10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2614)

139. mál, stríðsgróðaskattur

Jakob Möller. Út af aths. hv. 6. landsk. þm. (LJós) vil ég víkja aðeins að því, að ég sem fjhnmaður get ekki fallizt á að hækka þessa hlutdeild í stríðsgróðaskattinum vegna þeirra bæjar- og sýslufélaga, sem enginn stríðsgróðaskattur er greiddur í. Frá mínu sjónarmiði væri allt öðru máli að gegna, ef um það væri að ræða að veita hlutdeild í tekjuskattinum, reglulegum tekjuskatti, sem greiddur er til ríkissjóðs, vegna þess að tekjuskattur er víðast hvar greiddur, en stríðsgróðaskatturinn er tekjustofn þeirra sveitarfélaga, þar sem hann fellur til. Og þegar gengið hefur verið inn á þá braut að ætla þeim sveitar- og bæjarfélögum sérstakl., þar sem stríðsgróðaskattur fellur til, hlut af honum, þá byggist það á því, að með því að taka stríðsgróðaskattinn sé gengið á tekjustofna þeirra bæjar- og sveitarfélaga. En um slíkt er ekki að ræða, þar sem enginn stríðsgróðaskattur er greiddur. Þess vegna horfir þetta öðruvísi við, þegar fara á inn á þá leið að láta önnur bæjar- eða sveitarfélög en þau, sem greiða stríðsgróðaskatt, fá hlutdeild í honum, því að þá er verið að gera þau sveitarfélög, sem greiða ekki stríðsgróðaskatt, þátttakandi í tekjustofnum annarra sveitarfélaga. Og það er ákaflega mikið umdeilanlegt, hvort það er réttlætanlegt á nokkurn hátt.

En hins vegar geri ég ráð fyrir því í sameiginlegu nál. meiri hl. fjhn., sem mælir á móti því, að þessi hækkun verði gerð, sem í frv. er gert ráð fyrir, á hlutdeild bæjar- og sýslufélaga í stríðsgróðaskattinum, að ekki sé fært að ganga lengra í því að skerða þessar tekjur ríkissjóðs með því að hækka þennan hlut úr 5% í 15%.