08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

27. mál, fjárlög 1944

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Á þskj. 609, XII er till. frá utanríkisráðh. um nýjan lið, nr. 27 við 22. gr., svohljóðandi:

„Að greiða úr ríkissjóði til hjálpar- og endurreisnarstofnunar hinna sameinuðu þjóða þátttökugjald Íslands í rekstrar- og stjórnarkostnaði í samræmi við aðra þáttakendur.“

Í sambandi við þessa till. vil ég leyfa mér að vísa til þeirrar skýrslu, sem ég gaf þm. fyrir nokkrum dögum um, að þá var fram komin á stjórnarfundi hjálparstofnunarinnar um að allir þátttakendur greiddu sem svarar 1% af þjóðartekjum sínum, miðað við seinna missiri ársins 1942 og fyrra missiri 1943, — greiddu 1% af þjóðartekjum hvers þátttakanda til reksturskostnaðar og stjórnarkostnaðar. Síðan ég gaf þm. þessa skýrslu, hefur stjórnarfundur samþ. þessa till., og verður því væntanlega innan skamms gengið eftir því að fá a. m. k. nokkurn hluta þessa fjár greiddan frá þátttakendum. Ég gerði grein fyrir því þá, að óhjákvæmilegt yrði að veita stj. í sambandi við þátttökuna í þessari hjálparstofnun heimild til þess að greiða það, sem farið væri fram á. Þessi till., sem ég ber hér fram, er gerð í samráði við forustu allra fjögurra stjórnmálaflokkanna hér í þinginu, og vænti ég þess, að fullur einhugur geti orðið um afgreiðslu hennar, en verði till. samþ., leggur stj. þann skilning í samþykkt hennar, að hún hafi heimild til að greiða, eins og ég hef lýst, þátttökugjald reiknað út eftir þjóðartekjum fyrir tiltekinn tíma, og verði þá um þann útreikning höfð sama regla og þær þjóðir hafa, sem þegar hafa gefið ákveðið upp um sín framlög. En eftir því hefur verið leitað, hvaða reglur þær hafa haft við sína útreikninga, og eru væntanleg svör um það nú innan skamms. Ég vona, að ekki þurfi hér á hinu háa Alþ. að verða neinar verulegar umr. um þetta atriði, með því að búið er að ræða málið svo ýtarlega hér áður.

En áður en ég sezt niður, tel ég ástæðu til þess, að gefnu tilefni í ræðu hv. þm. Barð., út af fyrirspurn hans eða aths. út af rannsókn á Þormóðsslysinu á síðast liðnum vetri, að geta þess hér, að þeirri rannsókn hefur verið haldið áfram og hraðað svo sem kostur var á, og að rannsókninni er nú lokið og, eins og venja er til, þá hefur atvinnumálaráðuneytið sent rannsóknina til dómsmálaráðuneytisins, til þess að það gæti athugað það, hvort ástæða sé til að höfða mál út af því, sem rannsóknin hefur leitt í ljós, og ef svo væri, þá gegn hverjum. Mér er kunnugt um, að þessi athugun dómsmálaráðuneytisins fer nú fram, og þykir mér líklegt, að ekki verði langt að bíða, þangað til hægt verður að gefa almenningi og Alþ. upplýsingar um málið. En ég hef litið svo á, að það væri æskilegast, að þetta færi ekki í pörtum út úr ráðu neytinu, heldur verði skýrt frá niðurstöðum í málinu á þann hátt, sem venjulegur er, þegar gengið er frá málum.