25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að deila, hvorki við einn né annan, um þörf eins eða annars í þessum efnum, sem byggð er eingöngu á mannúðarsjónarmiði, og vil undirstrika það, að ég hef flutt þetta frv. aðallega frá fjárhagslegu sjónarmiði séð fyrir ríkið sjálft. Hins er rétt til getið hjá hv. þm. Ísaf., að fyrsta ástæðan til þess, að slíkt frv. kemur fram, er sú að flýta fyrir því, að vinnuhæli fyrir berklasjúklinga verði komið upp. Ég skal ekki fara neitt inn á hugmynd hans um styrk í þessum efnum, en ég vil geta þess, að það var misskilningur hjá hv. 2. þm. N.-M., að ég hefði talið þetta hafið yfir öll önnur mál á grundvelli mannúðar. Ég taldi það vera hafið yfir öll önnur mál á grundvelli þeirra útgjalda, sem ríkið árlega innir af hendi. Það kostar ríkið og almenning í landinu 4 millj. kr. að halda uppi berklahælum, sem ná ekki nærri nógu góðum árangri, vegna þess að vinnuhæli fyrir berklasjúklinga vantar, og það er aðallega af þessum ástæðum. að ég tel verjandi að stíga þetta spor, hvað þetta eina hæli snertir.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég vona., að málið geti gengið til hv. fjhn., eins og ég lagði til í upphafi, og læt hana svo um að meta þau rök, er hér hafa komið fram.