22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2742)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Gunnar Thoroddsen:

Af undirtektum hæstv. fjmrh. eftir ræðu hv. þm. Ísaf. virtist mér hann taka undir till. Hann virtist því ekki mótfallinn, að Alþingi samþ. sakamálsrannsókn, en þó varð ekki ljóst, að hann gerði sér fulla grein fyrir eðli slíkrar rannsóknar. Hjá hv. þm. Ísaf. hefur ekki heldur komið sá skilningur fram. Með opinberri rannsókn er jafnan átt við sakamálsrannsókn, sem dómari framkvæmir vegna grunar um refsivert framferði. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það, að eðlilegt sé, að viðskiptaráð rannsaki þetta mál ofan í kjölinn og beiti í rannsókninni öllu því valdi, sem því er heimilað að lögum, til að afla sér um það nauðsynlegra gagna. Ef eitthvað saknæmt kemur fram við þá rannsókn, kemur til kasta Alþingis eða ríkisstj. að fyrirskipa sakamálsrannsókn. Það er allt annað eða að ákveða opinbera rannsókn strax, enda tók ég fram, að ég er samþ. 2. lið. till. Hv. þm. Ísaf. fór út í önnur mál, sem ekki snerta þetta, og spurði, hví ég hefði ekki mótmælt rannsókn, sem hafin væri á háskólakennara einum. Ég veit ekki til, að rannsókn sú sé sakamálsrannsókn, því mun fjarri fara, en bezt er fyrir þm. að láta hana liggja í þagnargildi. — Ég vænti þess, að málinu verði frestað og vísað til n.