13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

68. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég segi eins og aðrir hv. þm., sem hafa staðið hér upp í kvöld, að ég skal ekki vera fjölorður um þetta mál. Ég ætla ekki að fara í kappmæli við þá meirihlutamenn, því að ég veit, að ég er ekki nema þeirra annarrar handar maður að orðamælgi og málskrúði, svo að ég ætla mér ekki þá dul.

Ég er ekki frv. samþ. eins og það er, eins og fram kemur í áliti minni hl. Ég hefði líka óskað, að Búnaðarþing hefði getað athugað málið, áður en það yrði afgr. frá þinginu. En þrátt fyrir þetta tel ég sjálfsagt að draga þetta frv. ekki svo mjög sem meiri hl. vill, heldur láta það ná afgr. sem allra fyrst, því að ég veit, að mjög má laga það í meðferð, og ég efast ekki um, að ekki skortir okkur góð handtök í málinu, ef meiri hl. tekur til starfa, sem ég efast ekki um, að verða mundi með góðum hug og miklu atfylgi. Ég vil segja, að eins og er ástatt, finnst mér, að með mjög löngum undirbúningi undir þetta mál, sem hv. 3. landsk. talaði um, að tæki a. m. k. þrjú ár, að það tækifæri mundi tapast, sem nú virðist vera í þessu efni. Og ég er í vafa um, hvort við getum þá tekið það á sjö árum, sem nú er talað um að vinna á tíu árum. Það hefur líka nú þegar verið hafin byrjun að þessum framkvæmdum, þar sem búið er að mæla mestallt túnþýfi landsins, og það er nokkur undirbúningur. Þá er á það að líta, að efnahagur er nú með betra móti hjá landbúnaðinum og bændur mega sín nokkurs nú bæði til vélakaupa og jarðræktarframkvæmda. Við vitum ekki, hvort atvinna verður með jafnmiklum blóma áfram og verið hefur. Við getum hugsað okkur, að enda þótt næg atvinna verði að sumrinu, þá geti orðið hægara fyrir bændur, bæði vor og haust og ef til vill að vetri til, að fá menn til starfa, og það getur komið sér vel að geta hagnýtt þá vinnu, meðan menn eru það efnum búnir, að þeir geta lagt í framkvæmdir. Ég held því, að það sé mjög athugavert að sleppa þessu tækifæri og láta dragast í þrjú ár að hefjast handa í þessu máli. Nú vitum við, að tækifæri er til vélakaupa. Eins og bent var á við 1. umr., hafa „jeep“-bílarnir reynzt prýðileg áhöld, þótt þeir séu ekki stórvirkir, og svo er með aðrar vélar, sem inn í landið eru komnar og notaðar hafa verið við þessi störf.

Hv. 3. landsk. álítur, að standast mundi á styrkur og kostnaður við þúfnasléttun. Verið getur, að í einstöku tilfellum muni það ekki afar miklu, en ég held, að í flestum tilfellum muni það ekki lítilli upphæð. Menn gleyma oft að reikna með einum stærsta útgjaldaliðnum við að gera túnrækt sæmilega, en það er áburðurinn, sem þarf óhjákvæmilega, ef ræktunin á að verða að nokkru gagni, svo að þótt styrkurinn sé mikill stuðningur, þá er það samt víst, að bændur yrðu að leggja fram stórfé til þessara framkvæmda.

Ég held að það geti orðið nokkuð seint að fara fyrst eftir nokkur ár að kaupa vélar, reyna þær og setjast síðan á rökstóla og semja nýtt frv. og ekki byrja starfið sjálft, fyrr en því öllu er lokið. Ég efast ekki um góðan vilja hv. samnm. minna til að koma aukinni jarðrækt í framkvæmd, en ég held, að þeim hafi yfirsézt í þessu. Ég tel, að miklu réttara væri að lagfæra þetta frv., sem ég held, að gæti orðið mjög nýtilegt, ef nauðsynlegar breyt. væru á því gerðar, og láta svo til skarar skríða.

Ég þarf svo ekki að segja fleira um þetta og get látið máli mínu lokið.