25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

27. mál, fjárlög 1944

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þessar eldhúsumræður, sem hér fara fram að þessu sinni, eru með nokkuð óvenjulegum hætti. Venjulegast lætur þingið þær fara fram til að segja þeirri ríkisstjórn til syndanna, sem fer með framkvæmdavaldið í umboði þess og á þess ábyrgð. Nú hefur þingið hins vegar enga slíka ríkisstjórn til að deila á, þar sem það hefur ekki reynzt þess megnugt að mynda neina slíka ríkisstjórn, og má því segja, að eðlilegast sé, að þessar eldhúsumræður snúist um það að gefa skýringar á því, hvernig á því stendur, að þingið hefur ekki reynzt þess megnugt að sinna þessari sjálfsögðu skyldu sinni, hvar orsakirnar liggja og hvaða afleiðingar það hefur á stjórnarfar landsins. Það má jafnvel segja, að Alþingi ætti að þakka þeim mönnum, sem tekizt hafa þann vanda á hendur, sem það sjálft treystist ekki til að leysa, þótt vitanlega telji ýmsir margt orka tvímælis um gerðir þeirra, sem vonlegt er.

Ég ætla ekki að fara að rekja neitt það, sem ég tel miður hafa farið í höndum núverandi ríkisstjórnar, en ég ætla að taka það fram, að eftir því, sem starfsaðstaða hennar hefur verið bæði innan þings og utan, þá tel ég, að hún hafi sýnt virðingarverða viðleitni til að halda í horfi í þýðingarmestu málum og til að verja þjóðina áföllum þeirra afglapa, sem framkvæmd hafa verið í íslenzku stjórnmálalífi upp á síðkastið, — og mun ég koma nánar inn á það hér á eftir.

Á síðastliðnu ári fóru, eins og kunnugt er, fram tvennar kosningar til Alþingis um það höfuðmál að breyta kjördæmaskipun landsins í mjög verulegum atriðum. Tvö meginatriði hennar voru að draga úr áhrifum dreifbýlisins á Alþingi og að efla alræði flokkanna í stjórnmálum landsins. Forsvarsmenn þessarar örlagaríku breytingar töldu þetta „réttlætismál“, að jafna atkvæðisréttinn við kosningar, án tillits til þess, hver aðstaða kjósenda væri til að nota hann, og sumir töldu breytingunni aðallega til gildis, að hún miðaði að því að eyðileggja Framsóknarflokkinn og áhrif hans á löggjöf og stjórnarframkvæmdir í landinu. Sá, sem fastast kvað þar að orði, var þáverandi fjármálaráðherra, Jakob Möller, og dró hann enga dul á það fyrir kjósendum, að þegar sá flokkur væri að velli lagður eða áhrif hans minnkuð til mikilla muna, þá mundi einhver annar bragur og betri verða á störfum þingsins og stjórnarháttum, er Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn stærsti flokkur þingsins og hefði þar forustuna og þá eðlilega mesta ábyrgðina einnig. — Lítið hefur þó bólað á þessum umbótum, sem lofað var, og munu engir koma auga á þær, nema þá stjórnleysingjár einir, ef til eru í landi voru, og þeir, sem vilja ringulreið og úrræðaleysi sem mest í þjóðfélaginu við allt, sem gera þarf. Það er ekki vitað, að þessi flokkur hafi haft samhug um eitt einasta mál, sem úrlausnar krefst á þessum tímum, og ekki heldur um myndun ríkisstjórnar, svo mjög er hann sjálfum sér sundurþykkur; — og forustan fer þá einnig eftir því. — Í stað þess að kalla hann stærsta flokk landsins, væri miklu réttara að kalla hann samsafn minnstu flokksbrota þingsins, sem fátt er sameiginlegt nema nafnið. Og að mínum dómi er ein frumorsök hinna sundurlausu og máttarvana vinnubragða þingsins nú sú, að slíkur flokkur á að hafa forustuna, flokkur, sem lætur suma tala um frið, eins og 1. þm. Reykv. gerði í gær, þegar menn óttast ófrið, en aðra hefja ófrið, eins og raun var á bæði um hann sjálfan og aðra, er stofnað var til friðslita um ríkisstjórn landsins og þjóðinni att til ófriðar, — flokkur, sem aldrei getur staðið saman í einu einasta máli hér á Alþingi, hvorki stéttar- né alþjóðarmálum, ef hægt væri að greina þar á milli. — Ég hygg nú satt að segja, að hvert einasta stéttarmál svo að segja sé alþjóðarmál, og fá mál a. m. k., sem snerta ekki stéttirnar misjafnlega, eftir því hver úrlausn er á þeim gerð. Og mun ég rekja það nánar síðar.

Þegar verið var að berjast um kjördæmabreytinguna í kosningum, var því alls staðar haldið fram, að við framsóknarmenn færum með öfgar og ýkjur miklar, er við lýstum þeim afleiðingum, sem af henni mundu hljótast. — En við héldum því sérstaklega fram, að hún mundi leiða til stjórnleysis, þingið yrði vanmáttugt um að mynda ríkisstjórn, — eins og alls staðar hafði reynzt í löndunum umhverfis okkur, þar sem svipaðri kjördæmaskipun hafði verið komið á, — og í öðru lagi héldum við því fram, að það mundi mjög verða hallað á hagsmuni fólksins, sem í sveitunum og sjávarþorpunum býr, þegar kaupstaðirnir og þéttbýlið hefði náð meirihlutavaldi, — hefði þingið hjá sér og meiri hl. þingmanna. Hættan væri því að okkar dómi einkum tvenns konar, 1) að veikja og grafa undan stjórnarformi landsins og 2) hins vegar að veikja mjög og torvelda aðstöðu hinna dreifðu byggða til framdráttar fyrir mesta þéttbýlið og flokka þess, og virðist þó aðstöðumunurinn á flestum sviðum vera nægilega mikill fyrir. Þar talar aðsóknin að þéttbýlinu undanfarin ár sínu máli, sem fáir munu geta misskilið. Og nú er fyrir þjóðina að meta, hvað við höfðum til okkar máls, og hvort aðvaranir okkar í þessum efnum voru ýkjur einar og blekkingar. — Ég skal játa það, að hvorki mig og sennilega engan okkar hafði órað fyrir því, að þessar afleiðingar kæmu svo fljótt og glöggt í ljós sem orðið er. Síðan þessi breyting á kjördæmaskipun landsins fór fram, hefur Alþingi enga ríkisstjórn getað myndað, og er þó nú komið á annað ár síðan. Og það er sannarlega ekki Alþingi að þakka, að fullkomið stjórnleysi hefur ekki ríkt í þessu landi allan þennan tíma, og þá ekki heldur kjósendum þeim, sem hana studdu, meira að segja hefur mikill hluti þingsins reynt að torvelda starf ríkisstj. á flesta vegu, og með breytingunni hafa því kjósendurnir, sem hana samþykktu, svipt sjálfa sig möguleikanum til áhrifa á stjórn landsins, a. m. k. þennan tíma, sem liðinn er síðan, — og hver veit hve lengi það verður? Hér tala staðreyndirnar sínu máli. Og hver ætli vilji nú halda því fram, að þetta sé betri og starfhæfari skipun þingsins heldur en hin fyrri, sem breytt var og aldrei hafði þó svipt fólkið allt möguleikanum til að mynda ríkisstjórn og hafa áhrif á það, hverjir færu með framkvæmdavaldið í landinu?

Ég kem þá að hinu atriðinu, sem við héldum fram, að kjördæmabreytingin hefði í för með sér, sem sé því, að hagsmunum og högum dreifbýlisins væri mjög í hættu stefnt, — og mundu bæjarflokkarnir eflast svo, að þeir yrðu næsta einsýnir og teldu sig litlu skipta að hugsa um hag þeirra, sem utan stærstu kaupstaðanna búa, en kapphlaupið milli þeirra yrði allt um það að vinna fylgi þar, sem höfðafjöldinn er mestur, og hlyti þá svo að fara, að það kapphlaup færi fram á kostnað þeirra, sem minna máli skipti að vinna til fylgis til að ná völdum, sem sé á kostnað sveita og sjávarþorpa landsins. Þeir, sem þessa staði byggja, munu nú bezt geta dæmt um það, hvort þessar aðvaranir hafa verið ástæðulausar. Þeir munu þegar hafa fundið til þess, og það jafnvel þeir, sem blindir voru áður, að andi Alþingis og bæjarblaða í þeirra garð er æðibreyttur síðan Sjálfstæðisflokkurinn myndar sérstakt blað til að þurfa ekki að láta bændur skrifa í þau blöð, sem þeir gefa út í bæjunum. — Þannig eru þeir einangraðir um að ná til bæjarmanna, en bændur eru þar ofsóttir, eins og greinilega hefur líka nú í vetur komið í ljós. Það gætu verið hjáróma raddir í þeim áróðri, sem gegn þeim er rekinn í bænum, ef bændur tækju þar til máls og segðu satt og rétt um mál sín, fyrirtæki og stofnanir. Á þessu fyrsta reglulega þingi, sem skipað er skv. hinni nýju kjördæmabreytingu, hafa bæjarflokkarnir keppzt hver við annan í að láta rigna niður frumvörpum og þingsályktunum, sem fela í sér hreinar ofsóknir og frámunalega illkvittni og getsakir í garð bænda, samtaka þeirra og stofnana. Kommúnistar flytja frumvörp um að taka umráðaréttinn yfir miklu af framleiðsluvörum bændanna af þeim og fá hann í hendur bæjarstjórnunum, taka af þeim allan rétt til að verðleggja þessar vörur sínar og setja um það gerðardóm — það á víst að vera hið fasta skipulag, sem 5. þm. Reykv., Brynjólfur Bjarnason, var að tala hér um í gær, — og taka mikið af eignum bænda, sem þeir eiga í bæjunum, af þeim, án þess að þar komi nokkuð endurgjald fyrir. Þeir flytja ennfremur tillögu til þingsályktunar um opinbera rannsókn á fyrirtæki þeirra, fyrir það að skemmzt hefur lítils háttar af kjöti frá síðasta ári, sem varð að fleygja, þótt ekki hafi enn sézt, að þeir hafi talið ástæðu til að skipa rannsókn um það t. d., að 2000 tn. af sjávarmatvælum hafi eyðilagzt hér við Faxaflóa í sumar, að því er sagt er, á annað þús. tunnur fiskflaka hafi verið fleygt í sjóinn, hrogn hafi verið notuð sem áburður í tonnatali, að ógleymdu því, hvað mikil matvælaframleiðsla hefur verið hindruð og skemmd með verkföllum og vinnustöðvunum. Í þessari tillögu þeirra er gefið í skyn, að þær stofnanir bænda, sem fara með og selja afurðir þeirra, vinni vitandi vits og af ásetningi að því að eyðileggja þessar afurðir, sem þeim er trúað fyrir, og tók einn þm. sjálfstæðismanna undir þær fullyrðingar hér á þingi í gær. Á jafnvel að hefja allsherjar leit að því um landið, hvar þessum eyðilögðu afurðum hefur verið fyrir komið. Máske er það hugsað sem ein leið til að mæta því atvinnuleysi, sem þeir sömu menn eru þegar búnir að skapi. :Einn sjálfstæðismaður, þm. bændanna á Snæfellsnesi, flytur tillögu í svipaða átt, um allsherjar opinbera rannsókn á eitt stærsta sölufyrirtæki bænda, Mjólkursamsöluna, þótt vitað sé og viðurkennt, að engum vörum, hvorki neyzluvörum né öðru, sé dreift og þær seldar með jafnlitlum kostnaði og vörur þær, sem Mjólkursamsalan hefur með höndum. — En sami hv. þm. berst hins vegar gegn því, að nokkur slík rannsókn eða móðgun, sem hann telur, fari fram á hendur mestu auðhringum hér á landi, olíufélögunum, sem eru að miklu leyti fulltrúar erlends auðmagns hér í landi og hafa haft rúmlega þrítugfaldan sölu- og dreifingarkostnað á við fyrirtæki bændanna, sem hann vill setja undir opinbera rannsókn, að ég ekki tali um rannsókn á útgerðarfyrirtækin, heildsalana og jafnvel stofnanir ríkisins, eins og t. d. lagadeild háskólans, sem hv. þm. Snæf. starfar í og margir telja, að sé í ýmsu ábótavant. Til umr. um þetta mál fór mestur tími þingfundar í dag og áður margir þingfundir.

Þá flytja jafnaðarmenn till. til þál. um að banna sölu á mjólk til setuliðsins, ef Reykvíkingar og Hafnfirðingar telja sig þurfa á henni að halda. Sömu mennirnir og hrálátlegast hafa staðið gegn því, að nokkrar takmarkanir væru settar gegn því, að vinnuaflið í landinu færi til hins erlenda setuliðs, enda þótt innlendir atvinnuvegir þyrftu á því að halda, — og þá einnig bændur, sem framleiða mjólk og mjólkurafurðir. Sömu mennirnir, sem þegja við því og telja sennilega sjálfsagðan hlut, að Reykjavíkurbær selji hinu erlenda setuliði vatn og rafmagn til að hagnast á, þótt það komi mjög óþægilega niður á bæjarbúum sjálfum, verksmiðjur, verkstæði og vinnustöðvar margar verði að stöðva vinnu nokkurn hluta dags oft og tíðum og húsmæður bæjarins geti ekki á réttum tíma eldað matinn í heimilisfólkið vegna skorts á rafmagni. Og ótalið er þó enn það, sem máske sýnir ljósast hug þessara bæjarmanna á Alþingi í garð bændanna. Eins og kunnugt er, gerði síðasta Alþingi nokkurs konar samning, svo að segja einróma, með lögum um dýrtíðarráðstafanir, til að jafna þann ágreining, sem staðið hafði í mörg undanfarandi ár um það, hvert hlutfallið skyldi vera milli kauplags og afurðaverðs meðan styrjöldin stæði. — Helztu atriði þessa samnings voru þau, 1) að skipuð skyldi 6 manna nefnd, sem reiknaði þetta hlutfall út, þannig að „heildartekjur þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta“, — 2) að afla tekna með verðlækkunarskatti til framkvæmda málsins, og 3) að veita ríkisstj. heimildir til að verja fé til að greiða verð afurðanna niður á innlendum markaði, ef hún teldi þess þörf við framkvæmd laganna. — Allt var þetta því skilyrði bundið frá þingsins hálfu, að fullt samkomulag næðist milli allra þeirra 6 manna, sem í nefndina væru skipaðir. Það gleðilega skeði síðan, að þessir menn urðu allir á einu máli um það, hvaða verð bændur ættu að fá fyrir afurðir sínar til að ná þeim tilgangi, sem samningur eða lög Alþingis tilskildu. Það virtist því sem hér væri allur ágreiningur niður kveðinn og nú væri það aðeins sjálfsögð skylda þingsins að standa við þennan samning, sem gerður var, þegar öll skilyrði voru uppfyllt. En hvað skeður? Þingið er ekki fyrr komið saman en harðar og illvígar deilur eru hafnar um það, hvort standa eigi við þennan samning frá hálfu Alþingis og framkvæma hann. Og ekki er enn þá útséð um það, hvort nokkurt þessara þriggja atriða samningsins verður haldið. Um þau öll standa deilur nú, sem ekki er séð, hversu lýkur. Það er barizt gegn því að greiða verðuppbætur á útfluttar afurðir bænda, til að ná því verði, sem 6 manna nefndin taldi, að bændur ættu að fá, þótt innanlandsverðið á vörum þeirra væri ákveðið með tilliti til þess, að svo yrði gert. Og því er haldið fram, að þetta verð, sem nefndin ákvað, gildi aðeins um afurðir þær, sem seldar eru innanlands. Verður þá tæpast séð, hversu heildartekjur þeirra verða í samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta, ef nokkur hluti afurðanna á að greiðast með mun lægra verði, því að nefndin miðar verðlag sitt við það, að það gildi fyrir allar afurðir bændanna. Og ef standa á við þann samning, sem þingið gerði í fyrra um uppbætur, er það talið fátækrastyrkur. Þannig á að rifta aðalatriði og tilgangi laganna eða samningsins.

Það hefur verið borið fram frumvarp um að fella niður ákvæði samningsins um heimildir handa ríkisstjórninni til að greiða niður verð afurðanna á innlendum markaði, ef hún telur þess þörf, — og þetta frumvarp er þegar búið að samþykkja í gegnum 5 umræður í þinginu og á þannig aðeins eina eftir til að verða að lögum. Væri þá sæmilega tryggður hagur bændanna eða tekjur þeirra, eða hitt þó heldur, eins og hv. 1. þm. Reykv. var að guma af í gær, ef hann og aðrir sviptu burtu möguleikanum til að halda dýrtíðinni í skefjum. Kaupgjald og aðkeyptar vörur hækkuðu svipað í ár eins og sumarmánuðina 1942, en búið væri að fastákveða verð til bændanna allt árið, sem þá mætti ekki hækka neitt fyrr en 15. ág. n.k. — Og loks virðist mjög tvísýnt um, að ríkisstjórnin eigi að fá nokkrar tekjur til dýrtíðarráðstafananna, til verðlækkunar og verðjöfnunar, eins og greiðslur á aðfluttar afurðir eru í raun og veru. — Sumir sjálfstæðismenn meira að segja greiddu atkvæði gegn verðlækkunarskattinum, sem til þessa er ætlaður, í hv. Ed. í dag við 2. umr., að ég nú ekki tali um kommúnista, og þannig vildu margir sjálfstæðismenn gera því lægra undir höfði en mjólkurfrumvarpi kommúnista, sem felur í sér það stjórnarskrárbrot, að taka eignir bænda gegn engu endurgjaldi. — En með því greiddu flestir sjálfstæðismenn atkvæði til 2. umr. í hv. Nd. Þannig er markvisst unnið að því að eyða öllum ákvæðum þessara laga frá síðasta þingi og grafa undan þeim. Það er á allan hátt reynt að koma í veg fyrir það, að bændur fái fyrir afurðir sínar eins og þingið var búið að heita þeim, ef samkomulag næðist í nefnd hinna 6 manna, og samhliða er haldið uppi stöðugum árásum á þá sjálfa, fyrirtæki þeirra og framleiðslu, eins og áður er lýst. Ef þeir þingmenn bæjarflokkanna, sem fyrir þessum vinnubrögðum standa um löggjöf og rétt til handa bændastéttinni, fengju vilja sínum framgengt, þá sé ég ekki, hver munur yrði á aðstöðu bændanna í okkar þjóðfélagi nú og þeirri, sem ríkti hjá stéttarbræðrum þeirra í mörgum löndum á miðöldum, þar sem bændaánauðin var í algleymingi. Þeir ættu að uppfylla allar skyldur og erfiði, sem af þeim væri heimtað, en aðrir ættu að hafa allan réttinn, afraksturinn og fríðindin. Ég skal játa það hreinskilnislega, að mig hafði jafnvel ekki dreymt um, að slíkur hugur og slík vinnubrögð kæmu fram í garð bændanna, þegar er þessi breyting hefði farið fram á stjórnskipunarlögum landsins, og bjóst ég þó þar við engu góðu, eins og mörgum mun kunnugt um.

Það var vissulega við engu góðu að búast, eins og þingið og þjóðin snerust við þeim vanda, sem styrjöldin hafði í för með sér, hér eins og annars staðar. Allt samstarf er rofið milli flokka með miður drengilegum hætti um vandamálin, sem að sóttu, og það þegar mest reið á. Þess í stað er sett upp sú veikasta stjórn; sem enn hefur setið við völd hér á landi. Henni eru sett þau skilyrði til að fá að sitja, að hún megi ekkert aðhafast til að verjast flóðöldu hinnar ægilegu dýrtíðar, sem farin var að ógna öllu atvinnulífi landsmanna, og engin stærri átök gera, sem valdið geti ágreiningi stuðningsmanna hennar, kommúnista og jafnaðarmanna, til að leysa aðkallandi vandamál, sem styrjaldarástandið hafði í för með sér. En í þess stað er stofnað til þrálátrar og harðvítugrar baráttu innanlands, þeirrar, er enn stendur og allir óttast.

Þegar alda stríðsgróðans flæddi yfir landið og tugir og hundruð milljóna bárust þjóðinni í hendur, án þess að það væri fyrir framsýni eða dugnað þeirra, sem fengu þar drýgstan skerf, þá var aðeins um tvær leiðir að velja fyrir þjóðina að fara. Annars vegar að hagnýta gróðann fyrir þjóðina alla, setja rammar skorður við vaxandi dýrtíð úr hófi fram, taka megnið af stríðsgróðanum með skattalöggjöf og hagnýta hann síðan til þess stórfelldasta landnáms og endurreisnar og nýsköpunar atvinnuvega þjóðarinnar, sem nokkurn tíma hefur gefizt tækifæri til að framkvæma. Byggja og nema landið með skipulegum og stórfelldum framkvæmdum, að styrjöldinni lokinni, og stæðum við nú þá betur að vígi en nokkur önnur þjóð í heimi, er illviðrinu mikla slotar, sem nú gengur um heim allan. — Þessa leið vildum við framsóknarmenn fara og gerðum til þess ítrekaðar tilraunir.

Hin leiðin var sú að gefa dýrtíðinni og gróðaæði einstaklinganna lausan tauminn, hefja æðisgenginn dans um gullkálfinn, þar sem hver hrifsaði sem bezt hann gat með pústrum og árekstrum hver við annan, en láta hitt liggja milli hluta, hvernig framtíðin yrði fyrir þjóðina í heild og hversu henni yrði bezt þjónað og hún tryggð. Með þessari leið mælti fyrrverandi stjórnarforseti, hv. þm. G.-K. (ÓTh), er hann sagði, að frá sínu sjónarmiði væri ekki svo mjög athugavert að láta dýrtíðina vaxa, kaupgjald og afurðaverð fara upp meir og meir, því að með því móti fengi fólkið hlutdeild í stríðsgróðanum. En með þessu var fólkinu talin trú um, að það væri að græða mjög, og það fengið til að standa með þeim, sem milljónunum voru að safna, til að standa gegn réttlátum og viturlegum skattaálögum á stríðsgróðann, svo að þjóðin sjálf gengur slypp frá borði, þegar dansinn er um garð genginn, almenningur horfir móti yfirvofandi atvinnuleysi og örðugleikum, en fjárplógsmennirnir, sem bezta höfðu aðstöðuna, ganga glaðir og reifir í tuga- og hundraðatali sem milljónerar. Þannig er leiðin, sem valin var, er mesta og glæsilegasta tækifærið kom til að skapa hér velmegandi og öruggt framtíðarþjóðfélag. Gleggsta dæmið um það, hve fjöldanum var villt sýn í þessum efnum, er það, að þegar borinn var fram eignaaukaskatturinn á síðasta þingi, þar sem taka átti kúf stríðsgróðans til almenningsheilla og tryggingar framtíðinni, þá þóttust fulltrúar verkamanna, jafnaðarmenn og kommúnistar á þingi, vera því fylgjandi. Og þeir hófu á okkur framsóknarmenn miklar ádeilur í útvarpsumræðum þá í þinglokin fyrir að vilja ekki framlengja þinginu til að koma þessu á. En að það var rétt, sem við héldum þá fram, að þetta væri aðeins til að sýnast og engin alvara fylgdi máli, það kemur nú svo berlega í ljós sem hugsazt getur á þessu þingi. Mestan hluta þess tíma, sem liðinn er af þinginu, var málið ekki einu sinni tekið á dagskrá, og eiga þó kommúnistar forsetann í þeirri deildinni, sem málið var lagt fram. Og það bólar enn þá fremur lítið á neinum áhuga um að koma þessu máli fram hjá þeim.

Þannig blasa myndir þjóðlífs vors og stjórnarfars fyrir augum þeirra, sem vilja sjá og athuga, hvað er að gerast. Og þegar kommúnistar skoða þetta, virðast þeir harla ánægðir, því að fyrir fáum dögum, þegar þeir stækkuðu blað sitt um helming, þá segja þeir, er þeir hafa litið yfir það, sem fram er að fara í þjóðlífi okkar, að nú sé kominn hinn ákjósanlegasti grundvöllur og tækifæri til að auka flokk sinn til áhrifa og byltinga, — og segja við flokksmenn sína: „Róið þið nú, því að nú er lagið, piltar.“ Þannig róa byltingaöflin annars vegar og gleðjast yfir því, hvaða leið hefur verið haldin hér að þeirra vilja. En hins vegar hagræða stórgróðaöflin og fjárplógsmennirnir sér, sem hjálpuðu til að halda þessa leið, og hyggja gott til valda og áhrifa einnig með gróða sinn og fjárhagslega aðstöðu. Og enn þá leika þessi öfl saman í stjórn höfuðborgar landsins og um flest mál á Alþingi, og það gengur þrálátur orðrómur um það, bæði á þingi og utan þess, að þeir hyggi til samvinnu um stjórn landsins og fá því aftur svipaða ríkisstjórn og þá, er sat í fyrrasumar og kommúnistar töldu það eitt til gildis, að hún væri veik, og almannarómur segir, að sé sú dýrasta stjórn þjóðinni, sem nokkru sinni hefur setzt í valdastól á landi hér.

Vonandi á slíkt ekki eftir að endurtaka sig, þótt allir hugsandi menn geti nú sagt og hugsað eins og sagt er: „Að Íslands óhamingju verður allt að vopni“. Óheillaöflin virðast svo máttug, að bezta tækifæri og aðstaða, sem þjóðin hefur fengið til framfara og farsældar, ætli að verða henni blekking ein og böl, sem langan tíma þarf til að bæta og lækna. Aðrar þjóðir, margar, sem fjötraðar eru og rændar frelsi, eru nú að búa sig undir að sýna öllum heimi það: „að jafnvel úr hlekkjunum sjóða má sverð, í sannleiks og frelsisins þjónustu gerð“, samhliða því, sem þjóðin, er frelsi fékk að fullu og flest tækifæri til að byggja framtíð betri og bjartari en börn hennar hafa áður þekkt, er að smíða sína eigin fjötra og helsi úr gullflóðinu, sem yfir hana gekk. — Þetta er raunasaga, en þó ekki óþekkt áður. Og enn verðum við að vona það, að þjóðin vitkist svo, að hún sjái háskann og kalli fram þá krafta, sem færir eru um að bjarga á örlagastund hennar. Þar verða allir hugsandi menn að taka höndum saman, sundra blekkingunum og falskenningum, sem til þess hafa leitt, sem orðið er, og horfast einarðlega og drengilega í augu við þá erfiðleika, sem yfir okkur og fram undan eru. — Íslendingar, látum öfgarnar til beggja hliða víkja úr samkundu þjóðarinnar og frá öllum áhrifum. Þær hafa leitt aðrar þjóðir á helstigu þá, sem þær fara margar nú, og svo munu þær einnig gera með þessa litlu þjóð og eru vel á vegi með það, ef áhrifum þeirra er ekki eytt með markvissu starfi og samtökum og samhug allra þeirra, sem sjá háskann og breyta samkvæmt því.