06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

30. mál, einkasala á tóbaki

Brynjólfur Bjarnason:

Hæstv. ráðh. er nú ekki viðstaddur. En á meðan get ég minnzt á það, sem hv. þm. Str. sagði hér, að hann mundi greiða atkv. með þessu frv., enda þótt hann vissi ekki full skil á því, til hvers ætti að nota féð. Ég á ákaflega erfitt með að skilja þessa stefnu hv. þm. Ég get ekki skilið hana öðruvísi en svo, að hann sé í grundvallaratriðum samþ. því, að verð á tóbaki sé sem allra hæst, og að hann fylgi frv. af því, að hann álíti það heillavænlegt fyrir landslýðinn, — því að frá öðru sjónarmiði getur maður ekki verið með frv. um að hækka tekjur ríkissj. með nýjum álögum á landslýðinn, þegar maður veit ekki, til hvers á að nota þær tekjur, og er ekki búinn að gera sér grein fyrir því, hvort ríkissj. er þörf á þessum fjárauka. Annars skildist mér hv. þm. gera ráð fyrir, að þetta fé yrði notað til þess að halda dýrtíðinni niðri, borga hana niður, og það er náttúrlega annað sjónarmið. Væri hann þá því fylgjandi að halda dýrtíðinni niðri með fjárgreiðslum úr ríkissj. Í öðru orðinu fannst mér hann telja þetta óheillastefnu, en fylgja vildi hann henni samt, af því að ekki væri annað að gera en halda út, úr því að byrjað væri. En ég vildi aðeins benda á það, að það er ekki verið að borga niður neina dýrtíð með því að hækka verð á tóbaki eða með því að hækka verð á neinum vörum. Það er í sjálfu sér ákaflega einkennileg aðferð til þess að lækka verðlag í landinu að hækka verð einhverra ákveðinna neyzluvara. Það er augljóst mál, að tilgangurinn er ekki sá, heldur hitt, að lækka vísitöluna, — ekki dýrtíðina, m. ö. o. að lækka kaupið. Það er bezt að segja þetta alveg hreint út, þannig að menn geri sér alveg fulla grein fyrir því, hvað er hér um að ræða.

Annars er ákaflega erfitt að fara út í umr. um þetta mál, meðan ekki er upplýst, hver tilgangurinn er hjá ríkisstj. með frv. Fyrirspurn mín til hæstv. ráðh. var á þá leið, hvort hann vildi gefa yfirlýsingu til þingsins um það, að ríkisstj. mundi ekki ráðstafa þessu fé, án þess að samþ. þingsins kæmi til. Hann svaraði á þá leið, að í fyrsta lagi mundi ríkisstj. ekki ráðstafa þessu fé né öðru án heimildar, í öðru lagi hefði Alþ. í hendi sér að kippa þessari heimild burt, ef Alþ. litist svo sem þetta fé væri notað á annan hátt en þingið óskaði eftir. Ég hygg, að þetta sé rétt haft eftir, en ef svo er ekki, leiðréttir hæstv. ráðh. það. Ég veit ekki með vissu, hvað hæstv. ráðh. á við með hinu síðara, að þingið gæti kippt heimildinni burtu, ef það teldi hana ekki rétt notaða. Ég átti alls ekki við það, með hverjum hætti álagningin á tóbakið yrði framkvæmd, heldur átti ég við hitt, að ráðstöfunarrétturinn á fénu væri í höndum Alþingis.

Þetta er náttúrlega alveg ófært, og mér skilst, að það sé alveg ómögulegt fyrir Alþ. að samþykkja lög eins og þessi án þess að ganga úr skugga um, hvort litið er svo á, að ráðstöfunarrétturinn sé í höndum Alþ., og vegna þess þarf þ. að fá skýlaus svör. Hæstv. ráðh. sagði, að fénu yrði ekki ráðstafað án heimildar. Hvernig á að skilja þetta? Það kemur hér sem eins konar véfrétt. Hann vildi ekki svara, heldur aðeins með þessu: Stjórnin ráðstafar ekki án heimildar. Ég get ekki lagt annan skilning í þetta en þann, að stj. þykist hafa einhvers konar lagaheimild til þess að nota þetta fé án þess að þurfa að bera það undir þingið. Annars eru mér svör hæstv. ráðh. alveg óskiljanleg, og þar sem mér virðist, að frá öllu skynsamlegu sjónarmiði og eftir öllum venjulegum reglum hljóti úrslit þessa máls að velta á því, hvort stj. svarar skýrt og ákveðið, að hún muni ekki ráðstafa fénu án þess að leggja það fyrir þingið, hvernig því skuli varið, skilst mér, að þingið hljóti að krefjast þess að fá um þetta atriði skýr svör.