11.11.1943
Efri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

153. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Það er sama að segja um þetta frv. og það, sem var til umr. næst á undan, að það er flutt að tilhlutun hæstv. forsrh., sem nú fer með félagsmál, en samið af mþn. Þó er sá meginmunur á, að í þessu frv. er aðeins gert ráð fyrir bráðabirgðabreyt. á því skipulagi, sem það fjallar um. Um þetta frv. er hið sama að segja og hitt að því, að einstakir nm. hafa óbundin atkv. um einstök atriði og brtt., sem fram kunna að koma.

Efni frv. er, að á meðan vísitalan er 110 stig eða hærri, skuli lífeyrissjóður Íslands greiða 50% af heildarupphæðinni innan þeirra takmarkana, sem nú eru í l., og að þeirri takmörkun viðbættri, að hann tekur ekki þátt í greiðslum, er nema meira en 120 kr. Þegar alþýðutryggingal. voru sett árið 1936 og þeim breytt 1937, var ákveðið, að lífeyrissjóður skyldi leggja fram til ellilauna og örorkubóta kr. 52,50 fyrir hvert gamalmenni eldra en 67 ára eða sem svarar síðustu árin 430 þús. kr. á ári. Það kom í ljós, að sveitarfélögin tóku upp örorkubótagreiðslur á þá leið, að þessi fastákveðna upphæð, sem lífeyrissjóður Íslands lagði til, varð því minni hluti af heildarupphæðinni, sem meira var lagt fram af sveitarfélögunum í þessu skyni. Þegar svo eftir árið 1939, að dýrtíðin tók að vaxa, og þess vegna varð að hækka ellilaun og örorkubætur, þá lækkaði hundraðshluti lífeyrissjóðsins stórkostlega, og var álitið, að sveitarfélögin þyldu það ekki. Þess vegna var l. breytt 1941, og var þá horfið frá því að miða við ákveðna upphæð, sem lífeyrissjóðurinn legði fram, en í þess stað var ákveðið, að lífeyrissjóðurinn skyldi þannig leggja fram 30% örorkubætur í 2. flokk, en í 1. flokk lagði hann fram helming eftir ákvæðum l. um þann flokk. Þetta fyrirkomulag hefur svo haldizt síðan, og var samkvæmt því úthlutað fyrir yfirstandandi ár 4½ millj. kr. Það lætur nærri, að 2/3 af þeirri upphæð séu framlag sveitarfélaganna, en 1/3 sé framlag lífeyrissjóðsins, en af framlagi lífeyrissjóðs endurgreiði ríkissjóður það, sem er umfram þá upphæð, sem lífeyrissjóður leggur fram samkvæmt fyrri ákvæðum alþýðutryggingal. Þessi upphæð nemur fyrir 2. flokk samkvæmt l. nú 800 þús. kr. fyrir yfirstandandi ár. Nú munu menn spyrja, hve mikil breyting verði á þessu framlagi ríkissjóðs, ef þetta frv. verður samþ. Því er ekki unnt að svara til fullnustu, en sé miðað við árið í ár og þá úthlutun, sem fór fram á því, og gert ráð fyrir, að þau ákvæði, sem í frv. eru, gildi fyrir yfirstandandi ár, mun láta nærri, að þetta framlag lífeyrissjóðs muni verða um l millj. og 600 þús. kr. eða 800 þús. kr. meira en nú er. Hins vegar fer það að sjálfsögðu eftir því, hve mikið er lagt fram til þessara mála í framtíðinni, hversu stór hlutur lífeyrissjóðsins verður. Ég vil á engan hátt leyna því, að ég geri ráð fyrir, að þessi breyt. verði til þess, að nokkuð ríkara sé lagt fram af sveitarfélögum en ella mundi, enda er tilgangur flm. sá, að hlutur þeirra, sem njóta ellilauna og örorkubóta, verði betri eftir en áður. Mér þykir rétt að geta þess, að n. hefur í huga með þessum till. sínum, að hlutfallið sé ákveðið eins og í frv. greinir, og gera ýmsir nm. ráð fyrir, að það verði frambúðarfyrirkomulagið. Samkvæmt gildandi l. um lífeyrissjóð Íslands er ætlazt til þess, að hann geti, þegar hann hefur náð fullum vexti, séð fyrir framfærslu þeirra, sem komnir eru á gamals aldur og hafa tilsettan tíma greitt iðgjöld. En það er ekki fyrr en eftir 50 ár, sem þess má vænta, og þó því aðeins, að útreikningurinn reynist réttur og gildi peninga breytist ekki mjög verulega á því tímabili. Það er álit okkar flestra í n., að þetta fyrirkomulag verði trauðlega haldið eins og gert er ráð fyrir í l., heldur verði einhver önnur leið farin til þess að sjá fyrir framfærslu gamalmenna. Sú framfærsla hefur hjá okkur Íslendingum verið með þeim hætti, að það, sem á skorti, að gamalmennin sjálf og vandamenn þeirra hafi getað séð fyrir þeim, það hefur verið lagt fram af hlutaðeigandi sveitarfélögum, þangað til alþýðutryggingal. voru sett. Síðan þau komu í gildi., hefur þetta skipzt þannig í aðalatriðum, að það, sem á hefur skort, að framlag skyldmenna hafi nægt til að sjá fyrir gamalmennum, hefur verið lagt fram af ríkinu og sveitarfélögunum í hlutfallinu 2 frá sveitarfélögunum, en 1 frá ríkissjóði. Það er gert ráð fyrir, að þessu verði breytt þannig, að það, sem kemur frá hinu opinbera, skiptist jafnt á ríki og sveitarfélög. Ef horfið yrði að því ráði að láta lífeyrissjóð Íslands taka til starfa, fyrr en gert er ráð fyrir í l. eins og þau eru nú, þá yrði auðvelt að láta hann taka nokkurn hluta af gamalmennaframfærslunni, og n. hefur hugsað sér, þegar það yrði, að hafa þá hlutfallið á milli sveitarfélaganna og ríkissjóðs ákveðið, að því er framlagið snertir, einmitt það sama og gert er ráð fyrir hér í frv., að skipta því jafnt á milli þessara aðila. Það er mjög almennur misskilningur úti um landið og kannske hjá sumum hv. þm., að lífeyrissjóðsgjöldin, sem nú eru greidd, séu notuð til greiðslu ellilauna. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að taka það fram, að þetta er fjarri öllum sanni. Lífeyrissjóðsgjöldin renna öll í lífeyrissjóðinn og eru þar sem eign þjóðarinnar. Það má gera ráð fyrir því, að um næstu áramót verði fjáreign lífeyrissjóðs orðin um 10 millj. kr., þannig að það er nú þegar nokkur fjársöfnun í viðbót við árlegar tekjur, og væri hægt að hugsa sér að nota það fé til gamalmennaframfærslu ásamt því, sem ríkissjóður og sveitarfélögin greiða. Mþn. hefur samið þetta frv., og gerir hún ráð fyrir að vinna áfram að endurskoðun á þessum köflum alþýðutryggingal., ellitrygginganna. Ég geri því ekki ráð fyrir, að það fyrirkomulag, sem hér er bent á, verði nema til bráðabirgða, en legg mikla áherzlu á það, að þessi breyt. verði gerð með tilliti til þess, að rýmkast megi hagur þeirra manna, sem við l. eiga að búa, og ríkissjóður þegar svo vel lætur í ári, taki meiri þátt í þessum greiðslum en verið hefur til þessa.

Ég vil geta þess, að hér fyrir þessari hv. d. liggur frv. frá hv. þm. Dal. (ÞÞ) um breyt. á þeim sömu l., sem þetta frv. gerir ráð fyrir að breyta, og vildi ég mega vænta þess, að það frv. verði tekið til athugunar í n., um leið og þetta frv. Get ég svo látið máli mínu lokið, en vil vænta þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.