18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Út af þeim ummælum, sem fallið hafa aftur hjá hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Siglf., að þetta sé sambærilegt því, þegar laun eru greidd úr ríkissjóði og ætíð heimtuð kvittun hvers framleiðanda í landinu, sem fær eitthvað af þessu fé, þá vil ég benda á, að allmargar fjárhæðir munu vera greiddar úr ríkissjóði til ýmissa samtaka og félaga, sem eiga að skiptast milli félagsmanna, án þess að nokkurn tíma hafi þótt ástæða til að heimta sundurliðun um, hvernig með það fé hefur verið farið. Ég vil því endurtaka það, að það er að sjálfsögðu á valdi þingsins, hvort það vill gera kröfu um, að þetta verði gert nú, og verður þá að sjálfsögðu eftir því farið, en ég hygg, að ekki sé fordæmi um þetta, og ef Alþingi vill, að svo sé gert nú, verður að gera um það ályktun.