpra 54 mínútna 1939.

Að lokum vil ég taka fram, að till. hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. G.- K. um að skipuð sé sérstök n. þm. úr öllum flokkum til að fjalla um dýrtíðarmálin, fellur mér persónulega vel í geð. Um þetta mál verður að nást samkomulag allra, því að það er gagnslaust og ríkinu hættulegt, að sett séu l., sem ekki eru í heiðri höfð.