28.10.1943
Neðri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Eftir að frv. þetta kom til allshn., sendi hún það til lagadeildar háskólans til umsagnar, eins og sést á nál. 241, þar sem prentað er álit lagadeildarinnar. Mælir hún með því, að frv. verði samþ. Ég get því vísað til nál., en skal þó taka það fram, að allshn. telur það réttmætt, að íslenzkir ríkisborgarar fái greitt beint frá ríkissjóði það tjón, sem þeir verða fyrir af völdum herliðsins hér eða mönnum úr herliðinu. Það er ákaflega algengt, að íslenzkir borgarar verði fyrir tjóni af völdum þess herliðs, sem enginn ágreiningur er um, að eigi að bæta. En hins vegar er það oft mjög miklum erfiðleikum bundið fyrir einstaklinga að ná rétti sínum. Það eru að vísu nefndir starfandi, sem hafa með þessi mál að gera, en hafa þar aðeins tillögurétt, en Bandaríkjastjórn er að engu leyti bundin við þær till., sem n. kunna að bera fram. Enda eru þess dæmi, að neitað hefur verið um greiðslur á þeim upphæðum, sem n. hafði þó mælt með.

Það, sem hins vegar gæti mælt á móti þessu frv., ef það verður að l., er það, hvað snertir útgjöld ríkissjóðs, ef um stórar upphæðir væri að ræða, og væri kannske ekki rétt að binda ríkissjóði svo þungan bagga. Ég hef reynt að kynna mér þetta dálítið og hef fengið upplýsingar frá n., sem hefur með langflest þessi mál að gera, og hefur hún tjáð mér, að hjá henni lægju nú ekki nema fimm kröfur, og er sú hæsta í sambandi við afnotarétt upp á um 38600 kr. og svo skaðabótakrafa upp á rúmar 15000 kr. Og svo eru þrjár aðrar lágar kröfur. En að sjálfsögðu er ekkert frekar vegna þessara krafna hægt að segja eða slá föstu um það, að ekki geti komið stærri og fleiri kröfur. En í flestum tilfellum mun samkomulag hafa náðst milli hinna íslenzku og erlendu n. En til þess að takmarka ábyrgð ríkissjóðs, hefur n. orðið ásátt um, að hámarkskrafan geti verið 50000 þús. kr. Ég held þess vegna, að áhættan fyrir ríkissjóð sé ekki svo mikil, auk þess sem víst er, að allar þessar kröfur eru endurheimtanlegar frá Bandaríkjastjórn í langflestum tilfellum. Og ég er alveg sannfærður um það, að Bandaríkjastj., vegna þeirra samninga, sem hún hefur gert um það, að Íslendingar skyldu vera skaðlausir vegna veru hers hennar hér, mun ekki ganga á móti þeim niðurstöðum, sem íslenzkir dómstólar gæfu. Það eru hins vegar ákaflega mikil þægindi fyrir íslenzka borgara að geta leitað réttar síns fyrir íslenzkum dómstólum. Þar koma svo fram vitni með sönnunargögn sín, og er það styrkur fyrir íslenzku ríkisstj., er hún gerir kröfur á Bandaríkjastj., að málið hefur komið fyrir rétt og sönnunargögn lögð þar fram, því að endurgreiðsla Bandaríkjastj. á að fara eftir íslenzkum lögum, en ekki eftir réttarreglum, sein kunna að gilda þar í landi. Svo koma tilfelli, þar sem enginn vafi er á, að ekki geti verið hægt að heimta bætur fyrir, t. d. ef um er að ræða hermenn utan herþjónustu, sem valda mönnum einhverju tjóni, t. d. eins og að ráðast á menn að ósekju og meiða þá eða berja til óbóta eða ef menn gera önnur þau spellvirki, sem hægt er að sanna, að sé af völdum manna úr herliðinu, en þó að herstjórnin sem slík geti ekki borið ábyrgð á slíku, þá finnst mér sanngjarnt, að menn, sem eru svo óheppnir að verða fyrir slíku, fái bætur úr ríkissjóði. N. kom saman um, að ef einhver, sem fyrir tjóni verður, er tryggður fyrir slíku tjóni hjá einhverju tryggingafélagi, þá sé ríkissjóður laus við þær bætur. Maður gæti hugsað sér, að skemmdir yrðu á bát eða skipi af völdum Bandaríkjaskips og það sé vitað, að hið íslenzka skip eða bátur sé tryggt eftir íslenzkum lögum. Mundi það þá geta verið miklu þægilegra fyrir hlutaðeigandi að geta snúið sér til íslenzkra dómstóla og fært sönnur á mál sitt. En það er ekki rétt, því að í þeim tilfellum eru það tryggingafélögin, sem eiga að koma þar fram sem kröfuhafi. Þetta frv. nær ekki til þess, ef t. d. einhver maður leigir sér bíl og ekur í bílnum fyrir t, d. 200 kr. og borgar svo ekki reikninginn. Þá getur sá ekki krafið ríkissjóð, sem fær ekki borgað. Þetta frv. nær aðeins til tjóns, sem bæta skal samkvæmt almennum skaðabótareglum.