08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

27. mál, fjárlög 1944

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Tveir hv. fjvn-menn hafa borið fram brtt. við brtt. mína á þskj. 605 um styrk til Þingeyrarhrepps. Ég get út af fyrir sig verið þakklátur þessum mönnum fyrir það, að þeir fallast á það, að hér sé tilefni til styrkveitingar. Og eins fyrir hitt, að þeir hika ekki við í sinni till. að nefna þann ákveðna hrepp til, án þess að gera till. almenna. En um fjárhæðina verð ég að segja það, að ef þetta tilefni er svo sérstakt, sem þarf til þess að bera fram slíka till., þá finnst mér varla vera hægt að telja eftir 50 þús. kr. í þessu sambandi. Annars verður þetta að ganga eftir atkvæðum, hvaða fjárhæð er samþ. í þessu efni. — Að öðru leyti er ég ekki ánægður með orðalag brtt. þessara hv. þm. Samkvæmt minni till. á þessi styrkur að ganga til Þingeyrarhrepps, það á að greiða Þingeyrarhreppi þennan styrk. En samkv. þeirra till. á þskj. 622, IV á „að verja úr ríkissjóði allt að 100 þús. kr. sem aukastyrk til eflingar útgerð í Þingeyrarhreppi, að fengnum tillögum hreppsnefndarinnar, þó ekki yfir 25% af kostnaðarverði skipa.“ Ég sé ekki annað en eftir þessari till. þeirra eigi styrkurinn að ganga til einstakra manna. Það var af ásettu ráði, að ég orðaði till. svo, að styrkurinn ætti að ganga til hreppsins og verða hans eign, því að með því móti finnst mér minnst mismunað mönnum. En með því móti að fara að veita þennan styrk sem aukastyrk ofan á aðra styrki til einstaklinga þá álít ég, að það mundi valda misrétti milli einstaklinga í landinu. Að þeir hugsa sér, að þessi styrkur verði veittur til einstaklinga, kemur líka fram í því, að þeir setja ákvæði í sína brtt. um það, að ekki megi veita meira en sem svarar 25% af kostnaðarverði skipa. Nú á ég ekki við það, að þessi styrkur verði helmingur af kostnaðarverði skips eða 2/3 eða þess háttar. En eftir minni till. á þessi styrkur að ganga til hreppsfélagsins, og þá er ekki eins mikil nauðsyn á að hafa slíkt ákvæði í till., sem þeir tveir hv. þm. hafa í sinni till. viðkomandi hlutfalli styrks við kostnaðarverð. Ég hafði hugsað mér, að ráðh. gæti veitt 1/3 hluta af kostnaðarverði báts. En við það er ráðh. vitanlega ekki bundinn í till., en honum er ætlað að dæma og úrskurða um það, hversu skynsamlegar ráðstafanir hreppsins eru í þessu sambandi, og leiðrétta, ef farið er út í einhverjar öfgar í því efni. — Þá skal ég geta þess, að samkv. till. þessara tveggja hv. fjvn-manna, þá er það ríkisstjórnin, sem á að hafa frumkvæðið um þetta mál, en hreppsnefndin hefur leyfi til að gera sínar till. Ég legg á hitt ríka áherzlu, að hreppsnefndin hafi frumkvæðið. Hún er sínum hnútum kunnugust. Og ef styrkurinn á að greiðast til hennar, eins og lagt er til í minni till., þá er það sjálfsagður hlutur, að hreppsnefndin hefur hér frumkvæðið, og þarf svo ekki annað en bera sínar till. eða það, sem hún hefur í hyggju í þessu efni, undir ríkisstj. til samþykktar. — Ég segi þetta ekki af vantrausti á hæstv. ríkisstjórn í þessu sambandi, heldur hygg ég, að hún muni varla fyrir sitt leyti óska þess að þurfa að bæta einni stofnuninni enn, útgerðarfélögum, ofan á öll sín störf. Hæstv. ríkisstjórn hefur fleiri hnöppum að hneppa, og það er nóg á hana lagt í þessu sambandi, þó að hún eigi ekki að gera meira en að ákveða í samráði við hreppinn um ráðstöfun á þessu fé, sem til Þingeyrarhrepps á að veita eftir minni till.

Annað hygg ég ekki, að þurfi að taka fram í þessu sambandi. En af þessu, sem ég hef tekið fram, sést, að það er allmikill munur á brtt. þeirra tveggja hv. fjvn-manna um þetta efni annars vegar og þeirrar till. hins vegar, sem ég ber fram.