11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Garðar Þorsteinsson:

Ég er ekki sammála hæstv. ráðh., engu af því, sem hann sagði. Ég er að vísu fús til að biðja afsökunar á að hafa komið fram með fyrirspurnina fyrirvaralaust, en sú venja að hafa þar á fyrirvara gildir ekki lengur, og sá ráðh., sem hefur skipað sjálfan sig sem dómara í hæstarétti, ætti að vera tilbúinn að svara fyrirspurn minni án frekari umhugsunar.

Það, sem mér finnst ráðh. byggja á, er, að hann hafi farið eftir till. hæstaréttardómaranna. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp úr gr. úr l.: „Nú verður dómur ekki fullskipaður, sakir þess að dómari eða dómarar víkja sæti í máli, og velur þá dómsmálaráðherra, að fengnum tillögum dómsins, einhvern kennara lagadeildar háskólans eða einhvern meðal hæstaréttarmálaflutningsmanna eða einhvern héraðsdómara, sem fullnægir skilyrðum þessara laga“. Við finnum hvergi, að dómsmrh. sem slíkur sé kvalificeraður. Hugsum okkur, að hæstaréttardómari láti af starfi í hæstarétti og verði framkvæmdastjóri fyrirtækis. Er hann þar með kvalificeraður til að skipa dóminn áfram? Ég þekki þennan hæstv. dómsmrh. að öllu góðu, og veit að hann er einn bezti lögfræðingur þessa lands, en hvar er komið skiptingu dómsvalds og framkvæmdavalds, ef ríkisstj. getur skipað sjálfa sig sem dómara í hæstarétti? Ráðh. verður að haga sér eftir því, sem l. mæla fyrir, hvað svo sem hann persónulega er kvalificeraður dómari, en l. taka til einungis kennara lagadeildar, hæstaréttarmálaflutningsmenn og héraðsdómara. Aðra ekki. Auk þess eru jafnvel áhöld um, hvort sá, sem hefur setið í dómsmrh.sæti og staðið að samþykkt löggjafar, ætti síðar að sitja í hæstarétti til að dæma í málum, sem snerta l., sem hann hefur sjálfur sett.

Það er síður en svo, að ég vilji móðga hæstv. ráðh., en hér er um principmál að ræða.