28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2366)

60. mál, alþjóðlegt félagsmálastarf

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef í rauninni ósköp litlu við það að bæta, sem hv. flm. tók fram til viðbótar því, sem stendur í grg.

Eins og hann tók fram, var ákveðin ein umr. um þessa þáltill., en það gæti komið til greina að fresta umr. og láta till. ganga til n. En með því að þáltill. gengur ekki lengra en það, að láta fram fara athugun á því, hvort Ísland geti tekið þátt í alþjóðlegu félagsmálastarfi og undirbúning þar að lútandi, þá get ég ekki séð, að það sé nokkur þörf á að vísa þáltill. til n. En ég fyrir mitt leyti tel, að athugun og undirbúningur á þessu sé svo mikils virði, að þingið ætti að samþ. þessa þáltill., og þá mundi ríkisstjórnin gera allt, sem í hennar valdi stæði, til þess að þessi rannsókn gæti farið fram hið allra fyrsta. Ég tel, að það atriði, hvort við ættum að beiðast upptöku í Alþjóðlega vinnumálasambandið, sé eitt af rannsóknaratriðunum og að beiðnin um upptöku mundi bíða, þangað til að séð verður, hvernig Alþjóðlega vinnumálaskrifstofan kemur til með að starfa eftir stríðið.

Eins og hv. flm. tók fram, þá var Alþjóðlega vinnumálasambandið í fyrstu ein grein Þjóðabandalagsins og starfaði innan vébanda þess. En eftir því sem tímar liðu, varð það óháðara þjóðabandalaginu og gat því innt störf sín fyllilega af hendi með stuðningi allra þjóða, eftir að Þjóðabandalagið hafði misst mátt sinn við það, að sum stórveldin gengu úr því. Eins varð það vinnumálasambandinu ómetanlegur styrkur, að Bandaríkin gerðust aðili að því, og áður en stríðið brauzt út, varð Weynant forseti Alþjóðlegu vinnumálaskrifstofunnar, en það var mikil heppni fyrir skrifstofuna, því að einmitt fyrir ötula framgöngu hans var hún flutt vestur um haf skömmu eftir, að stríðið brauzt út, og hefur hún síðan verið starfrækt þar, þó ekki í Bandaríkjunum, heldur í Kanada.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þessa till. frekar, en ef Alþ. samþ. hana, þá mun ríkisstjórnin greiða fyrir henni eftir megni.