06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætlaði einnig að tala um þessa sömu till., sem hv. þm. Ak. hefur lýst hér, út af ummælum, sem hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. N.-M. hafa látið falla um hana, þar sem þeir teldu báðir, að hún stefndi í öfuga átt og væri þannig til ógagns. Ég áleit hins vegar, þegar ég gerðist meðflm. að henni, að hún væri til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni.

Ég varð alveg undrandi, þegar ég heyrði koma fram raddir um það, að ríkið ætti að blanda sér í skipun niðurjöfnunarn. í kaupstöðum. Því var haldið fram, að það væri nauðsynlegt, að í hverri niðurjöfnunarn. væri maður, sem mætti telja óháðan og vanur væri að fást við kerfisbundinn útreikning í skattamálum, og að það væri nóg að hafa í n. fjóra pólitíska fulltrúa, sem gætu rifizt um það sín á milli, hvernig jafna skyldi niður. Ég held, að sá, sem verður skipaður þannig af ríkisstj., verði jafnpólitískur og hinir, sem kosnir verða. Ég hef ekki orðið þess var, að þeir, sem hafa verið skipaðir af ríkisstj., væru neitt óháðari en aðrir. Það er nú þannig, að sá pólitíski ráðh., sem situr á hverjum tíma, hefur tilhneigingu til að skipa sinn pólitíska flokksmann, og þá er hætt við, að hin eðlilegu pólitísku hlutföll í viðkomandi bæjarstjórn mundu raskast. Hvers vegna ætti ríkið að fara að blanda sér í bæjarmálefni eins og niðurjöfnun útsvara? Ég tel það í mesta máta óeðlilegt, ef þessir fjórir kaupstaðir eiga á þennan hátt að verða harðar leiknir en önnur sveitar- og bæjarfélög landsins, að hafa þannig einn starfsmann sinn skipaðan af ríkinu, meðan aðrir bæir fá að ráða alla sína starfsmenn sjálfir. Ég vil benda á það, að munurinn á niðurjöfnunarn. og skattan. er mjög mikill. Skattan. fá visst form til þess að fara eftir við útreikning skattanna, en niðurjöfnunarn. þurfa að ákveða, eftir hvaða mælikvarða útsvörin skulu innheimt á hverjum tíma, og það er óeðlilegt, að fulltrúi ríkisins skuli geta tekið völdin af meiri hl. bæjarstjórnar um ákvörðun þessa mælikvarða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en ég trúi því varla, fyrr en ég tek á, að Alþ. fari að samþ. að svipta þessa fjóra kaupstaði réttindum til þess að velja starfsmenn sína sjálfir.