16.11.1943
Efri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Bjarni Benediktsson:

Ég vildi hér með leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstjórnar, hvað líði athugun þeirri og öflun gagna varðandi verðlagsgrundvöll þann og vísitölu, sem svo kölluð 6 manna nefnd komst að og þessi hv. d. nú fyrir allmörgum dögum skoraði á hæstv. ríkisstjórn að leggja fyrir Alþ. Ég man ekki, hversu langt er síðan þessi samþykkt var gerð, en það eru áreiðanlega svo margar vikur liðnar síðan, að menn hljóta að vænta þess, að hægt hefði verið að afla gagnanna og gera nauðsynlega útreikninga á því tímabili, sem liðið er síðan. Og þar sem fullvíst má telja, að einmitt öflun þessara gagna sé undirstaða þess að verulegu leyti, að það yfirleitt hafi þýðingu að taka til umr. raunhæfar ráðstafanir til lækkunar verðbólgunnar í landinu, þá vildi ég mega vænta þess, að ekki yrði langt þangað til þessi gögn yrðu lögð fyrir hæstv. Alþ.