11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

160. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi taka fram í sambandi við það, sem hv. þm. Hafnf. (EmJ) mælti nú. Ég hafði náttúrlega tekið eftir, að undirbúningur kostnaðaráætlunar var mjög ófullkominn, og sama er að segja um hina nm., en ég og samnm. mínir töldum ekki rétt að láta þetta tefja framkvæmd málsins. Ég taldi frá mínu sjónarmiði þetta vera öruggt af því, sem segir í 1. gr. Og hér er ekki farið fram á ósanngjörn framlög, því að þar er ákveðið, að hámarkið skuli vera 2 millj. kr., og ekki ákveðið, að ábyrgðin skuli bundin við hlutfallslega kostnaðarupphæðina. En ég vil segja það í sambandi við það, sem þm. Hafnf., vitamálastjórinn, sagði, að ég hafði búizt við, þegar þessi n. var skipuð og sett á laggirnar, að hún mundi vinna allt öðruvísi en hún hefur gert. Ég fór til þessarar n. til þess að vita, hvar mættust verkefni okkar, sem erum í sjútvn., og þessarar n., því að Alþingi er svo örlátt á nefndaskipun, að þær verða eins og skarsúð, grípa hver upp á aðra, og getur orðið ágreiningur um, hvert sé verkefni hverrar n. fyrir sig. Við höfðum í mþn. í sjávarútvegsmálum ákveðið að láta hafnarmálin til okkar taka og höfum byrjað starfsemi með vitamálastjóra, en hún er allt of skammt á veg komin vegna þess, hve lengi Alþingi hefur setið. Ég spurði að þessu og hafði hugsað mér, að við mundum leita fyrst og fremst til tveggja manna hér á landi um undirbúning og kostnaðaráætlun við svona verk, og það er sjálfur vitamálastjórinn, sem hefur bezta möguleika til þess að vita þetta, og sá maður, sem er lærður skipasmiður og hefur mjög háa menntun í því, Bárður Tómasson, verkfræðingur frá Ísafirði.

Nú álít ég, þótt þetta frv. verði samþ., að það séu ákveðin takmörk fyrir því nú í bili, hvers ríkissjóður er skyldaður til. En framhald gæti þó orðið á undirbúningi þessa verks, þannig að gengið væri til botns í því, hvað fyrirtækið mundi kosta, og mætti þá athuga, hvort ríkissjóður vildi þá síðar meir breyta framlagi sínu, ef svo reyndist, sem er ekki ólíklegt, að þetta fyrirtæki verði miklu dýrara en hér er gert ráð fyrir.