08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

27. mál, fjárlög 1944

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt., sem ég þarf að mæla fyrir nokkur orð. Hún er viðvíkjandi kynbótabúi því, sem stofnað hefur verið á Hólum. Til þessa fyrirtækis er þannig stofnað, að þátttakendur eru fyrst og fremst búnaðarskólinn á Hólum og Búnaðarfél. Íslands, sem veitt hefur nokkurn styrk til þessa fyrirtækis, og svo nokkrir einstakir menn. Í þessu skyni hafa þegar verið lagðar fram 20–30 þús. kr. til þessa fyrirtækis og sú upphæð algerlega afhent ríkinu að gjöf. En búnaðarskólinn annast rekstur búsins og stendur straum af því. Nú finnst þeim, sem að þessum málum standa, og okkur flm. ekki vansalaust, að ríkið skjóti sér undan því að veita búinu styrk, þar sem um er að ræða svo merkilegt fyrirtæki, — fyrsta hrossakynbótabú hér á landi, þar sem tiltækilegt er að safna saman úrvalshrossum af öllu landinu og bændum þar með veitt tækifæri að fá keypt úrvalshrossefni til undaneldis. Ég vil fullyrða, að þetta bú er sérstaklega vel sett að mörgu leyti að Hólum, en það, sem sérstaklega vanhagar um, er fé til að koma upp girðingu fyrir kynbótagripina og í öðru lagi nokkurt fé til kaupa á úrvalshrossum, sem ekki hefur verið hægt til þessa. Vænti ég því, að hv. Alþ. líti á þetta mál velvildaraugum og láti það ekki kafna héðan af, úr því það er komið á svona góðan rekspöl. Það verður að telja, að hóflega sé af stað farið með þessari till. um 20 þús. kr. framlag, því að sannleikurinn er sá, að við þyrftum 50–60 þús. kr. En fyrst í stað er hægt að komast af með þetta. Við hugsum okkur að þoka þessu áleiðis smám saman.

Ég sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir afstöðu minni til annarra mála að þessu sinni, enda er ég ekki meðflm. að neinum öðrum málum.