22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

115. mál, fjárhagsár ríkisins

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að breytt verði fjárhagsári ríkisins á þann hátt, að í stað almanaksársins, frá 1. jan. til 31. des., skuli fjárhagsárið vera frá 1. júlí til 30. júní.

Það er dálítið einkennilegt, að fyrsti landsreikningurinn, 1873, er frá 1. apríl til 31. des., en þá hefur fjárhagsár danska ríkisins verið — sem nú — frá 1. apríl til marzloka. Síðan virðist því ekki gefinn neinn gaumur, en fylgt almanaksárinu, og sýnast það vera gamlar leifar, sem við höfum byggt á. Þetta verður meira áberandi, þegar við aðgætum, hversu óeðlilegt er, að fjárhagsár okkar sé almanaksár, samkv. þeim reglum, sem farið er eftir, að leggja fjárl. fram tíu mánuðum áður en fjárhagsárið byrjar.

Ég þarf ekki hér að lýsa því, hversu miklir erfiðleikar það eru að gera áætlanir um ríkisreksturinn tíu mánuðum áður en þær eiga að koma til framkvæmda, ekki sízt á öðrum eins tímum og nú. Ef að því er horfið að breyta fjárhagsári ríkisins á þann hátt, sem hér er farið fram á, þá er það fyrst að athuga, að með þinghaldi á sama tíma og nú er getur Alþ. gengið frá fjárl. fyrir næsta ár einum til tveim mánuðum áður en þing byrjar. Þar að auk gæti þingið haft við höndina ríkisreikninga fjárhagsársins á undan, endurskoðaða, í stað þess, að nú eru erfiðleikar á því að hafa þá við höndina. Þetta má segja, að geri nokkrar breyt. fyrir bókhald ríkisins og ríkisstofnana í eitt skipti, en ég tel þau óþægindi svo lítil í samanburði við þann kost, sem þessi breyt. mundi hafa, að ekki sé í það horfandi.

Það getur ekki verið af handahófi, að fjárhagsár flestra annarra landa eru ekki almanaksár, t. d. frá 1. apríl í Bretlandi og Danmörku og frá 1. júlí í Bandaríkjunum, Noregi og Svíþjóð. Það hefur sem sagt komið á daginn, að þau hafa fundið, að það var ekki heppilegt að hafa fjárhagsárið sama og almanaksárið.

Ég hef svo ekki mál mitt lengra, en leyfi mér að vísa málinu til fjhn.