22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2739)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Flm. (Finnur Jónsson) :

Það má vel vera, að þessi till. sé algert einsdæmi í þingsögunni, en ég verð að segja, að framkoma olíufélaganna gagnvart sjávarútveginum, þingi og stjórn sé líka algert einsdæmi. Hv. þm. Snæf., sem átti sæti í dómnefnd í verðlagsmálum, hlýtur að vita, að það þarf ekki leyfi stj. til þess að lækka verðið í landinu, en olíufélögin bera það blákalt fram, að þau hafi ekki getað fengið leyfi stj. til þess að lækka verðið á vörunni, og þegar þau senda viðskiptaráði upplýsingar, þá gerast þau svo djörf að telja það ekki upplýsingar til þess að dæma eftir, hvað verðlagið eigi að vera á olíu, heldur áttu þær að vera viðræðugrundvöllur af hálfu þessara stórlaxa. Hvernig væri það, ef allir aðrir í verzlunarstétt landsins sendu viðræðugrundvöll í staðinn fyrir upplýsingar? Það er líka eftirtektarvert, sem kom fram í ræðu fjmrh., að heimildin til álagningar væri ekki nema af því, sem olíufélögin buðu að lækka olíuna um. Þegar um er að ræða sölu á einni helztu nauðsynjavöru landsmanna, sem framkvæmd er með eins miklum yfirgangi og hér gerist, þá er ekki úr vegi, að þingið bendi stj. á, að rétt sé að láta fara fram opinbera rannsókn í málinu. Hitt er vitanlegt, að um sakamálshöfðun tekur stj. ákvörðun. Það er líka víst, að með opinberri rannsókn hefur stj. miklu betri aðstöðu til þess að afla sér allra gagna en verðlagsn., og það veit ég, að dylst ekki hv. þm. Snæf., svo lögfróður sem hann er.

Annars vekur það undrun mína, hve viðkvæmur hv. þm. Snæf. er fyrir opinberri rannsókn á olíufélögin. Hann var ekki svona viðkvæmur fyrir opinberri rannsókn á kollega sinn einn, sem ríkisstj. fyrirskipaði nýlega. Það er sakamálsrannsókn, og er ekki vitað, að þessi maður hafi framið neitt það, sem mundi gera hann að glæpamanni, og hv. þm. Snæf. hefur ekki fundið ástæðu til að mótmæla hér á Alþingi, að þessi rannsókn sé látin fara fram, en þegar um það er að ræða að láta fara fram rannsókn viðvíkjandi því, sem ekki er hægt að sjá, að sé annað en freklegt brot á verðlagsákvæðum landsins, og snertir eina helztu nauðsynjavöru landsmanna, olíuna, þá er eins og komið sé við fínu taugarnar í þessum hv. þm. Mér þykir þetta leitt, af því að ég hafði engar hugmyndir um, að neinir þræðir lægju milli hv. þm. Snæf. og olíufélaganna.