07.09.1943
Neðri deild: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2338)

9. mál, lögreglustjórn o.fl. í Reykjavík

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Frv. það, sem liggur nú fyrir á þskj. 9, var flutt af 3 þm. hér í hv. d. á síðasta Alþ. Aðalatriði þess er það, að það verði gert að skilyrði fyrir veitingu lögreglustjóraembættisins hér í Reykjavík, að lögreglustjóri fullnægði hinum almennu dómaraskilyrðum, þar á meðal því, að hann sé löglærður.

Sú eina breyt., sem er á frv. eins og það er nú, frá því, sem það var á fyrra þingi, er sú, að gert er ráð fyrir, að l. þessi öðlist þá fyrst gildi, er núv. lögreglustjóra hefur verið veittur kostur á öðru starfi.

Allshn. hafði þetta frv. til athugunar og sendi það til hæstaréttar og lagadeildar háskólans til athugunar. Frá hæstarétti kom engin álitsgerð, en frá lagadeild háskólans álitsgerð, þar sem mælt er með, að frv. nái fram að ganga.

Ég tel mig ekki þurfa að fara mörgum orðum um þetta frv. Í grg. er gerð grein fyrir því, hverja nauðsyn við flm. teljum til þess bera að setja þetta ákvæði inn í l. og hvers vegna við flytjum þetta frv.

Ég tel eðlilegt, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.