21.09.1943
Efri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2211)

6. mál, ákvæðisvinna

Flm. (Jónas Jónsson) :

Þetta mál var lagt fram í byrjun þessa þings og hefur hvílt sig í sumar, eins og hv. þm. er ljóst.

Ég hef tekið hér fram í grg. þau rök, sem ég tel, að liggi til þess, að full ástæða sé til að kynna sér, hvernig tvær stórþjóðir, Bandaríkin og Sovétríkin, hafa með góðum árangri komið fyrir ákvæðisvinnu — skipulagi, sem líkur eru til, að eigi betur við hér heldur en það, sem við eigum nú við að búa.

Það er kunnugt, hvar þessi aðferð með ákvæðisvinnu hefur komizt lengzt og fyrst á hátt stig, en það er í Ameríku, eins og t. d. í bílaframleiðslunni. Þar hafa vinnuafköstin náð því hástigi, að sennilega er ekki hægt að komast lengra. Þar nást bæði mikil vinnuafköst, og þar er einnig tryggt, að duglegir menn fái kaup nákvæmlega í samræmi við vinnuafköst þeirra. Það má segja, að þetta sé hið fullkomnasta skipulag með tilliti til hagsmuna framleiðenda og þeirra, sem vinna við framleiðsluna, ef það er ekki sami aðilinn. Ég tel mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. reyni sem fyrst að afla sér upplýsinga í þessu máli frá Ameríku og e. t. v. Rússlandi, þegar tímar líða, ef það er ekki hægt nú.

Ég gæti hugsað mér, að það þætti við eiga, að mál þetta færi til n. og þá líklega til allshn.